Ásmundur Friðriksson

Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins – Suðurkjördæmi

„Ritari Sjálfstæðisflokksins, stofnfélaga og gestir.

Það fylgir því ábyrgð að vera fullveðja, taka ábyrgð á sjálfum sér, athöfnum og afleiðingum þeirra. Þroski og reynsla er gangur lífsins sem færir okkur fullveldi yfir okkur, frjálsum og fullveðja einstaklingum.

Þjóðir verða ekki fullvalda af sömu ástæðu og við mannfólkið. Íslendingar börðust fyrir fullveldi yfir marga mannsaldra. Þeim sigri er fagnað í dag á 101 árs afmæli fullveldis okkar.

En það fylgir því ábyrgð að vera fullvalda þjóð, ríki með stjórnarskrá og lög sem okkur ber að aðlagast og haga lífi okkar eftir.

Það kemur þó ekki í veg fyrir sjálfstæða hugsun, skoðanir okkar eða val á leið til þess lífs sem við kjósum að eiga. Í því felst frelsi einstaklingsins.

Kæru vinir;  Það er sameiginleg skylda okkar að byggja upp réttlátt samfélag. Samfélag sem við hvert og eitt eigum jafnan rétt til þeirra gæða sem auðlindir landsins gefa af sér.

Fólk með öðruvísi hæfileika, minni starfsgetu og aldraðir eiga skýlausan rétt á mannsæmandi lífi af þeim auði. Höfum það jafnan í huga að ekkert samfélag verður sterkara en veikasti hlekkurinn.

Ísland er ríkt af auðlindum og það setur þjóðinni skyldur á herðar að umgangast þau verðmæti af þeirri virðingu sem sæmir nútíma þjóðfélagi. Arður auðlindanna á upphaf og endi í samfélagi sem gefur hverju mannsbarni tækifæri til að njóta þeirra verðmæta sem auðlindin skapar þjóðinni. Réttin til menntunar, heilbrigðisþjónustu og sömu tækifæra í lífinu.

Frjór jarðvegur landsins, orkan í iðrum jarðar, fallvötnin, fiskurinn í sjónum og fegurðin er sameiginleg eign okkar íbúa í fullvalda ríki. Við erum þjóð sem lætur ekki frá sér auðlindir, eins og fiskimiðin eða semur um stjórn þeirra, eða afkomu til annarra ríkja með ólíka hagsmuni.

Við eigum að standa vörð um landbúnað, verða okkur nóg í afurðum garðyrkjunnar og nýta til þess ódýra orku í landinu. Skoða meðferð fiskistofna við Ísland í ljósi sjálfbærrar nýtingar og hámarks arðsemi. Þar fara saman hagsmunir veiðiréttarhafa, sjómanna og samfélagsins alls. Veiðar, vinnsla, samfélag og markaður er óslitin keðja í verðmætasköpun sem stendur undir bestu mögulegu lífsgæðum í landinu. Lífsgæðum okkar allra.

Ef hlekkir slitna og virðiskeðjan færist á eina hendi, koma brestir í þá sátt sem þarf að ríkja um nýtingu auðlindarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn lætur það aldrei gerast á sinni vakt.

Góðir fundarmenn; Við sjálfstæðismenn köllum eftir réttlátu samfélagi sem var grunntónninn í hugsjón sigurvegaranna í fullveldisbaráttunni. Hugsjón sem fólkið flykktist að. Skilaboðin mín sem sjálfstæðismanns hér í dag eru að við hlustum á raddir fólksins í landinu og þá vakna aftur væntingar um fyrri styrk Sjálfstæðisflokksins.

Ef við hlustum ekki, siglum við í strand rétt eins og skipstjóri sem hlustar ekki á siglingatæki skips síns.

Vonandi verður það skref sem hér er stigið í dag, sá neisti sem kveikir aftur það bál og baráttuanda sem kallar stéttir þjóðarinnar til sameiginlegar baráttu fyrir framförum, frelsi og réttlátari framtíðar, allra stétta. Í sterkum og víðsýnum Sjálfstæðisflokki.“