Styrmir Gunnarsson

Styrmir Gunnarsson f.v. ritstjóri formaður

„Góðir fundarmenn

Ég vil byrja á því að þakka fyrir það traust, sem þið sýnið mér með því að kjósa mig til formennsku í þessu nýstofnaða sjálfstæðisfélagi.

Það er sennilega hið fyrsta sem stofnað er um sérstakt málefni skv. ákvæði í skipulagsreglum flokksins, sem inn kom fyrir nokkrum árum, og kallar á samþykki miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins. Ósk um slíkt samþykki var send til miðstjórnar fyrir nokkrum vikum og verður tekin fyrir á fundi á þriðjudaginn kemur. Þar til sú ósk hefur verið samþykkt af miðstjórn telst þetta félag ekki vera hluti af skipulagseiningu flokksins.

Markmiðið með stofnun þessa félags er annars vegar að skapa sérstakan vettvang til þess að ræða málefni líðandi stundar og snerta fullveldi þjóðarinnar og hins vegar að halda uppi reglubundinni fræðslu, ekki sízt fyrir ungt fólk um sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Og þá er eðlilegt að spurt sé: af hverju?

Á síðustu misserum  hafa starfað hér þverpólitísk samtök, sem nefnast Orkan okkar, sem tóku upp baráttu gegn þriðja orkupakkanum frá ESB.

Í þeim samtökum hefur starfað hópur sjálfstæðismanna, karla og kvenna, sem hafa haft vissar áhyggjur af því á hvaða leið við værum sem þjóð í samskiptum okkar við Evrópuríkin.  Í þeim hópi sjálfstæðisfólks var tekin ákvörðun um að láta reyna á þetta tiltekna ákvæði í skipulagsreglum flokksins. Þess vegna erum við hér saman komin.

Eins og við mátti búast hefur það ekki gengið alveg hávaðalaust fyrir sig.

Í fyrradag var við mig sagt í einkasamtali að við værum með þessari félagsstofnun að væna flokkssystkini okkar um að standa ekki vörð um fullveldi þjóðarinnar, sem hefur verið grundvallarþáttur í starfi og stefnu Sjálfstæðisflokksins í 90 ár.

Við erum ekki að væna neinn um eitt eða neitt.

Við erum öll frjáls að skoðunum okkar enda skoðanafrelsi og tjáningafrelsi bundið í stjórnarskrá lýðveldis okkar.

Mynd í auglýsingu um stofnfund félagsins hefur farið fyrir brjóstið á sumum.

Hugmyndin að baki henni í auglýsingunni var einfaldlega að sýna með mynd af forsíðu Morgunblaðsins frá árinu 1942 tíðarandann í aðdraganda lýðveldisstofnunar. En þar sem í upphaflegri auglýsingu birtist einungis hluti myndarinnar en ekki forsíðan öll er kannski skiljanlegt að hún hafi misskilist.

Ég fullvissa ykkur hins vegar um, að hér er hvorki verið að stofna félag, sem aðhyllist nasisma eða fasisma, að ekki sé talað um stalínisma.

Ég hef hins vegar aldrei getað skilið að það væri eitthvað ljótt við það, að bera í brjósti sterkar tilfinningar til sögu þjóðar sinnar og þeirrar menningararfleifðar frá fyrri öldum, sem við höfum tekið í arf svo og til náttúru þessa lands.

Og það er ekkert ljótt við það.

Hvernig ætlum við að vinna að markmiðum þessa félags?

Annars vegar með því að efna til umræðufunda um málefni líðandi stundar sem tengjast fullveldi þjóðarinnar og hins vegar með fræðslufundum um lykilþætti í sjálfstæðisbaráttu okkar og baráttu okkar á seinni hluta 20. aldar fyrir yfirráðum yfir auðlindum þjóðarinnar.

Sem dæmi vil ég leyfa mér að nefna, að sjálfum finnst mér hin mikla Þingvallarræða Bjarna heitins Benediktssonar á sínum tíma vera efni í heilan fund.

Og annað dæmi. Á meðal okkar er enn maður, hvers móðurafi var formaður sambandslaganefndarinnar 1918. Hann hefur frá mörgu að segja. Hann heitir Matthías Johannessen og var ritstjóri Morgunblaðsins í meira en 40 ár.

Fyrir þeim sem standa að þessari félagsstofnun vakir ekki að efna til úlfúðar innan Sjálfstæðisflokksins heldur þvert á móti að stuðla að því að hann nái vopnum sínum á ný.

En við þá, sem líta þetta framtak okkar hornauga vil ég segja þetta:

Við sjálfstæðismenn þurfum að læra að ræða ágreiningsmál okkar og gera út um þau án köpuryrða hver í annars garð.

Skoðanamunur í svo stórum flokki – þótt hann hafi vissulega minnkað mikið – er eðlilegur, hefur alltaf verið til staðar og verður alltaf til staðar.

Það er engum til heilla að reyna að gera þennan flokk að einsleitum flokki, þar sem ein skoðun ræður ríkjum. Það er þvert á móti ástæða til að láta þúsund blóm blómstra. Þannig verður Sjálfstæðisflokkurinn sú þjóðarhreyfing, sem hann á að vera.

Fylgi flokksins fyrr á tíð hljóp á bilinu 37-42% . Mín skoðun er sú, að það hafi skipt sköpum í kalda stríðinu. Sjálfstæðisflokkurinn var hinn eini svonefndra lýðræðisflokka á þeim tíma, sem aldrei bognaði í þeim átökum, þar sem frjálsar þjóðir heims höfðu sigur að lokum.

Nú stöndum við frammi fyrir nýjum áskorunum, sem snúa að viðleitni Evrópuríkja til þess að sameinast svo að aldrei aftur verði stríð þeirra í milli.

Við vorum aldrei aðilar að þeim stríðsátökum, þótt þau snertu okkur beint.

En við þurfum á því að halda að hafa beinan aðgang að mörkuðum fyrir útflutningsafurðir okkar í Evrópu. Og staðreynd er að sá aðgangur hefur ekki fengizt nema með samningum, sem á ýmsan veg knýja okkur inn í kerfi sem þau eru að koma sér upp.

Aðlögun að því kerfi má ekki ganga of langt.

Þess vegna er það mín skoðun, að aldrei aftur megi erlendur togari veiða fisk á Íslandsmiðum.

Og með sama hætti að aðrar þjóðir megi aldrei ná tangarhaldi á annarri mestu auðlind okkar, sem er orka fallvatnanna.

Gleymum því heldur ekki að hinar merku menningarþjóðir Evrópu eiga sér sögu, sem fram á síðustu ár hefur ekki verið til umræðu í þeirra eigin ranni. Það er saga nýlenduveldanna. Hún snerist ekki sízt um það að arðræna auðlindir nýlendanna. Við höfum fengið nóg af slíku arðráni við Íslands strendur.

Nú fyrst eru sumar þessara þjóða, rúmlega hundrað árum seinna að byrja að horfast við eigin sögu og fortíð. Í Belgíu eru nú farið að breyta nöfnum á götum og torgum, sem hafa verið kennd við Leópold II, Belgíukonung. Og Belgar eru farnir að svipast um í söfnum, sem orðið hafa til vegna menningarverðmæta frá nýlendum þeirra.  Þið munið eftir baráttunni um handritin heim. Og Belgar eru jafnvel farnir að líta svo á, að verið geti að fyrrnefndur Leópold hafi verið það sem nú er kallað að vera fjöldamorðingi.

Og það eru jafnvel farnar að sjást vísbendingar um að Englendingar þurfi kannski að gera upp við eigin fortíð.

Í þá tíð fór þetta allt fram með hervaldi, alveg eins og Bretar stálu fiski við Ísland undir herskipavernd.

Nú gerist þetta með öðrum hætti og annars konar vopnum. Í stað hermanna fyrri tíma, sem í tilviki Belga þurftu að koma með líkamshluta til höfuðstöðva sinna til að sanna að þeir hefðu drepið mann, eru það skriffinnar í Brussel, sem með yfirgengilegum lagaflækjum reyna að komast yfir þær auðlindir, sem áður voru teknar af öðrum þjóðum með vopnavaldi.

Ég veit að þeir sem svona tala eru í pólitískum umræðum hér nú um stundir kallaðir einangrunarsinnar.

En ég spyr sjálfan mig og ykkur:

Voru það einangrunarsinnar, sem börðust fyrir því í tæplega hálfa öld, að Ísland tæki fullan þátt í varnarsamstarfi frjálsra þjóða heims á kalda stríðs árunum? Voru það einangrunarsinnar, sem leiddu okkur inn í NATÓ? Voru það einangrunarsinnar, sem börðust fyrir því að halda bandaríska varnarliðinu hér áratugum saman í hörðustu átökum, sem upp hafa komið á Íslandi, jafnvel í sögu okkar allri?

Ég man ekki eftir því, að hafa séð á þeim vígstöðvum þá sem nú hrópa að okkur: Þið eruð einangrunarsinnar.

Góðir fundarmenn:

Það er komið að lokum þessa stofnfundar Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál.

Nú bíðum við eftir niðurstöðum miðstjórnar og væntanlega verða þær á þann veg að við getum hafið starfsemi þessa félags í janúar.

Hún mun ekki beinast gegn einum eða neinum.

Hún mun snúast um þátttöku okkar í því að hefja Sjálfstæðisflokkinn til fyrri vegs vegna þess, að við getum ekki verið viss um að standast herdeildum skriffinnanna í Brussel snúning, nema þessi flokkur verði áfram sú kjölfesta, sem hann var mestan hluta 20. aldar í okkar samfélagi.

Til þess að svo megi verða verðum við að ná mun betur til þjóðarinnar en við gerum nú um stundir.

Þess vegna erum við hér!“