“We’ve learned that quiet isn’t always peace”
Amanda Gorman
Sífellt fleiri Íslendingar eru að vakna til vitundar um að það sé með öllu óásættanlegt að erlendar stofnanir taki sér æðsta dóms- og lagasetningarvald í trássi við ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Flestir Íslendingar telja að Íslandi eigi að vera frjálst og óháð land. Þannig er hagur þjóðarinnar best tryggður og þannig getum við með stolti tekið þátt í alþjóðlegri samvinnu án þess að aðrar þjóðir geti sagt okkur fyrir verkum. Á þann hátt verða tækifæri okkar fleiri bæði heima og að heiman og við getum komið fram við aðrar þjóðir með stolti og virðingu og án þess að vera leppar einhverra annarra ríkja. Þannig getum við lagt mest að mörkum í síbreytilegum og ótryggum heimi.
Sjálfstæðisflokkurinn var á sínum tíma stofnaður um frelsi þjóðarinnar. Hans aðalstefnumál var skýr og óumsemjanleg krafa um frjálsa þjóð í frjálsu landi. Fyrsta aðalstefnumálið var „að Ísland taki að fullu öll sín mál í sínar eigin hendur og gæði landsins til afnota fyrir landsmenn“ og hitt var „að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.“ Þessi aðalstefnumál eru enn grunngildi flokksins. Það eru sagnfræðilegar ástæður fyrir því að flestir Íslendingar vilja ekki inngöngu í Evrópusambandið (ESB). Sumir segja þetta tilfinningar en eins og með margar tilfinningar byggir þessi tiltekna tilfinning á gefinni reynslu.
Í þessu ljósi getur verið að einhverjir hafi orðið hissa þegar fréttist af stofnun sérstaks félags sjálfstæðismanna um fullveldismál 1. desember 2019. Undir öllum venjulegum kringumstæðum stofnun slíks félags innan flokksins að vera óþörfÍ dag er öldin önnur. Nýlega samþykktu allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins innleiðingu þriðja orkupakka ESB (OP#3) í íslensk lög, að aðeins einum þingmanni undanskildum (Á.F.). Hvað veldur?
Skýringuna er ekki að finna í lögum eða reglugerðum Sjálfstæðisflokksins því í 1. kafla, 7.gt. skipulagsskrár flokksins segir um landsfund:
“Landsfundur hefur æðsta vald í málefnum flokksins. Hann markar heildarstefnu flokksins í landsmálum og setur reglur um skipulag hans.”
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, haldinn í Laugardalshöll 16. – 18. mars 2018 segir eftirfarandi í Ályktun Atvinnuveganefndar í kaflanum um Iðnaðar- og orkumál:
“Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.”
Lögfræðingar sem sérfróðir eru um stjórnskipunarrétt og stjórnarskrármálefni hafa lýst áhyggjum af því að Alþingi hafi með innleiðingu OP#3 í íslenskan rétt yfirstigið mörk stjórnarskrárinnar með því að opna fyrir framsal yfirráða yfir orkuauðlindum Íslands til erlends yfirþjóðlegs valds. Mörgum kann að koma þetta á óvart, einkum þar að lýðræðislega kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins stóðu allir sem einn fyrir og stóðu þétt að baki þessum gjörning, sem er framsal á fullveldi landsins í eigin orkumálum. Íslenska þjóðin hefur aldrei verið spurð að þvi hvort hún er sammála þessum gjörningi.
Félag Sjálfstæðismanna um fullveldismál er stofnað í þeim tilgangi að efla samhug sjálfstæðismanna um fullveldið með því að halda til haga og verja, með fræðslu og upplýsingu, þau grunngildi Sjálfstæðisflokksins sem fjalla um frjálsa og fullvalda þjóð.
Ekki er þar vanþörf á.