Ráðherra á rangri leið
Agla Eir Vilhjállmsdóttir skrifar í Fréttablaðið
Íslendingar búa við góða heilbrigðisþjónustu í alþjóðlegum samanburði. Hér ríkir almenn sátt um mikilvægi þess að tryggja öllum jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, sem er vel. Hingað til má segja að þetta aðgengi hafi verið tryggt eftir mismunandi leiðum. Nú virðist heilbrigðisráðherra, í einbeittri andstöðu sinni við einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, stefna því aðgengi í hættu.
Samningar við sjálfstætt starfandi sérgreinalækna runnu út árið 2018 og hefur ekki náðst að semja síðan þá. Umræddir sérfræðilæknar eru barnalæknar, háls-, nef- og eyrnalæknar, hjartalæknar og allt þar á milli. Í millitíðinni hefur verið stuðst við tímabundnar reglugerðir ráðherra um endurgreiðslufyrirkomulag á kostnaði. Nú hefur heilbrigðisráðherra kynnt nýja reglugerð, sem miðar að því að koma í veg fyrir að sjálfstætt starfandi sérgreinalæknar rukki viðbótargjald fyrir þjónustu sína. Læknar hafa hins vegar bent á að vandamálið kristallist í því að ráðherra ákveði einhliða einingaverð sem taki ekki mið af raunkostnaði þjónustunnar og deilt er um hvort það hafi fylgt verðlagsþróun. Þetta er ástæða þess að læknar hafa talið sig þurft að rukka viðbótargjald svo þjónustan standi undir sér.
Í stað þess að uppfæra gjaldskrána svo hún mæti raunkostnaði hefur ráðherra ákveðið, meðvitað eða ómeðvitað, að leggja grunn að tvöföldu heilbrigðiskerfi. Þetta eykur líkur á að hér á landi verði ekki boðið upp á tiltekna þjónustu enda muni hún ekki standa undir sér, eða þá að hún verði einvörðungu í boði án greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga. Þar með mun almenningur bera hærri kostnað sem getur beinlínis skert aðgengi lágtekjuhópa að heilbrigðisþjónustu. Með öðrum orðum: Þeir sem geta borgað hafa þannig meira val um læknisþjónustu en þeir sem hafa minna milli handanna.
Allir græða
Best væri ef heilbrigðiskerfið veitti fyrsta flokks þjónustu með öruggum hætti og án tafa, með þarfir sjúklingsins í huga. Þannig gætu sjúklingar fengið þá heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa á viðráðanlegu verði, óháð því hvert rekstrarform veitenda þjónustunnar er. Sem kaupandi heilbrigðisþjónustu ber hinu opinbera að beita sér til að ná fram sem bestu kjörum og tryggja betri gæði og hámarksskilvirkni í heilbrigðiskerfinu. Á þar ekki að breyta neinu hvort það veitir þjónustuna sjálft eða mótar ramma utan um hana og úthýsir henni með einum eða öðrum hætti.
Gott dæmi um hvernig sjúklingurinn hefur verið settur í forgang eru úrbætur sem gerðar voru á fjármögnunarlíkani heilsugæslustöðva, en fjármagn fylgir einstaklingnum nú í þá heilsugæslu sem hann velur sér, óháð rekstrarformi hennar. Í þjónustukönnun heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu, sem Maskína framkvæmdi fyrir Sjúkratryggingar Íslands, kom fram að mest ánægja væri með einkareknar heilsugæslustöðvar. Samt sem áður er þjónusta þeirra hvorki dýrari fyrir sjúklinginn né hið opinbera.
Allir tapa
Hér á landi gætir misskilnings og jafnvel fordóma gagnvart einkaframtaki í heilbrigðisstarfsemi, einkum í tengslum við greiðsluþátttöku einstaklinga. Þannig hefur því verið haldið fram að hagnist fyrirtæki eða einstaklingur á starfseminni sé hún þar af leiðandi dýrari fyrir kaupandann. Þetta er ekki rétt – umrædd þjónusta er í flestum tilfellum mun hagkvæmari. Niðurstaðan er því ódýrari og betri þjónusta til neytenda. Í heilbrigðiskerfinu hefur borið á því að sjúklingar séu fluttir úr landi í hinar ýmsu aðgerðir með gríðarlegum kostnaði, í stað þess að samið sé við innlenda einkaaðila með auknu hagræði fyrir sjúklinginn og hið opinbera. Ef vel er staðið að gerð slíkra samninga skiptir engu hvort þjónustan sé framkvæmd á vegum hins opinbera eða einkaaðila enda er upphæðin sem fylgir sjúklingnum í báðum tilvikum sú sama.
Herferð gegn fjölbreyttum rekstrarformum í heilbrigðiskerfinu mun að óbreyttu leiða til verri nýtingar fjármuna og þar með verri þjónustu við landsmenn. Hún ýtir einnig undir spekileka með því að fæla frá sérfræðinga á sviðinu. Heilbrigðisráðherra á ekki að leysa einn vanda, þann að hafa ekki náð samningum, með því að búa til annan og verri. Nema markmið og lausn ráðherrans sé tvöfalt heilbrigðiskerfi með einkareknum sjúkratryggingum.