Utanríkismál of lítið rædd

Áhugaleysi á Alþingi

Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl

Frá 1951 til loka kalda stríðsins voru utanríkis- og varnarmál kjarninn í öllum pólitískum umræðum hér á landi. Nú eru þau varla nefnd. Þótt kalda stríðinu sé lokið er það veruleiki að norðurslóðir hafa öðlast nýja þýðingu eins og sjá má af því að tvö stórveldi, Kína og Rússland, sækjast stíft eftir auknum áhrifum í þessum heimshluta. Augljóst er að sú ásókn hefur áhrif á stöðu Íslands. Samt er lítið um umræður um utanríkismál á Alþingi. Það verður að breytast og við hæfi að sú breyting hefjist í aðdraganda þingkosninga. Staðan í alþjóðamálum er sú, að nýtt kalt stríð er að brjótast út á milli Bandaríkjanna og Kína. Fyrr í þessari viku voru bandarískir embættismenn í Kína. Þar var þeim sagt að uppgangur Kína yrði ekki stöðvaður og það er áreiðanlega mikið til í því, bæði vegna þess að Kínverjar eru langfjölmennasta þjóð í heimi og það er fyrirsjáanlegt að fyrir lok þessa áratugar verði þeir orðnir mesta efnahagsveldi heims. Auk þess sögðu Kínverjar að Bandaríkjamenn væru að gera úr þeim, Kínverjum, ímyndaðan óvin.

Lesa áfram

Hnignun EFTA-dómstólsins

Íslensku dómstólarnir, sem áður vísuðu ýmsum mikilvægustu málum sínum til EFTA-dómstólsins og framfylgdu úrskurðum hans af samviskusemi, hafa nánast hætt að vísa málum til Lúxemborgar, að því er virðist af því að þeir gera sér grein fyrir því sem nú er
upp á teningnum.

Carl Baudenbacher skrifar í Mbl

Carl Baudenbacher

Hinn 30. júní 2021 gaf EFTA-dómstóllinn út tvö ráðgefandi álit í málum sem tengdust hinu svonefnda norska velferðarhneyksli („NAV“ hneykslið). Álitin vörðuðu mann sem dæmdur hafði verið í héraðsdómi í Ósló til fimm mánaða fangelsisvistar fyrir að hafa dvalist í Danmörku og á Spáni meðan hann þáði atvinnuleysisbætur, og svo mann sem hafði þurft að endurgreiða fé eftir að hafa dvalið utanlands. Síðara málinu var vísað til EFTA-dómstólsins af norska almannatryggingadómstólnum. Í fyrri velferðarmálum, sem snerust um flutning sjúkrabóta og endurhæfingarlífeyris úr landi, hafði EFTA-dómstóllinn talið í maí 2021 að grundvallarreglur EES-samningsins um frjálsa för fólks giltu um þessi atriði. Í álitunum tveimur frá 30. júní 2021 taldi EFTA-dómstóllinn hins vegar að svo væri ekki í tilviki atvinnuleysisbóta. Í þeim málum giltu einungis lög um almannatryggingar, þ.e. afleidd EES-löggjöf. Var norska ríkið sýknað af ólögmætu athæfi í þessum málum.

Þar sem málatilbúnaður Eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins kom ekki til umfjöllunar hjá EFTA-dómstólnum er engu gegnsæi fyrir að fara. Ríkislögmaður Noregs lýsti ánægju sinni með niðurstöðuna. Virtur prófessor í þjóðarétti, Mads Andenas, gagnrýndi hins vegar úrskurðina og taldi að þeir fengju ekki staðist. Þessir tveir úrskurðir marka nýjasta lágpunktinn í þróun sem hófst snemma árs 2018, þegar Páll Hreinsson varð forseti EFTA-dómstólsins. Frá þeim tíma hefur EFTA-dómstóllinn tekið óhóflega vinsamlega afstöðu gagnvart norska ríkinu á kostnað borgara og fyrirtækja.

Lesa áfram

Rangfærslum svarað

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Sem almennur borgari vil ég sporna gegn því að rökbrellum sé beitt til að spila með kjósendur

Arnar Þór Jónsson hrl.

Af einhverjum ástæðum hafa málsvarar Viðreisnar ítrekað beint spjótum sínum að mér í 5. sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi. Líkar mér það á margan hátt vel – en hef eins og margir velt vöngum yfir þessum áhuga sem Viðreisnarfólk hefur sýnt mér. Getur verið að það stafi af áhyggjum af því að málflutningur minn muni opinbera hversu innantóm stefnumál Viðreisnar eru? Hafa má skilning á því að innan Viðreisnar óttist menn að atkvæði þeirra, sem láta sér annt um rétt okkar Íslendinga til að stjórna eigin málum og aðhyllast raunverulegt frjálslyndi, kunni fram til kosninga að flytjast um set, frá gervifrjálslyndi Viðreisnar yfir til Sjálfstæðisflokksins og þar með þeirra sem vilja verja m.a. raunverulegt, sígilt frjálslyndi.

Í Morgunblaðinu nú 26. júlí stígur fram maður að nafni Guðjón Jensson sem, líkt og fyrirsvarsmenn Viðreisnar, kýs að hagræða hlutunum, ræða um persónu mína og gera mér upp skoðanir. Grein hans, eins og áðurnefndur málflutningur, einkennist því miður af falsrökum, rangfærslum og byggist á fordómum fremur en staðreyndum og skynsemi.

Lesa meira

Að gefnu tilefni – Innanfélagsreglur hagga ekki stjórnarskrárbundnum mannréttindum

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Nái ég kjöri á Alþingi mun ég að sjálfsögðu láta af dómarastörfum á meðan ég gegni þingmennsku.

Arnar Þór Jónsson hrl.

Þegar allt er á fleygiferð, þegar pólitískrar og félagslegrar upplausnar gætir, þegar aðstæður eru ófyrirsjáanlegar, þá blasir við mikilvægi þess að menn hafi föst mið og óhagganleg gildi sem reynst hafa vel. Stjórnarskrá, lögum og stjórnmálum er ætlað að standa vörð um slík gildi. Við stöndum nú frammi fyrir því að síðastnefndir öryggisventlar eru vanræktir. Gengið er frjálslega um ákvæði stjórnarskrárinnar, lýðræðisrót íslenskra laga trosnar frá ári til árs og stjórnmálamenn ganga sífellt lengra í að framselja vald sitt. Samhliða þessari þróun birtist ný sviðsmynd við sjóndeildarhringinn, þar sem ýmiss konar samtök og hagsmunahópar takast á um völd og áhrif. Hér vísa ég til hópa sem byggðir eru á hagsmunum og sameiginlegri sjálfsmynd þeirra sem samsama sig með hópnum. Þessi þróun er stærsta ógnin við lýðræðið og verður enn ókræsilegri þegar baráttan um völdin færist út fyrir landsteinana og risahagsmunir taka sér völd yfir þjóðríkinu. Í öllu þessu leynist þversögn sem erfitt er að útskýra: að innanlandsófriður verður herskárri á sama tíma og áhrif innlendra stjórnvalda og stjórnmálamanna verða minni.

Lesa áfram

Höldum vöku og sýn

Arnar Þór Jónsson skrifar í Fréttablaðið

Arnar Þór Jónsson

Blaða- og tímaritsgreinar sem ritaðar eru í góðri trú hljóta að hafa það að markmiði að sýna umfjöllunarefnið í nýju ljósi og vera þannig gagnlegt efnislegt framlag til málefnalegrar umræðu. Það eru því ávallt vonbrigði að rekast á greinar sem afvegaleiða, drepa málum á dreif og / eða varpa hulu yfir raunveruleikann fremur en að upplýsa og fjalla um staðreyndir.

Í Morgunblaðinu 10. júlí sýndi ég með rökum hversu klisju­kenndur og villandi málflutningur þeirra er sem vilja gera inngöngu Íslands í ESB að aðalstefnumáli sínu fyrir þingkosningarnar næstkomandi haust.

Lagði ég áherslu á að umfjöllun um slík alvörumál yrði að taka mið af raunsæi (d. realpolitik) en ekki hugarburði eða ímyndunum á borð við þær sem því miður einkenndu Fréttablaðsgrein Þorsteins Pálssonar 8. júlí síðastliðinn.

Í nýrri grein Þorsteins 15. júlí er sami tónn sleginn strax í upphafi þegar hann segir að oft sé „árangursríkara í pólitík að hræða fólk frá stefnu andstæðinganna en að fá það með rökum til að aðhyllast eigin málstað.“

Svo er að sjá sem hann beiti í þessum tilgangi afbökunum, ýkjum og rangfærslum. Ég hvet alla til að lesa áðurnefnda Morgunblaðsgrein mína og bera saman rökfærslur okkar Þorsteins til að meta hvor okkar byggir á traustari grunni.

Það er illa komið fyrir fyrrverandi formanni og varaformanni Sjálfstæðisflokksins þegar þau hafa gengið í lið með þeim sem vilja grafa undan sjálfstæði þjóðarinnar með staðlausum stöfum og hræðsluáróðri; með þeim sem vilja að Íslendingar gefi frá sér til útlanda aftur stjórn eigin mála sem þeir svo lengi börðust fyrir að fá inn í landið.

Lesa meira

Mikilvægi breytingarreglu stjórnarskrárinnar

Birgir Ármannsson skrifar í Mbl

Birgir Ármannsson

Að undanförnu hefur komið upp umræða um breytingarreglu stjórnarskrárinnar, annars vegar út frá sjónarmiðum um mikilvægi hennar í stjórnskipun landsins og hins vegar í tengslum við hugmyndir, sem fram hafa komið um hugsanlegar breytingar á núgildandi fyrirkomulagi.

1. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar
Rétt er að rifja upp að samkvæmt núgildandi breytingarreglu, sem er að finna í 1. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar, verður stjórnarskránni ekki breytt nema með eftirfarandi hætti: Þegar stjórnarskrárbreyting hefur verið samþykkt á Alþingi á þegar í stað að rjúfa þing og boða til þingkosninga. Sé breytingin samþykkt óbreytt á nýju þingi öðlast hún gildi. Þannig hefur stjórnarskránni verið breytt átta sinnum frá stofnun lýðveldis, og raunar nokkrum sinnum fyrir þann tíma. Þetta er mikilvægt að hafa í huga vegna þess að oft heyrast þær raddir að núgildandi regla geri stjórnarskrárbreytingar óheyrilega erfiðar eða nánast ógerlegar.

Lesa meira

ESB gengur ekki upp

Frá ritsjórn Mbl þ. 17. júlí 2021

Miðstýring afnemur lýðræðið og sameiginlega myntin klýfur

Brexit

Því eru takmörk sett að líta megi svo á að Evrópusambandið sé stjórntækt og það er kominn tími til að skipta um kúrs og leggja áherslu á að draga úr miðstýringu og lárétt samstarf í stað þess að auka miðstýringuna og stigveldi þar sem valdboðið kemur að ofan. Þetta er niðurstaða þýska félagsfræðingsins Wolfgangs Streecks, sem í nýrri bók sinni, Milli alþjóðavæðingar og lýðræðis, segir að Evrópusambandið gangi ekki upp. Streeck, sem kemur af vinstri vængnum, er virtur í sínu fagi og stýrði um tíma samfélagsrannsóknum við Max Planck-stofnunina í Köln, er í viðtali í nýjasta tölublaði vikublaðsins Der Spiegel. Þar kallar hann ESB frjálslynt heimsveldi vegna þess að það þurfi að tryggja samstöðu innan þess án þess að beita hernaðarlegum meðulum. Það geri miklar kröfur til þeirra meðala, sem fyrir hendi séu, peninga og fallegra orða. Þá sé mikilvægasta stjórntækið í slíku heimsveldi að stýra valdastéttinni. Með því eigi hann við að tryggja að í aðildarríkjum ESB sé við völd pólitísk stétt, sem sé hlynnt miðstjórninni.

Streeck vísar því í viðtalinu á bug að ESB sé bandalag fullvalda ríkja. Þegar spyrillinn segist ekki þekkja neitt dæmi þess að í Brussel hafi verið reynt að sópa burt óvinveittri ríkisstjórn, spyr hann á móti hvort hann muni ekki hvernig komið var fram við Grikki í evrukreppunni eða hvernig Evrópusambandsríkin undir forystu Þjóðverja og Frakka komu Mario Monti til valda á Ítalíu. Þá sé augljóst að í Brussel sé verið að reyna að knýja fram stjórnarskipti í Póllandi og Ungverjalandi með því að hóta að stöðva eða takmarka fjárstuðning frá Evrópusambandinu.

Lestu áfram

Höfum það sem sannara reynist

Kjósendur hljóta að hafna gervistjórnmálum, sýndarlýðræði og gervifrjálslyndi.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Fróðlegt væri að vita hvort Þorsteinn Pálsson hafi verið ósammála grein sem Chris Patten, síðasti breski landstjórinn í Hong Kong, birti í Morgunblaðinu 6. júlí sl. um „einstefnu“ Kínverja í utanríkismálum. Helst hallast ég að því að Þorsteinn hafi ekki lesið grein Pattens, því annars hefði hann vart sent frá sér Fréttablaðsgrein 8. júlí sl., þar sem hann hann notar orð eins og „fjölþjóðasamvinnu“ og „evrópusamstarf“ í misheppnaðri viðleitni til að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn og mig. Í greininni segir Þorsteinn m.a.: „Sjálfstæðismenn í suðvesturkjördæmi ákváðu nýlega að setja í baráttusæti á lista sínum í þessu sterkasta vígi flokksins einn helsta andófsmann EES-samningsins, sem auk þess var aðalhugmyndafræðingurinn í andstöðunni við þriðja orkupakkann. Áður skipaði þetta sæti talsmaður frjálslyndra viðhorfa í flokknum.“ Tilvitnaðar línur – og grein Þorsteins í heild sinni – gefa tilefni til eftirfarandi athugasemda og leiðréttinga. Sú „ákvörðun“ sjálfstæðismanna sem Þorsteinn vísar þarna til er lýðræðisleg niðurstaða prófkjörs þar sem alls 4.772 manns greiddu atkvæði, fleiri í þessu kjördæmi einu en í prófkjörum allra annarra íslenskra stjórnmálaflokka samtals á landsvísu. Flokkur Þorsteins valdi ólýðræðislega á framboðslista sína. Þorsteinn afflytur sjónarmið mín þegar hann kallar mig „andófsmann EESsamningsins“. Þvert á móti hef ég fram til þessa lagt aðaláherslu á að Íslendingar nýti ákvæði samningsins til sjálfsagðrar hagsmunagæslu gagnvart ESB og öðrum EES-þjóðum. Þorsteinn ýjar að því að ef Sjálfstæðisflokkurinn vinni umrætt sæti megi „reikna með fleiri uppákomum við innleiðingu reglna á grundvelli EES-samningsins“. Ef skilja má þetta svo að Þorsteinn telji rétt að líkja lágmarkskröfum um þinglega meðferð, hagsmunagæslu og lýðræðislega rót laga við einhvers konar „uppákomur“ þá ber það vott um stjórnlyndi og valdboðsstefnu annars vegar og þrælslund hins vegar, en ekki það „frjálslyndi og lýðræði“ sem flokkur Þorsteins vill þó kenna sig við í orði kveðnu.

Lesa meira

Samkeppnismálin eru líka fullveldismál

Löggjöfin evrópska er miðuð við stóra, virka markaði. Þessum lögum er beitt hugsunarlaust á okkar örsmáu, ófullkomnu markaði.

Ragnar Önundarson skrifar í Mbl:

Ragnar Önundarson

Það er hringavitleysa að lífeyrissparnaður þjóðarinnar skuli ávaxtaður í fákeppnisfélögum, sem taka sér þá álagningu sem þeim sýnist af neytendum, sem líka eru nefndir sjóðfélagar. Við inngönguna í EES fengu útflutningsfyrirtækin betri kjör á mörkuðum, sem nýtast eigendum þeirra vel. Stærstu útgerðarfélögin kaupa upp fyrirtæki í öðrum greinum, fákeppnisfélög auðvitað og „safna auð með augun rauð“. Stóru vonbrigðin með EES fá litla athygli, en allir lepja upp, hver eftir öðrum, að „þjóðin hafi hagnast mikið“ á inngöngunni fyrir 30 árum. Það er rétt, þjóðarbúið hefur hagnast, en ávinningnum er misskipt.

Hugmyndafræði og skynsemi

Fákeppni innflutningsfyrirtækjanna er vandamálið. Við setjum allt traust okkar á markaðsbúskap. Allir flokkar viðurkenna nú að áætlunarbúskapur er ekki leiðin. Kosningar fara í hönd og frambjóðendur flagga sinni hugmyndafræði. Að loknum kosningum neyðast þeir sem ná kjöri til að leggja þessi prinsipp til hliðar, gera málamiðlanir, mynda samsteypustjórn og gera það sem er skynsamlegt. Hvernig væri nú að beina umræðunni að því sem miður fer í EES og hvernig gera megi almenningi gagn hvað framfærslukostnað varðar, en hann er tvöfaldur m.v. mörg önnur Evrópulönd? Nennir enginn frambjóðandi að hugsa sjálfstætt? Nýleg skýrsla lögfræðinganefndar um þetta viðskiptafræðilega vandamál reyndist vitaskuld gagnslaus.

Milliliðir

Þótt allir vilji markaðsbúskap og samkeppni vill gleymast að huga að forsendunni, sem er að alvöru, virkir markaðir séu til staðar. Þetta hef ég margoft rætt. Lykilatriðið sem huga þarf að er, að á markaði skipta milliliðirnir milli framleiðenda og neytenda öllu máli. Þeir eru þarna til að hagnast, eins og aðrir, og því er mikilvægt að stuðla að hagkvæmni í þeirra rekstri. Það sem fólk veit almennt ekki er það, að allur hagnaður er tekinn vegna ófullkomleika markaða, sem oft er nefndur „skekkjur“.

Lesa áfram