Viðar Guðjohnsen jr

Ávarp Viðars Guðjohnsens jr við opnun fundarins:

„Ég elska þig, stormur, sem geisar um grund

og gleðiþyt vekur í blaðsterkum lund,

en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur

og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.

Þú skefur burt fannir af foldu og hól,

þú feykir burt skýjum frá ylbjartri sól,

og neistann upp blæs þú og bálar upp loga

og bryddir með glitskrúði úthöf og voga.

Þú þenur út seglin og byrðinginn ber

og birtandi, andhreinn um jörðina fer;

þú loftilla, dáðlausa lognmollu hrekur

og lífsanda starfandi hvarvetna vekur.

Og þegar þú sigrandi um foldina fer,

þá finn ég, að þrótturinn eflist í mér.

Ég elska þig, kraftur, sem öldurnar reisir,

ég elska þig, máttur, sem þokuna leysir.

Ágætu sjálfstæðismenn.

Við erum hér saman komnir, á þessum hátíðisdegi, til að stofnsetja félag sjálfstæðismanna um fullveldismál. Stofnun slíks félags hefur lengi verið rædd innan Sjálfstæðisflokksins og er fyrir löngu orðin tímabær.

Mín tilfinning er sú að þetta félag getur orðið að einni virkustu og sterkustu einingu flokksins innan fárra ára. Flokknum til heilla.

Þetta segi ég því að Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður í kringum tvö ófrávíkjanleg og óumsemjanleg aðalstefnumál. Þau voru og vil ég lesa beint upp úr þeirri stefnuyfirlýsingu sem birtist í Morgunblaðinu degi eftir stofnun flokksins.

Númer eitt:

Að vinna að því og undirbúa það, að Ísland taki að fullu öll sín mál í sínar eigin hendur og gæði landsins til afnota fyrir landsmenn eina, jafnskjótt og 25 ára samningstímabil sambandslaganna er á enda.

 Númer tvö:

Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis, með hagsmuni allra stétta fyrir augum.

Undir þessa yfirlýsingu skrifa m.a. Jón Þorláksson, fyrsti formaður flokksins og Ólafur Thors, einn farsælasti formaður flokksins.

Þessi aðalstefnumál eru sál flokksins – hinn hái turn sem gegnir hlutverki vitans í síbreytilegu veðurfari stjórnmálanna.

Þessum gildum – um frjálsa þjóð í frjálsu landi – má aldrei gleyma og rétt eins og með aðra vita þá má heldur ekki vanrækja viðhaldið ef menn vilja ekki villast af leið.

Það var á þessum gildum sem Sjálfstæðisflokkurinn sigraði hug og hjörtu þjóðarinnar og það er einungis á þessum gildum sem hann getur talað sig inn í hjörtu landsmanna á ný.

Það eru þessi gildi sem eiga undir högg að sækja nú þegar hverslags umrót og stjórnlyndi er framkvæmt undir frjálslyndum merkjum. Það eru þessi gildi sem umrótsmenn vilja afnema úr huga Íslendinga.

Við sjáum öll hvernig lýðveldisdagurinn sjálfur er látinn mæta afgangi hér í Reykjavík. Þetta er með vilja gert.

Ágætu vinir.

Áskoranir okkar eru margar þessa dagana.

Undirgefni þeirra sem eru kosnir á Alþingi okkar Íslendinga er sérstaklega átakanleg þegar þeir segja frelsi og fullveldi fórnarkostnað í einhverri samvinnu þjóða sem gengur út á boðvald evrópskra kommissara.

Einhverslags örlagahyggja um að „við eigum engra kosta völ“ í mikilvægum málum – en líkt og Jón Þorláksson benti á, stuttu eftir stofnun flokksins, þá er ekki nóg að berjast fyrir sjálfstæðinu. Ávallt þarf að halda vörð þar um þegar sjálfstæðið er fengið. Með öðrum orðum. Það er ekki nóg að berjast fyrir frelsinu – fengið frelsi þarf að verja.

Því miður og ég segi því miður hefur ekki verið hugað að fullveldinu. Við sjáum þetta bersýnilega í þeim gámaförmum af því þunga og stjórnlynda regluverki sem Brussel sendir okkur. Ég segi stjórnlynda því það er ekkert frjálslyndi sem einkennir regluverk sem er orðið svo flókið að lögfróðir menn, jafnvel lagaprófessorar, geta ekki komið sér saman um afleiðingarnar. Flóknar leikreglur með hinum og þessum viðurlögum festa hinn almenna borgara í fjötra og eru í besta falli frelsi fyrir fáa og hvati fyrir fákeppni. Slíkt stjórnarfar endar alltaf með því að kremja niður dugnað. Biti hér og biti þar. Helsi hér og helsi þar. Hægt og rólega endar þetta illa.

Það er mikið rætt þessa dagana um að hemja hið sívaxandi bákn. Þetta eru orðin tóm ef við ráðum okkur ekki sjálf. Hvernig er hægt að treysta stjórnmálamönnum sem á einum tíma afnema þúsund blaðsíðna regluverk til þess eins að innleiða enn stærra og flóknara regluverk frá Brussel.

Það er þó ekki sjálfgefið að baráttan verði auðveld. Stundum virðist lítil von. Andstæðingar okkar munu beita öllum tiltækum ráðum. Fyrir fundinn var gert fárviðri því við birtum þessa fallegu mynd frá gullöld flokksins.

Í fersku minni er einnig Icesave baráttan. Aðildarferli að Evrópusambandinu. Ítrekaðar árásir á sjávarútveg og landbúnað. Landsala sem lýsir sér í miklu óhófi. Hvað þá umræðan um þriðja orkupakkann. Þar voru allir þeir sem studdu fullveldið sagðir einangrunarsinnar eða gamalmenni. Stundum af þeim sem okkur þykir vænt um og höfum varið og stutt.

Það má þó ekki láta slíkt slá sig út af laginu og það má aldrei gefast upp. Í slíkum farvegi eru nefnilega mikil tækifæri og gjöful mið.

Baráttugleðin og festa mun skipta öllu. Gleðin fyrir því að hafa eitthvað að berjast fyrir eins og Hannes Hafstein benti á í ljóði sínu. Að elska storminn.

Frá mínum bæjardyrum séð er ekkert baráttumál verðugra en fullveldið sjálft.

Ég elska þig, elska þig, eilífa stríð,

með ólgandi blóði þér söng minn ég býð.

Þú alfrjálsi loftfari, hamast þú hraður;

hugur minn fylgir þér, djarfur og glaður.

Ágætu vinir. Til hamingju með daginn og gleðilega aðventu. Ég segi þennan stofnfund settan.“