Ræða Styrmis um 3. orkupakka ESB

Framsöguræða Styrmis Gunnarssonar f.v. ritstjóra á opnum málfundi hverfafélaga Sjálfstæðisflokksins í Bakka-og Stekkjahverfi, Grafarvogi, Háaleitishverfi, Hlíða- og Holtahverfi, Kjalarnesi og Smáíbúða-, Bústaða og Fossvogshverfi í Reykjavík.

Haldinn í Valhöll fimmtudaginn  30. ágúst 2018

Málfundur um þriðja orkumálapakka Evrópusambandsins.

Góðir fundarmenn

Íslendingar standa nú á ákveðnum tímamót í samskiptum við Evrópusambandið (ESB).  Frá því EES samningurinn var gerður fyrir aldarfjórðungi, hefur ESB þróast á þann veg, að það koma stöðugt upp áleitnari álitamál varðandi það hve langt við getum gengið í þessu samstarfi án þess að afsala sjálfstæði okkar í smápörtum hér og þar til Brussel.  ESB þróast stöðugt til meiri sameiningar 500 milljóna ríkjabandalags og þessi viðleitni veldur stöðugt meiri ágreiningi innan aðildarríkja þess og hefur m.a. leitt til Brexit, uppreisnar á meðal sumra af fyrrum leppríkja USSR í A-Evrópu gegn ólýðræðislegu miðstjórnarvaldi ESB, vaxandi upplausnar í aðildarríkjum í S-Evrópu, sem telja sig hlunnfarin í Evrópusamstarfinu og þeirrar upplifunar Grikkja og fleiri ríkja, að Grikkland hafi nú stöðu nýlendu Brusselveldisins innan ESB.  Einnig hafa spurningar vaknað innan ríkja á borð við Danmörku, þar sem krafan um að falla frá fyrirvörum DK vegna aðildar nýtur minna fylgis en áður.  Bretar eru nú að komast í álíka stöðu gagnvart ESB og nýlendur þeirra sjálfra voru í eitt sinn gagnvart þeim.  Það gæti jafnvel orðið þorskastríð á milli Breta og ESB vegna útgöngu þeirra og er jafnvel hafið varðandi veiðar á hörpudisk.

Styrmir Gunnarsson f.v. ritstjóri

Nú stöndum við frammi fyrir ákvörðunum, sem gætu opnað ESB leið að helstu auðlindum okkar, orku fallvatnanna og er því tímabært að við Sjálfstæðismenn stöldrum við, og spyrjum okkur spurninga um hvert við erum að fara sem stjórnmálasamtök.

Sjálfstæðisflokkurinn á sér merka sögu sem við getum verið stolt af.  Sjálfstæðisflokkurinn leiddi lokabaráttu íslensku þjóðarinnar til endanlegs sigurs á Þingvöllum þ. 17. júní 1944. Ekki var pólitísk samstaða í landinu um þá lýðveldisstofnun.  Hinir svokölluðu „jafnaðarmenn“ voru tregir til eins og kemur skýrt fram í bók Guðjóns Friðrikssonar sagnfræðings um pólitíska sögu þeirra (Alþýðuflokkurinn í 100 ár).  Forysta Sjálfstæðisflokksins i þeirri baráttu var ótvíræð.  Þingvallarræða Bjarna heitins Benediktssonar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 1943 er öllum holl lesning, ekki síst fyrir ungt fólk.  Sjálfstæðisflokkurinn hafði frumkvæðið í útfærslu fiskveiðilögsögunnar úr 3 sjómílum í 4 og síðar úr 50 mílum í 200 mílna landhelgi.  Þá eins og ætíð var viss vantrú til staðar meðal vinstri manna á því að þessi útfærsla í 200 mílur væri raunhæf. Sjálfstæðisflokkurinn hafði algjöra forystu um aðild að varnarsamstarfi frjálsra þjóða gegn ofuröflum kommúnismans eftir WWII.  Fyrst við aðild að NATO og tveimur árum síðar við varnarsamning við Bandaríkin.  Sjálfstæðisflokkurinn hafði afgerandi forystu í þeim pólitísku átökum sem áttu sér stað hér á landi mestan hluta kalda stríðsins og var eini flokkurinn sem aldrei haggaðist í þeim átökum.  Einnig hafði Sjálfstæðisflokkurinn forystu í aðild Íslands sem sjálfstæðs ríkis í alþjóðasamstarfi og það er nánast hlægilegt að hlusta á ESB sinna í Viðreisn sem og aðra andstæðinga flokksins er þeir lýsa honum sem flokki einangrunarsinna!

Nú spyr ég ykkur góðir fundarmenn: „Á það að verða hlutverk og hlutskipti þess flokks, sem á sér svo merka sögu í baráttunni fyrir fullveldi þessarar litlu þjóðar, að leiða hana fyrstu skrefin í átt til þess að verða lítill hreppur í 500 milljón manna ríkjabandalagi, sem lýtur ólýðræðislegri miðstjórn umboðslausra og andlitslausra embættismanna í Brussel.  Því er ekki að leyna að á síðustu 10 árum hafa sést veikleikamerki í flokki okkar í þessum efnum.  Það sást ekki strax fyrir tíu árum, en það kom smátt og smátt í ljós, að haustið 2008 og fyrstu mánuði ársins 2009 ætlaði þáverandi forystusveit Sjálfstæðisflokksins að breyta stefnu flokksins vegna vaxandi þrýstings um aðild að ESB í kjölfar hrunsins.  Þess vegna var svonefnd „Evrópunefnd“ sett á stofn innan flokksins á þeim tíma og þess vegna birtist afar skrýtin grein eftir tvo unga og upprennandi forystumenn þessa flokks í Fréttablaðinu í desember 2008 1).

En eins og þáverandi formaður flokksins sagði við mig snemma árs 2009: „Við vanmátum andstöðuna í grasrót flokksins við aðild að ESB“, sagði Geir Haarde.

Ég lít einnig á það sem veikleikamerki að Sjálfstæðisflokkurinn hafi látið hafa sig í það, snemma árs 2015, að afgreiða ekki fyrirliggjandi umsókn um aðild Íslands að ESB með formlegri samþykkt Alþingis um að draga umsóknina til baka, heldur taka þátt í bréfaleik Gunnars Braga, sem leiddi til þess, að aðildarumsóknin liggur nú í skúffu í Brussel og er hvenær sem er hægt að endurvekja.  Nú eru á sveimi vísbendingar um, að  þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ætli hugsanlega að samþykkja hinn svonefnda „Þriðja orkupakka ESB“. Og það yrði þá í þriðja sinn, á nýrri öld, þar sem sjá mætti tilhneigingu til að gefa eftir.  Og þó fer ekki á milli mála, að það er veruleg andstaða innan þingflokksins við slíku athæfi.  Verði hann hins vegar samþykktur, verði orkupakkinn samþykktur, hefur ESB verið opnuð leið til að ná síðar yfirráðum yfir einni af þremur helstu auðlindum okkar Íslendinga.  Og þótt sagt sé á pappírunum, að það sé í okkar eigin höndum að koma í veg fyrir það, má strax greina suðið í undanhaldsmönnum, sem munu hefjast handa við að sannfæra þjóðina um, að það sé hagkvæmt fyrir hana að láta þau yfirráð af hendi. Við munum vel, hvernig þeir töluðu í

Icesave deilunni, forystumenn í stjórnmálum, embættismenn og sérfræðingar.  Manna á meðal heyrðist setningin: „Við eigum ekki annarra kosta völog eru höfð eftir hinum og þessum þingmönnum okkar.

Ég spyr: Getur verið að yngri kynslóðin í Sjálfstæðisflokknum hafi misst tengslin við þá sögu, sem hér hefur verið rakin?  Og ég segi við ykkur góðir fundarmenn: Ef það er rétt að við

eigum ekki annarra kosta völ er tímabært að staldra við og endurskoða EES samninginn allan. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er æðsta vald í málefnum flokksins.  Þar hefur aldrei verið samþykkt, að við afsölum fullveldi okkar smátt og smátt, jafnt og þétt.  Þar hefur þvert á móti verið gerð svohljóðandi samþykkt:

 „Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara  framsali  á  yfirráðum yfir  íslenskum  orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins“.

Er þá sjálfsagt, að þingflokkurinn gangi gegn þessari samþykkt, sem gerð var á Landsfundinum fyrir nokkrum mánuðum? spyr ég.  Ef það er skoðun þingflokksins að hann geti leyft sér það, mætti etv. leggja fram málamiðlunartillögu.  Við skulum leggja það undir atkvæði allra flokksbundinna meðlima Sjálfstæðisflokksins hvað gera skuli.  Þeir eru nokkrir tugir þúsunda.  Það er lýðræðisleg aðferð til að gera út um ágreiningsmál.  Verði sú tillaga hins vegar ekki samþykkt, er sennilega kominn tími til að stofna Sjálfstæðisfélag um fullveldismál.

Góðir fundarmenn

Ég hef að ásettu ráði ekki farið út í að ræða hér smáatriði í öllum þeim reglugerðum og tilskipunum og sem felst í öllu því orðaflóði, sem búið er til í Brussel. Það gera aðrir frummælendur en stóra myndin er sú sem hér hefur verið lýst.

Kjarni málsins er sá, að þriðji orkupakki ESB getur leitt til yfirráða Brussel yfir orku fallvatnanna okkar alveg eins bein aðild Íslands að ESB hefði leitt til yfirráða Brussel yfir fiskimiðum okkar.  Og nú er augljós hætta á að til viðbótar verði öðrum aðferðum beitt til þess að útlendingar eignist landið okkar með því að veifa framan í okkur peningum.  Áhugi Kínverja á því að eignast lönd í Norður Atlantshafi er augljós og hvenær skyldi það henta  erlendum eigendum jarða á Íslandi að selja þeim þær?  Við skulum heiðra minningu þeirra, sem á undan okkur hafa gengið í þessum flokki.  Við skulum gæta vel að sögulegri og pólitísku arfleið þeirra og við verðum að vera sem fyrr merkisberar íslensks sjálfstæðis.

Við hina ungu forystusveit Sjálfstæðisflokksins í dag langar mig til að segja:

Gætið að ykkur! Sá þráður í sálarlífi þessa flokks, sem snýr að fullveldi og sjálfstæði Íslands er mjög sterkur.  Flokkurinn virðist hafa misst varanlega um þriðjung af sínu fylgi.  Hann má ekki við meiru.  Sýnið þeirri sögu, sem hér hefur verið rakin,  virðingu. 

Takk fyrir.