Ávörp á stofnfundi 1. desember 2019

Ávarp Viðars Guðjohnsens jr við opnun fundarins:

„Ég elska þig, stormur, sem geisar um grund

og gleðiþyt vekur í blaðsterkum lund,

en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur

og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.

Þú skefur burt fannir af foldu og hól,

þú feykir burt skýjum frá ylbjartri sól,

og neistann upp blæs þú og bálar upp loga

og bryddir með glitskrúði úthöf og voga.

Þú þenur út seglin og byrðinginn ber

og birtandi, andhreinn um jörðina fer;

þú loftilla, dáðlausa lognmollu hrekur

og lífsanda starfandi hvarvetna vekur.

Og þegar þú sigrandi um foldina fer,

þá finn ég, að þrótturinn eflist í mér.

Ég elska þig, kraftur, sem öldurnar reisir,

ég elska þig, máttur, sem þokuna leysir.

Ágætu sjálfstæðismenn.

Við erum hér saman komnir, á þessum hátíðisdegi, til að stofnsetja félag sjálfstæðismanna um fullveldismál. Stofnun slíks félags hefur lengi verið rædd innan Sjálfstæðisflokksins og er fyrir löngu orðin tímabær.

Mín tilfinning er sú að þetta félag getur orðið að einni virkustu og sterkustu einingu flokksins innan fárra ára. Flokknum til heilla.

Þetta segi ég því að Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður í kringum tvö ófrávíkjanleg og óumsemjanleg aðalstefnumál. Þau voru og vil ég lesa beint upp úr þeirri stefnuyfirlýsingu sem birtist í Morgunblaðinu degi eftir stofnun flokksins.

Númer eitt:

Að vinna að því og undirbúa það, að Ísland taki að fullu öll sín mál í sínar eigin hendur og gæði landsins til afnota fyrir landsmenn eina, jafnskjótt og 25 ára samningstímabil sambandslaganna er á enda.

 Númer tvö:

Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis, með hagsmuni allra stétta fyrir augum.

Undir þessa yfirlýsingu skrifa m.a. Jón Þorláksson, fyrsti formaður flokksins og Ólafur Thors, einn farsælasti formaður flokksins.

Þessi aðalstefnumál eru sál flokksins – hinn hái turn sem gegnir hlutverki vitans í síbreytilegu veðurfari stjórnmálanna.

Þessum gildum – um frjálsa þjóð í frjálsu landi – má aldrei gleyma og rétt eins og með aðra vita þá má heldur ekki vanrækja viðhaldið ef menn vilja ekki villast af leið.

Það var á þessum gildum sem Sjálfstæðisflokkurinn sigraði hug og hjörtu þjóðarinnar og það er einungis á þessum gildum sem hann getur talað sig inn í hjörtu landsmanna á ný.

Það eru þessi gildi sem eiga undir högg að sækja nú þegar hverslags umrót og stjórnlyndi er framkvæmt undir frjálslyndum merkjum. Það eru þessi gildi sem umrótsmenn vilja afnema úr huga Íslendinga.

Við sjáum öll hvernig lýðveldisdagurinn sjálfur er látinn mæta afgangi hér í Reykjavík. Þetta er með vilja gert.

Ágætu vinir.

Áskoranir okkar eru margar þessa dagana.

Undirgefni þeirra sem eru kosnir á Alþingi okkar Íslendinga er sérstaklega átakanleg þegar þeir segja frelsi og fullveldi fórnarkostnað í einhverri samvinnu þjóða sem gengur út á boðvald evrópskra kommissara.

Einhverslags örlagahyggja um að „við eigum engra kosta völ“ í mikilvægum málum – en líkt og Jón Þorláksson benti á, stuttu eftir stofnun flokksins, þá er ekki nóg að berjast fyrir sjálfstæðinu. Ávallt þarf að halda vörð þar um þegar sjálfstæðið er fengið. Með öðrum orðum. Það er ekki nóg að berjast fyrir frelsinu – fengið frelsi þarf að verja.

Því miður og ég segi því miður hefur ekki verið hugað að fullveldinu. Við sjáum þetta bersýnilega í þeim gámaförmum af því þunga og stjórnlynda regluverki sem Brussel sendir okkur. Ég segi stjórnlynda því það er ekkert frjálslyndi sem einkennir regluverk sem er orðið svo flókið að lögfróðir menn, jafnvel lagaprófessorar, geta ekki komið sér saman um afleiðingarnar. Flóknar leikreglur með hinum og þessum viðurlögum festa hinn almenna borgara í fjötra og eru í besta falli frelsi fyrir fáa og hvati fyrir fákeppni. Slíkt stjórnarfar endar alltaf með því að kremja niður dugnað. Biti hér og biti þar. Helsi hér og helsi þar. Hægt og rólega endar þetta illa.

Það er mikið rætt þessa dagana um að hemja hið sívaxandi bákn. Þetta eru orðin tóm ef við ráðum okkur ekki sjálf. Hvernig er hægt að treysta stjórnmálamönnum sem á einum tíma afnema þúsund blaðsíðna regluverk til þess eins að innleiða enn stærra og flóknara regluverk frá Brussel.

Það er þó ekki sjálfgefið að baráttan verði auðveld. Stundum virðist lítil von. Andstæðingar okkar munu beita öllum tiltækum ráðum. Fyrir fundinn var gert fárviðri því við birtum þessa fallegu mynd frá gullöld flokksins.

Í fersku minni er einnig Icesave baráttan. Aðildarferli að Evrópusambandinu. Ítrekaðar árásir á sjávarútveg og landbúnað. Landsala sem lýsir sér í miklu óhófi. Hvað þá umræðan um þriðja orkupakkann. Þar voru allir þeir sem studdu fullveldið sagðir einangrunarsinnar eða gamalmenni. Stundum af þeim sem okkur þykir vænt um og höfum varið og stutt.

Það má þó ekki láta slíkt slá sig út af laginu og það má aldrei gefast upp. Í slíkum farvegi eru nefnilega mikil tækifæri og gjöful mið.

Baráttugleðin og festa mun skipta öllu. Gleðin fyrir því að hafa eitthvað að berjast fyrir eins og Hannes Hafstein benti á í ljóði sínu. Að elska storminn.

Frá mínum bæjardyrum séð er ekkert baráttumál verðugra en fullveldið sjálft.

Ég elska þig, elska þig, eilífa stríð,

með ólgandi blóði þér söng minn ég býð.

Þú alfrjálsi loftfari, hamast þú hraður;

hugur minn fylgir þér, djarfur og glaður.

Ágætu vinir. Til hamingju með daginn og gleðilega aðventu. Ég segi þennan stofnfund settan.“

 Hátíðarávörp

Jón Gunnarsson þingmaður og ritari Sjálfstæðisflokksins

Úrdráttur ritara úr erindinu:

Jón Gunnarsson hóf mál sitt með því að óska félögum sínum og öðrum fundarmönnum til hamingju með daginn.  Hann minnti á að 1. desember ár hvert er mjög merkilegur dagur í sögu lands og þjóðar.  Þann dag fyrir 101 ári náðist afar merkilegur áfangi í fullveldismálum þjóðarinnar á þessum degi árið 1918.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur í grunngildum sínum stutt við rétt einstaklingsins til athafna og verið í forystu fyrir vernd auðlinda okkar gegn erlendri íhlutun og innleitt aukna fjölbreytni í verðmætasköpun þjóðarinnar og þannig stuðlað að fjölbreyttara atvinnulífi í þágu hennar.

Við erum oft kallaðir íhaldsmenn en „íhaldið“ er orð sem andstæðingar okkar byrjuðu að nota sem hnjóðsyrði um Sjálfstæðismenn en að vera íhaldsmaður er ákveðin dyggð sem í raun byggist á því að gleyma ekki uppruna sínum.

Jón Gunnarsson fjallaði um aðdraganda þess að landhelgin var stækkuð og benti á að Sjálfstæðismenn hafi haft frumkvæði að lagasetningu um verndun landgrunnsins á vísindalegum grunni. Í framhaldi af því var sagt upp samningi, sem Danir höfðu gert við Breta um 3ja mílna landhelgi.  Þetta var upphafið að útfærslu landhelginnar.  Mikil átök urðu þegar fyrsta skrefið var tekið og landhelgin færð í 12 mílur.  Þeim deilum lauk undir forystu Sjálfstæðisflokksins með ásættanlegum samningi við Breta.  Grunnur að framhaldinu var þar lagður með þeim samningum þar sem íslenska ríkisstjórnin áskyldi sér rétt til að vinna að frekari útfærslu landhelginnar.

Varðandi nýtingu orkuauðlindanna í þágu þjóðarinnar.  Sjálfstæðisflokkurinn lék þar höfuðhlutverk í baráttu sem þó var aðallega háð hér innanlands.  Full yfirráð yfir auðlindum okkar er jú algjör forsenda fyrir fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar.

Á sama tíma og flokkurinn okkar hefur staðið varðstöðu um sjálfstæði okkar og skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda hefur hann verið í fararbroddi í þátttöku landsins í alþjóðlegri samvinnu.  Afar mikilvægt er að fá viðurkenningu á sérstöðu smá smáþjóðar í stóru landi einkum hvað varðar útflutning á afurðum okkar.  Að þvæi leyti hefur Sjálfstæðisflokkurinn ávallt staðið vörð um frelsi okkar og sýnt það með verkum sínum að hann er að þessu leyti víðsýnn og alþjóðlega sinnaður flokkur.  Þetta á einkum við um samstarf okkar við Norðurlöndin, UN og NATO.  Forystumenn flokksins umfram marga aðra hafa ávallt gert sér grein fyrir því að fylgja vestrænum þjóðum í mikilvægu málaflokkum.  Þátttaka okkar á vettvangi UN hefur m.a. leitt til þess að þjóðréttanefnd þess var falið að fjalla um reglur, sem gilda skyldu á hafinu en einnig að koma með tillögur varðandi reglur um landhelgina.  Samstarf okkar innan OECD og EFTA er einnig gott dæmi um það gagn sem við höfum haft af samvinnu við aðrar þjóðir.

Jón Gunnarsson vitnaði í orð Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra sem hann lét fjalla í háttíðarræðu á fullveldisfagnaði háskólastúdenta þ. 1. desember 1961:

„Fylgjumst með því sem gerist og gætum þess eftir því sem föng eru á að eftir hagsmunum okkar og þörfum sé munað.  Íslendingar mega ekki í þessu fremur en öðru verða afturúr í alþjóðlegri þróun.  Við verðum að vera reiðubúin að leggja okkar að mörkum þar sem af sanngirni verður af okkur krafist.  En þar verður sanngirnin að ráða á alla vegu. Vestræn samvinna hefur nú þegar orðið til mikils góðs fyrir okkur Íslendinga ekki síður en aðra. Við viljum styrkja hana og efla en við gerum það best með því að glata ekki því sem forfeður okkar kepptu eftir börðust fyrir í aldalangri baráttu. Og við skulum muna, að það var ekki vegna þess að Steingrímur Thorsteinsson vildi raða saman faguryrðum heldur af biturri reynslu kynslóðanna, þegar hann kvað til fósturjarðarinnar og við tökum heilshugar undir:

Aldrei, aldrei bindi þig bönd
nema bláfjötur Ægis
við klettótta strönd.“

Haft er einnig eftir BB: „Það er enginn vandi að stjórna landi en það er miskunnarlaust starf að vera formaður Sjálfstæðisflokksins!“ 1)

Í því viðkvæma andrúmslofti sem einkennir stjórnmálin í dag þurfa menn að stíga varlega til jarðar.  Það er sjálfsagt að hafa í huga við stofnun félags innan flokksins okkar en einkenni hans og kjölfesta er þolinmæði fyrir skoðanaskiptum og það að við höfum gætt vel að grunngildum flokksins og þeim atriðum sem sameinar okkur og við þurfum ávallt að hafa þau atriði að leiðarljósi í öllu okkar starfi. Það er því ekkert að því að menni stofni félag til að sinna hugðarefnum sínum en stofnun slíks félags þarf að samrýmast skipulagsreglum hans flokksins. Tilgangur slíks félags þarf að vera skýr svo og staða hans innan flokksins. Við þurfum að bera virðingu fyrir skoðunum hvers annars og fara vel yfir alla þætti.  Þolinmæði fyrir mismunandi skoðunum gerir þó kröfu til okkar allra. Flokkurinn þarf að gæta vel að mismunandi sjónarhornum í hinum fjölmörgu málaflokkum. Sjálfstæðisflokkurinn er lýðræðislegur flokkur og er Landsfundur æðsta vald flokksins í öllum málum á hann sækja á á nnað þúsund manns hvert sinn.  Það má því segja að Sjálfstæðisflokkurinn haldi „Þjóðfund“ annað hvert ár.  Á ferðum mínum um landið brýni ég menn til góðra verka og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að mönnum gott eitt til með stofnun þessa félags. Markmiðið með stofnun þess hlýtur að vara að ná til fleiri í okkar samfélagi og fá þá til starfa á vettvangi flokksins og opna umræðu um mikilvæg mál svo sem fullveldi Íslands.

Munum að frelsi fylgir ábyrgð. Gangi ykkur vel!

Jónas Elíasson prófessor

 „Stúdentafélag Reykjavíkur var stofnað 14. nóvember 1871 af nokkrum stúdentum og verður því 150 ára 2021. Félagið var afar virkt í allri þjóðmálaumræðu og beitti sér fyrir mörgum framfaramálum, fyrst og fremst fyrir fullveldi Íslands og sigur í því máli vannst 1. desember 1918. Félagið beitti sér líka fyrir framfaramálum eins og t.d. lagningu síma, fánamálinu og samgöngumálum. Fánamálið síðan 1871 er til lykta leitt. En fjarskipti og samgöngumál eru ennþá meðal þýðingamestu mála landsins, svo ekki sé minnst á aðal baráttumálið, fullveldi Íslands og sjálfsákvörðunarrétt einkum hvað varðar auðlindir landsins og nýtingu þeirra.

Saga Stúdentafélags Reykjavíkur sem hefst 1871 sýnir þetta. Þegar starfsemi þess dvínaði, einfaldlega vegna þess að fleiri en stúdentar vildu leggja hönd á árarnar var Sjálfstæðisflokkurinn stofnaður. Hans aðalbaráttumál hafa ævinlega verið óskert nýting auðlinda landsins af íslendingum sjálfum í sjálfstæðu landi með óskert fullveldi. Þar nægir að benda á uppbyggingu sjávarútvegsins, landhelgismálið og uppbyggingu orkuiðnaðarins.

Góðir fundarmenn, andstæðinga okkar félags eru strax farnir að bendla félagið við annarlegar stjórnmálastefnur, þetta er búið að vera uppáhalds íþrótt andstæðinga Sjálfstæðisflokksins frá stofnun hans. En sjaldan hefur þeim tekist jafn óhöndulega til og nú, þegar listaskólakennari með skegg niður á bringu lét hafa eftir sér að myndin sem þið hafið fyrir framan ykkur minnti á nasisma og Stalínisma. þetta er forsíðumynd Morgunblaðsins frá 1942, Ísland var hernumið land og ef eitthvað væri til í þessu, hefði ritstjóri Morgunblaðsins verið handtekin og færður í fangelsi í Bretlandi. Þar sat t.d. Einar Olgeirsson, þá formaður kommúnistaflokksins, inni fyrir bæði nasisma og Stalínisma.

Ég óska fundarmönnun til hamingju á fullveldisdegi Íslands, og félagi okkar góðrar framtíðar.“

Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins – Suðurkjördæmi

„Ritari Sjálfstæðisflokksins, stofnfélaga og gestir.

Það fylgir því ábyrgð að vera fullveðja, taka ábyrgð á sjálfum sér, athöfnum og afleiðingum þeirra. Þroski og reynsla er gangur lífsins sem færir okkur fullveldi yfir okkur, frjálsum og fullveðja einstaklingum.

Þjóðir verða ekki fullvalda af sömu ástæðu og við mannfólkið. Íslendingar börðust fyrir fullveldi yfir marga mannsaldra. Þeim sigri er fagnað í dag á 101 árs afmæli fullveldis okkar.

En það fylgir því ábyrgð að vera fullvalda þjóð, ríki með stjórnarskrá og lög sem okkur ber að aðlagast og haga lífi okkar eftir.

Það kemur þó ekki í veg fyrir sjálfstæða hugsun, skoðanir okkar eða val á leið til þess lífs sem við kjósum að eiga. Í því felst frelsi einstaklingsins.

Kæru vinir;  Það er sameiginleg skylda okkar að byggja upp réttlátt samfélag. Samfélag sem við hvert og eitt eigum jafnan rétt til þeirra gæða sem auðlindir landsins gefa af sér.

Fólk með öðruvísi hæfileika, minni starfsgetu og aldraðir eiga skýlausan rétt á mannsæmandi lífi af þeim auði. Höfum það jafnan í huga að ekkert samfélag verður sterkara en veikasti hlekkurinn.

Ísland er ríkt af auðlindum og það setur þjóðinni skyldur á herðar að umgangast þau verðmæti af þeirri virðingu sem sæmir nútíma þjóðfélagi. Arður auðlindanna á upphaf og endi í samfélagi sem gefur hverju mannsbarni tækifæri til að njóta þeirra verðmæta sem auðlindin skapar þjóðinni. Réttin til menntunar, heilbrigðisþjónustu og sömu tækifæra í lífinu.

Frjór jarðvegur landsins, orkan í iðrum jarðar, fallvötnin, fiskurinn í sjónum og fegurðin er sameiginleg eign okkar íbúa í fullvalda ríki. Við erum þjóð sem lætur ekki frá sér auðlindir, eins og fiskimiðin eða semur um stjórn þeirra, eða afkomu til annarra ríkja með ólíka hagsmuni.

Við eigum að standa vörð um landbúnað, verða okkur nóg í afurðum garðyrkjunnar og nýta til þess ódýra orku í landinu. Skoða meðferð fiskistofna við Ísland í ljósi sjálfbærrar nýtingar og hámarks arðsemi. Þar fara saman hagsmunir veiðiréttarhafa, sjómanna og samfélagsins alls. Veiðar, vinnsla, samfélag og markaður er óslitin keðja í verðmætasköpun sem stendur undir bestu mögulegu lífsgæðum í landinu. Lífsgæðum okkar allra.

Ef hlekkir slitna og virðiskeðjan færist á eina hendi, koma brestir í þá sátt sem þarf að ríkja um nýtingu auðlindarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn lætur það aldrei gerast á sinni vakt.

Góðir fundarmenn; Við sjálfstæðismenn köllum eftir réttlátu samfélagi sem var grunntónninn í hugsjón sigurvegaranna í fullveldisbaráttunni. Hugsjón sem fólkið flykktist að. Skilaboðin mín sem sjálfstæðismanns hér í dag eru að við hlustum á raddir fólksins í landinu og þá vakna aftur væntingar um fyrri styrk Sjálfstæðisflokksins.

Ef við hlustum ekki, siglum við í strand rétt eins og skipstjóri sem hlustar ekki á siglingatæki skips síns.

Vonandi verður það skref sem hér er stigið í dag, sá neisti sem kveikir aftur það bál og baráttuanda sem kallar stéttir þjóðarinnar til sameiginlegar baráttu fyrir framförum, frelsi og réttlátari framtíðar, allra stétta. Í sterkum og víðsýnum Sjálfstæðisflokki.“

Styrmir Gunnarsson f.v. ritstjóri formaður

„Góðir fundarmenn

Ég vil byrja á því að þakka fyrir það traust, sem þið sýnið mér með því að kjósa mig til formennsku í þessu nýstofnaða sjálfstæðisfélagi.

Það er sennilega hið fyrsta sem stofnað er um sérstakt málefni skv. ákvæði í skipulagsreglum flokksins, sem inn kom fyrir nokkrum árum, og kallar á samþykki miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins. Ósk um slíkt samþykki var send til miðstjórnar fyrir nokkrum vikum og verður tekin fyrir á fundi á þriðjudaginn kemur. Þar til sú ósk hefur verið samþykkt af miðstjórn telst þetta félag ekki vera hluti af skipulagseiningu flokksins.

Markmiðið með stofnun þessa félags er annars vegar að skapa sérstakan vettvang til þess að ræða málefni líðandi stundar og snerta fullveldi þjóðarinnar og hins vegar að halda uppi reglubundinni fræðslu, ekki sízt fyrir ungt fólk um sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Og þá er eðlilegt að spurt sé: af hverju?

Á síðustu misserum  hafa starfað hér þverpólitísk samtök, sem nefnast Orkan okkar, sem tóku upp baráttu gegn þriðja orkupakkanum frá ESB.

Í þeim samtökum hefur starfað hópur sjálfstæðismanna, karla og kvenna, sem hafa haft vissar áhyggjur af því á hvaða leið við værum sem þjóð í samskiptum okkar við Evrópuríkin.  Í þeim hópi sjálfstæðisfólks var tekin ákvörðun um að láta reyna á þetta tiltekna ákvæði í skipulagsreglum flokksins. Þess vegna erum við hér saman komin.

Eins og við mátti búast hefur það ekki gengið alveg hávaðalaust fyrir sig.

Í fyrradag var við mig sagt í einkasamtali að við værum með þessari félagsstofnun að væna flokkssystkini okkar um að standa ekki vörð um fullveldi þjóðarinnar, sem hefur verið grundvallarþáttur í starfi og stefnu Sjálfstæðisflokksins í 90 ár.

Við erum ekki að væna neinn um eitt eða neitt.

Við erum öll frjáls að skoðunum okkar enda skoðanafrelsi og tjáningafrelsi bundið í stjórnarskrá lýðveldis okkar.

Mynd í auglýsingu um stofnfund félagsins hefur farið fyrir brjóstið á sumum.

Hugmyndin að baki henni í auglýsingunni var einfaldlega að sýna með mynd af forsíðu Morgunblaðsins frá árinu 1942 tíðarandann í aðdraganda lýðveldisstofnunar. En þar sem í upphaflegri auglýsingu birtist einungis hluti myndarinnar en ekki forsíðan öll er kannski skiljanlegt að hún hafi misskilist.

Ég fullvissa ykkur hins vegar um, að hér er hvorki verið að stofna félag, sem aðhyllist nasisma eða fasisma, að ekki sé talað um stalínisma.

Ég hef hins vegar aldrei getað skilið að það væri eitthvað ljótt við það, að bera í brjósti sterkar tilfinningar til sögu þjóðar sinnar og þeirrar menningararfleifðar frá fyrri öldum, sem við höfum tekið í arf svo og til náttúru þessa lands.

Og það er ekkert ljótt við það.

Hvernig ætlum við að vinna að markmiðum þessa félags?

Annars vegar með því að efna til umræðufunda um málefni líðandi stundar sem tengjast fullveldi þjóðarinnar og hins vegar með fræðslufundum um lykilþætti í sjálfstæðisbaráttu okkar og baráttu okkar á seinni hluta 20. aldar fyrir yfirráðum yfir auðlindum þjóðarinnar.

Sem dæmi vil ég leyfa mér að nefna, að sjálfum finnst mér hin mikla Þingvallarræða Bjarna heitins Benediktssonar á sínum tíma vera efni í heilan fund.

Og annað dæmi. Á meðal okkar er enn maður, hvers móðurafi var formaður sambandslaganefndarinnar 1918. Hann hefur frá mörgu að segja. Hann heitir Matthías Johannessen og var ritstjóri Morgunblaðsins í meira en 40 ár.

Fyrir þeim sem standa að þessari félagsstofnun vakir ekki að efna til úlfúðar innan Sjálfstæðisflokksins heldur þvert á móti að stuðla að því að hann nái vopnum sínum á ný.

En við þá, sem líta þetta framtak okkar hornauga vil ég segja þetta:

Við sjálfstæðismenn þurfum að læra að ræða ágreiningsmál okkar og gera út um þau án köpuryrða hver í annars garð.

Skoðanamunur í svo stórum flokki – þótt hann hafi vissulega minnkað mikið – er eðlilegur, hefur alltaf verið til staðar og verður alltaf til staðar.

Það er engum til heilla að reyna að gera þennan flokk að einsleitum flokki, þar sem ein skoðun ræður ríkjum. Það er þvert á móti ástæða til að láta þúsund blóm blómstra. Þannig verður Sjálfstæðisflokkurinn sú þjóðarhreyfing, sem hann á að vera.

Fylgi flokksins fyrr á tíð hljóp á bilinu 37-42% . Mín skoðun er sú, að það hafi skipt sköpum í kalda stríðinu. Sjálfstæðisflokkurinn var hinn eini svonefndra lýðræðisflokka á þeim tíma, sem aldrei bognaði í þeim átökum, þar sem frjálsar þjóðir heims höfðu sigur að lokum.

Nú stöndum við frammi fyrir nýjum áskorunum, sem snúa að viðleitni Evrópuríkja til þess að sameinast svo að aldrei aftur verði stríð þeirra í milli.

Við vorum aldrei aðilar að þeim stríðsátökum, þótt þau snertu okkur beint.

En við þurfum á því að halda að hafa beinan aðgang að mörkuðum fyrir útflutningsafurðir okkar í Evrópu. Og staðreynd er að sá aðgangur hefur ekki fengizt nema með samningum, sem á ýmsan veg knýja okkur inn í kerfi sem þau eru að koma sér upp.

Aðlögun að því kerfi má ekki ganga of langt.

Þess vegna er það mín skoðun, að aldrei aftur megi erlendur togari veiða fisk á Íslandsmiðum.

Og með sama hætti að aðrar þjóðir megi aldrei ná tangarhaldi á annarri mestu auðlind okkar, sem er orka fallvatnanna.

Gleymum því heldur ekki að hinar merku menningarþjóðir Evrópu eiga sér sögu, sem fram á síðustu ár hefur ekki verið til umræðu í þeirra eigin ranni. Það er saga nýlenduveldanna. Hún snerist ekki sízt um það að arðræna auðlindir nýlendanna. Við höfum fengið nóg af slíku arðráni við Íslands strendur.

Nú fyrst eru sumar þessara þjóða, rúmlega hundrað árum seinna að byrja að horfast við eigin sögu og fortíð. Í Belgíu eru nú farið að breyta nöfnum á götum og torgum, sem hafa verið kennd við Leópold II, Belgíukonung. Og Belgar eru farnir að svipast um í söfnum, sem orðið hafa til vegna menningarverðmæta frá nýlendum þeirra.  Þið munið eftir baráttunni um handritin heim. Og Belgar eru jafnvel farnir að líta svo á, að verið geti að fyrrnefndur Leópold hafi verið það sem nú er kallað að vera fjöldamorðingi.

Og það eru jafnvel farnar að sjást vísbendingar um að Englendingar þurfi kannski að gera upp við eigin fortíð.

Í þá tíð fór þetta allt fram með hervaldi, alveg eins og Bretar stálu fiski við Ísland undir herskipavernd.

Nú gerist þetta með öðrum hætti og annars konar vopnum. Í stað hermanna fyrri tíma, sem í tilviki Belga þurftu að koma með líkamshluta til höfuðstöðva sinna til að sanna að þeir hefðu drepið mann, eru það skriffinnar í Brussel, sem með yfirgengilegum lagaflækjum reyna að komast yfir þær auðlindir, sem áður voru teknar af öðrum þjóðum með vopnavaldi.

Ég veit að þeir sem svona tala eru í pólitískum umræðum hér nú um stundir kallaðir einangrunarsinnar.

En ég spyr sjálfan mig og ykkur:

Voru það einangrunarsinnar, sem börðust fyrir því í tæplega hálfa öld, að Ísland tæki fullan þátt í varnarsamstarfi frjálsra þjóða heims á kalda stríðs árunum? Voru það einangrunarsinnar, sem leiddu okkur inn í NATÓ? Voru það einangrunarsinnar, sem börðust fyrir því að halda bandaríska varnarliðinu hér áratugum saman í hörðustu átökum, sem upp hafa komið á Íslandi, jafnvel í sögu okkar allri?

Ég man ekki eftir því, að hafa séð á þeim vígstöðvum þá sem nú hrópa að okkur: Þið eruð einangrunarsinnar.

Góðir fundarmenn:

Það er komið að lokum þessa stofnfundar Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál.

Nú bíðum við eftir niðurstöðum miðstjórnar og væntanlega verða þær á þann veg að við getum hafið starfsemi þessa félags í janúar.

Hún mun ekki beinast gegn einum eða neinum.

Hún mun snúast um þátttöku okkar í því að hefja Sjálfstæðisflokkinn til fyrri vegs vegna þess, að við getum ekki verið viss um að standast herdeildum skriffinnanna í Brussel snúning, nema þessi flokkur verði áfram sú kjölfesta, sem hann var mestan hluta 20. aldar í okkar samfélagi.

Til þess að svo megi verða verðum við að ná mun betur til þjóðarinnar en við gerum nú um stundir.

Þess vegna erum við hér!“