Rússland vill breyta Evrópu í þá mynd sem það hefur þekkt vel undanfarnar aldir, þ.e.a.s. í samstillt stórveldi með sameiginlega skilgreint áhrifasvið.
Stríðið í Úkraínu hefur afhjúpað sannleikann um Rússland. Þeir sem neituðu að taka eftir því að ríki Pútíns hefði tilhneigingu til heimsvaldastefnu verða núorðið að horfast í augu við þá staðreynd að djöflar 19. og 20. aldar hafa nú lifnað við: þjóðernishyggja, nýlendustefna og æ sýnilegri alræðishyggja. Stríðið í Úkraínu hefur þó einnig flett ofan af sannleikanum um Evrópu. Margir Evrópuleiðtogar hafa látið Vladimír Pútín draga sig á tálar og verða nú fyrir áfalli. Endurkoma hinnar rússnesku alræðishyggju ætti ekki að koma okkur á óvart. Rússland hefur jafnt og þétt verið að endurbyggja stöðu sína undanfarin tuttugu ár. Á því tímabili kusu Vesturlönd að taka sér landstjórnmálalegan lúr í stað þess að vera árvökul og skynsöm. Þau kusu að líta framhjá sívaxandi vandamáli í stað þess að standa gegn því fyrr. Evrópa kom sér ekki í þessa stöðu vegna þess að hún var ekki nægilega samþætt heldur vegna þess að hún kaus að hlusta ekki á rödd sannleikans. Sú rödd hefur verið að koma frá Póllandi í mörg ár.
Pólland áskilur sér ekki rétt á sannleikanum en af samskiptum við Rússland hefur Pólland þó talsvert meiri reynslu en aðrir. Lech Kaczynski, fyrrverandi forseti Póllands, hafði rétt fyrir sér, líkt og Kassandra sem sá fyrir fall Trójuborgar. Kaczynski sagði fyrir mörgum árum að Rússland myndi ekki láta staðar numið í Georgíu heldur myndi teygja sig áfram til að sölsa meira land undir sig. Ekki var heldur hlustað á hann. Sú staðreynd að rödd Póllands hafi verið hunsuð er einungis birtingarmynd stærra vandamáls sem ESB stendur frammi fyrir í dag.
Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is) skrifar pistil á Mbl.is:
Um alla vestur Evrópu kvíðir fólk vetrinum í kjölfar hitasumars. Við blasir að orkukostnaður hefur farið upp úr öllu valdi síðan stríðið í Úkraínu hófst og Vestur-Evrópa var gripin í bólinu með orkustefnu sína. Allt á þetta samhljóm í umræðunni um þriðja orkupakkann sem varð fyrirferðamikil hér á tímabili. Samhæfðir markaðir með orku hefðu átt að henta Vestur-Evrópu en gera það ekki í þessu ástandi, orkuverð fer upp úr öllu valdi, almenningur þjáist og Íslendingar geta þakkað fyrir að vera ekki hluti af þessum markaði. En er rekinn áróður í nafni EES samningsins um að gera Íslendinga hluta af þessu fyrirkomulagi með lagningu sæstrengs. Eitt af helstu markmiðum orkustefnu ESB er að koma á tengingum á milli orkusvæða (landa).
Í Evrópu eru nú sagðar hryllingssögur af orkuverðshækkunum og í Bretlandi eru komnir af stað undirskriftalistar þar sem fólk hótar að hætta að greiða orkureikninga og krefja stjórnvöld um aðgerðir. Íslendingar með tengsl út í Evrópu segja af þessu sögur í spjalli sín í milli. „Ég heyri frá vinafólki sonar míns að hitakostnaður fyrir frekar litla íbúð í London hafi meir en fjórfaldast á góðu ári (úr 60 pundum í 260 á mánuði),“ sagði einn netverjinn í vikunni. Sighvatur Bjarnason, sem rekur fyrirtæki í Lettlandi, sagði að rafmagnskostnaður í hans fyrirtæki þar í landi hefði í heild verið 252,6% hærri en á síðasta ári. „Í dag þurfum við að hættra framleiðslu kl 17:00 vegna þess að frá kl 18 til 19 fer kostnaðurinn í 4 EUR á KW.“ Hann lýkur orðum sínum með eftirfarandi ályktun: „Það er skynsamlegra fyrir Ísland að ganga úr EES en að missa yfirráðin yfir orkuauðlindunum. Þetta er það sem koma skal og mun eingöngu versna.“
Orkufrek starfsemi í samdrætti
Víða í Evrópu er verið að draga saman raforkufreka framleiðslu og í sumum tilvikum hefur iðnaðarframleiðsla stöðvast eða reynt að bregðast við á annan hátt. Orkufrek framleiðsla er keyrð á næturnar þegar orka er að jafnaði ódýrari en það hefur mikil óþægindi í för með sér fyrir starfsfólk og launakostnaður eykst á móti. Engin vill þurfa að búa við það til framtíðar og augljóslega hefur ástandið áhrif á landsframleiðslu viðkomandi landa.
Stjórnvöld hafa víða þurft að bregðast harkalega við og norska Stórþingið var kallað inn úr sumarleyfi vegna hins skelfilega ástands í raforkumálunum sem þar hefur ríkt. Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (Agency for the Cooperation of Energy Regulators, skammstafað ACER) hefur núna yfirstjórn yfir allri raforkunni þar í kjölfar þess að Norðmenn hafa tengt sig innri markaði, meðal annars í gegnum sæstrengi, og það er lítið sem norsk stjórnvöld hafa að segja um það fyrirkomulag. Uppistöðulónin eru við það að tæmast og vegna hins himinháa verðlags á raforkunni þarf að niðurgreiða hana hjá bæði einstaklingum og fyrirtækjunum. Um leið eru Svíar eru að kikna undir háu raforkuverði í Suður-Svíþjóð sem er tengt raforkukerfi ESB.
Kaldur vetur eða breytt stefna
Já, það er eðlilegt að það sé þungt yfir mönnum í þessu ástandi. Við Íslendingar eru orkuframleiðendur og fáum nú hærra orkuverð út úr samningum sem tengdir eru heimsmarkaðsverði á meðan almennir neytendur verða ekki varir við miklar breytingar.
Allt þetta kallar á viðbrögð þó ólíklegt sé að unnt verði að bjarga vetrinum. Þjóðverjar viðurkenna núna að hafa gert afdrifarík mistök í stefnumótun sinni í orkumálum undir stjórn Angelu Merkel eins og kemur fram í Morgunblaðinu í vikunni. Evrópusambandið hefur breytt skilgreiningum á kjarnorku og jarðgasi, með þegjandi samþykki umhverfisverndarsinna, til að auðvelda notkun þessara orkugjafa eins og bent hefur verið á hér. Þjóðverjar reyna að finna leiðir til að halda kjarnorkuverum sínum opnum eða opna þau á ný. Það er tímafrekt að snúa við stefnunni.
Finnar hafa ákveðið að reisa nýtt 1600 MW kjarnorkuver, Olkiluoto 3. Finnskir fjölmiðlar segja að líkindi til þess að fjárfestingin verði öll endurgreidd á innan við áratug, miðað við orkuverð núna, það sýnir arðsemi fjárfestingarinnar. Það þarf ekki að taka fram að þetta er mjög jákvætt fyrir koltvísýringsbúskap Finna.
Arðsömustu fjárfestingar Íslendinga
Rætt er um að kjarnorkuver eins og Olkiluoto 3 geti framleitt rafmagn í 60 ár. Afskriftartími vatnsorkuvera eins og við eigum er í raun endalaus, mest af mannvirkjum, svo sem stöðvarhús, skurðir og stíflur geta enst marga mannsaldra og haldið áfram að skila hreinni og ódýrri orku. Þetta er staðreynd sem Landvernd er eð reyna að snúa út úr. Við Íslendingar höfum enn tækifæri til að styrkja orkubúskap okkar og reka hann svo að hann styðji við atvinnulíf, íþyngi ekki heimilum landsins og færi ríkissjóði mikilvægar tekjur. Það er öfundsverð staða.
“Frammi fyrir þessu rann smám saman upp fyrir kjósendum að stjórnmálin höfðu umbreyst í leiklestur og stjórnmálamennirnir í brúður.”
Þótt ekkert fæðingarvottorð sé til er almennt talið að lýðræðið hafi fæðst í Grikklandi á 5. öld f. Kr. og að vöggu þess sé helst að finna í borgríkinu Aþenu. Á æskuskeiði átti lýðræðið góða spretti í Róm, áður en valdagírugir menn komu á einræði með múgæsingarstarfi, ógn og ofbeldi. Eftir það sat lýðræðið lengi í öskustó annars stjórnarfars. Minningin um sólbjarta daga málfrelsis og sjálfstæðis dofnaði en hvarf þó ekki með öllu. Jafnvel þótt þessi minning hafi orðið óljós á myrkustu köflum þessara fyrstu alda var það þó kannski einmitt óljós endurómurinn sem hélt lífi í glóðunum þegar útlitið var sem dekkst. Þrátt fyrir vanþroska og mótlæti braust andi lýðræðisins stundum eftirminnilega í gegn. Til þeirrar sögu má nefna stofnun Alþingis árið 930, Magna Carta (1215) o.fl. Á þessum grunni holdgerðist lýðræðisandinn í Englandi á 17. öld eins og sjá má m.a. í Bill of Rights (1689) sem markaði þáttaskil. Lýðræðið fann rætur sínar og styrktist með hverri raun.
Segja má að átök næstu 100 ára hafi falið í sér dýrmæta þjálfun hvað varðar bæði úthald og styrk. Á þessum mótunarárum naut lýðræðið leiðsagnar úrvals kennara. Við leiðarlok ber að minnast sérstaklega á John Locke (1632-1704) og bók hans, Ritgerð um ríkisvald, sem reyndist lýðræðinu traust handbók í átökum og eftirmálum bandaríska frelsisstríðsins (1765-1791) og frönsku byltingarinnar (1789).
Ekki verður skilið við þetta tímabil án þess að minnast á Sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna (1776), þar sem þrír grundvallarþræðir lýðræðisins, uppruni, markmið og tilgangur, eru glæsilega fléttaðir saman:
1) Guð skapaði alla menn jafna og gaf þeim rétt til lífs, frelsis og til að leita hamingjunnar. 2) Megintilgangur með öllu stjórnarfari er að verja þessi réttindi. 3) Ef ríkið reynir að synja mönnum um þennan rétt er fólki heimilt að gera uppreisn og koma á fót nýrri stjórn.
Saman mynda þessir þrír þræðir erfðamengi lýðræðisins, anda þess og sál, sem síðar má vonandi vekja til nýs lífs. Á blómaskeiði sínu átti lýðræðið glæstar stundir og fóstraði margt það besta sem mönnum hefur tekist að leiða fram, með því að virkja sköpunarkraft, samtakamátt o.fl. Stofnun íslenska lýðveldisins 1944 var mjög í þessum anda, hugdjörf ákvörðun fámennrar en stórhuga þjóðar. Því verður þó ekki á móti mælt, að lýðræðið glímdi alla tíð við meðfædda galla og var t.d. óþægilega ginnkeypt fyrir hvers kyns skrumi. Í alþjóðlegu samhengi leiddu veikleikar lýðræðisins til þess að það féll ítrekað fyrir varasömum mönnum, sem kunnu að spila á strengi sem leiddu fólk í gildru harðstjórnar, þar sem járnkrumla hertist um æðakerfi þjóðlífsins þar til ekkert varð eftir annað en stirðnuð skel og líflaus leikmynd þar sem andlausir leikarar þuldu upp sömu setningarnar í mismunandi útgáfum. Stjórnmálin urðu dauf og líflaus, ekkert kom lengur á óvart. Hver einasta lína var skrifuð af ósýnilegum baktjaldamönnum og óttinn knúði alla til að vanda framburð og látbragð í hvívetna, því sérhvert frávik frá textanum gat varðað atvinnumissi og brottrekstri af sviðinu. Í þessu umhverfi entust þeir lengst í stjórnmálum sem nutu sviðsljóssins mest og höfðu kannski minnst fram að færa frá eigin brjósti, en sýndu hæfni í að endurtaka hugsanir annarra af einlægum sannfæringarkrafti.
Þegar þátttaka í stjórnmálum var ekki lengur þjónustuhlutverk, heldur starfsferill, náðu þeir lengst sem spurðu engra spurninga, voru reiðubúnir að kynda undir óvild manna í garð samborgara sinna, veigruðu sér ekki við að hóta þeim sem sýndist skorta undirgefni og hikuðu ekki við að framfylgja fyrirskipunum með valdbeitingu. Frammi fyrir þessu rann smám saman upp fyrir kjósendum að stjórnmálin höfðu umbreyst í leiklestur og stjórnmálamennirnir í brúður. Niðurlægingin var svo mikil og svikin svo sárgrætileg að enginn vildi viðurkenna að þetta væru dauðamörk. Enginn nema börn og stöku eldri borgarar höfðu einlægni til að spyrja:
„Til hvers að taka þátt í pólitík ef þú ætlar ekki að segja það sem þér sjálfum finnst?“
Ef marka má sögu lýðræðisins mun ekkert breytast fyrr en menn rísa upp gegn ofríkisöflunum og hafna andleysinu í þeim tilgangi að verja líf sitt og frelsi til gagnrýninnar hugsunar, málfrelsi sitt og frelsi til athafna, samvinnu, uppbyggingar og friðar. Aðeins þannig getur lýðræðið vaknað til nýs lífs.
Hafa Íslendingar þrek til þess eða kjósa menn enn að dvelja sofandi á draumþingum og hlusta hálfsofandi á léleg handrit leiklesin á öllum sviðum einkalífs og þjóðlífs?
Höfundur er sjálfstætt starfandi lögmaður og formaður Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál. arnarthor@griffon.is
Spyrill RÚV: „Að lokum Vigdís. Þú ert fjórtán ára gömul þegar lýðveldi var stofnað á Þingvöllum 1944. Hverjar eru minningar þínar frá þeim degi?“
Vigdís Finnbogadóttir:
„Ákaflega bjartar. Við vorum öll svo hreykin af þessu frelsi og þessu sjálfstæði sem að við innsigluðum á Þingvöllum þennan dag við fórum austur í Steindórsrútu sem var farartæki þeirra tíma og og við vorum öll sparibúinn eða minnsta kosti með sparifötin í töskunni en það var svo mikill vatnsgangur við komumst aldrei í þessi fínu föt okkar en sjálf lýðveldistakan á Lögbergi verður öllum ógleymanleg sem þar voru staddir. Og við megum aldrei, aldrei gleyma því hversu dýrmætt það er að eiga þetta frelsi; mega segja allt upphátt, hugsa allt og vera við sjálf með okkur sjálfum.“
Vigdís Finnbogadóttir f.v. forseti Íslands í útvarpsviðtali á Rás 1, RÚV 26. júní 2022
Hér má hlusta á allt viðtalið í þættinum Reykjavík bernsku minnar, sem er afar fróðlegt
Á þjóðhátíðardaginn er vert að minnast þess sem við Íslendingar eigum sameiginlegt. Þjóðhátíðardagurinn er sameiginlegur hátíðisdagur. Hann gefur okkur mikilvægt tækifæri til að gleðjast og fagna. Á þessum degi komum við saman og gleðjumst hvert með öðru. Haldnar eru ræður, flutt ljóð, leikið, dansað og sungið. Fjallkonan er þar í lykilhlutverki. Fólk og félög leggja sitt af mörkum til gleðja og gera daginn eftirminnilegan. Í orði og verki gefum við hvert öðru hlut af hjarta okkar og tíma.
Fjallkonan er táknmynd Íslands, landsins sem fóstrar okkur, nærir og verndar. Fjallkonan táknar líka móður jörð, móðurástina sem öllum er lífsnauðsynleg. Ísland (Ísafold) er móðir okkar allra, griðastaður okkar, sem okkur ber virða, hlúa að og verja. Við erum þannig í reynd börn þessa lands. Það sem móðir þráir heitast er að börn hennar sýni hvert öðru virðingu og vináttu, þroskist og blómstri á fallegan hátt. Ágreiningur getur verið hluti af þroskaferli manns og þjóðar, en takmarkið er að við náum að búa í sátt og samlyndi, vinnum saman að sameiginlegum markmiðum og gildum.
Við getum notað þennan þjóðhátíðardag til að hugsa um þennan fagra þráð milli lands og þjóðar og hvað við sem einstaklingar, í okkar eigin mætti, getum gert til þess að bæta samfélagið á einhvern máta. Það gerum við með því að líta inn á við, finna styrkleika okkar, tengjast hjörtum annarra og spinna saman litríkan og traustan þjóðarþráð til framtíðar. Saman myndum við sterka heild og gott samfélag.
Ákveðið hefur verið að fresta frekari umræðu um útlendingamálafrumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra til haustþings, en dómsmálaráðherrann hefur sagt að hann hafi ákveðið að fresta frumvarpinu til þess að liðka fyrir samningum um þinglok. Þrír stjórnarandstöðuflokkar, Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins, fram ítarlegar breytingartillögur við frumvarp ráðherra eftir að ráðherra óskaði eftir því að fá efnislegar athugasemdir sem liðkað gætu fyrir samningum um frumvarpið, en samkvæmt frétt RÚV kom ráðherrann með tillögur á móti sem þingflokkarnir þrír sættu sig ekki við.
Þetta frumvarp snýr meðal annars að flutningi þjónustu milli ráðuneyta. Breytingarnar munu greiða fyrir málsmeðferð og auka skilvirkni við afgreiðslu umsókna um vernd hérlendis og færa reglur nær þeim sem í gildi eru á Norðurlöndunum. Samstaða hefur verið um frumvarpið meðal ríkisstjórnarflokkanna og var vonast til að það yrði að lögum nú í vor. En reyndin var önnur.
Málið snýst nú um ólöglega hælisleitendur sem höfðu áður fengið hæli í öðrum Evrópulöndum en neituðu að framfylgja sóttvarnarlögum á Íslandi, svo ekki möguleiki á að flytja þá úr landi á þeim tíma. Afgreiðsla umsókna flóttafólks tekur langan tíma og hefur fjöldi umsækjenda sem rétt eiga á þjónustu tvöfaldast frá því í byrjun mars og eru það nú 1.400 manns..
Nýlega kom fram, að hælisleitendur sem Íslendingar hafa veitt hæli eru nú um 25 á hverja 10.000 íbúa landsins. Næsta þjóð er Svíþjóð með 7,6 á hverja 10.000 íbúa og síðan Danmörk og Noregur með í kringum 3 á hverja 10.000 íbúa. Finnland var ekki talið með enda er sennilega stuðulinn hjá þeim í kringum 0.
Það er að öllum líkindum orðið útbreidd vitneskja í Afríku og Mið-Austurlöndum að það skuli vera til þjóð norður í dumbshafi sem tekur á móti öllu fólki og ber það á höndum sér. Fólk fái húsnæði, laun og það besta væri að það þyrfti aldrei að vinna. Samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna eru um 400 milljónir manna sem eru lagðir af stað eða íhuga að gerast hælisleitendur. Hvert geta Íslendingar farið þegar búið er að fylla landið af hælisleitendum og ríkissjóður komin á svipaðan stað og sá í Venezúela? Það eru nægar flugsamgöngur til að moka 20.000 flóttamönnum á dag til landsins. Eftir 100 daga væru komnar 2 milljónir sem allir fengu fæði og húsnæði á kostnað ríkisins. Og ef það er ekki nóg eru 200 milljónir í viðbót þarna úti sem gjarnan mundu vilja fá það líka.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur lagt mikla vinnu í þetta frumvarp um útlendingamál með það fyrir augum að flýta fyrir afgreiðslu umsókna, gera umsóknarferilinn skilvirkari og réttlátari. Hingað til hafa ríkisstjórnarflokkarnir sýnt frumvarpinu stuðning og gerðar hafa verið breytingar á frumvarpinu til að koma til móts við athugasemdir stjórnarandstöðunnar m.a. til að flýta fyrir afgreiðslu frumvarpsins og greiða fyrir þinglokum. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að standa þétt að baki dómsmálaráðherra í þessu mikilvæga máli og löngu tímabæru breytingum til hins betra.
Örn Arnarson ritaði meðal annars um umræðuþætti Ríkisútvarpsins í fjölmiðlarýni sinni í Viðskiptablaðinu í gær. Þar nefndi hann tvö dæmi frá liðinni helgi þar sem málefni voru til umræðu en einungis fulltrúar annarrar hliðarinnar á staðnum.
Á Rás 1 var í Vikulokunum rætt um aðild Íslands að Evrópusambandinu „en nánast allur þátturinn snerist um af hverju þau mál öll sömul væru ekki nú þegar til lykta leidd. Sigríður Dögg Auðunsdóttir, þáttastjórnandi og formaður Blaðamannafélagsins, fékk til sín þrjá yfirlýsta stuðningsmenn Evrópusambandsaðildar til að ræða málið í þættinum. Þetta voru þau Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, Jón Steindór Valdimarsson, fyrrverandi þingmaður Viðreisnar og stjórnarformaður í samtökunum Já Ísland sem hafa barist fyrir aðild að ESB, og svo Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar.“
Örn rakti umræðurnar stuttlega og með ólíkindum er að lesa lýsingar hans á einhliða og undarlegum umræðum í þættinum. Óhætt er að mæla með að lesendur kynni sér þau skrif í Viðskiptablaðinu.
Ríkisútvarpið er rekið fyrir skattfé, auk auglýsinga, og skattinn greiða bæði stuðningsmenn og andstæðingar aðildar að ESB hvort sem þeim líkar betur eða verr. Og Ríkisútvarpinu ber samkvæmt lögum að gæta hlutleysis í umfjöllun. Því miður eru þrátt fyrir það fjölmörg dæmi til um einhliða áróður RÚV, Útvarpi allra landsmanna eins og glöggt kom fram verðandi 3. orkupakka ESB og enginn vilji virðist vera innan stofnunarinnar til að laga það. Nema síður sé.
„Það er ekki bæði sleppt og haldið“ tönglast ESB-sinnar gjarnan á í umræðum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB). Draumur ESB-sinna er að ganga að fullu inn í regluverk ESB með öllu sem því fylgir. „Það er betra að sitja við borðið en úti á gangi“ er viðkvæðið. „Borðið“ er hins vegar svo stórt og á því liggja svo mörg flókin skjöl á útlensku að ESB-sinnarnir virðast hvorki hafa tíma né kunnáttu til að kynna sér efni skjalabunkanna til hlítar. Það vekur því litla furðu þegar fulltrúar ESB-flokkanna á Íslandi (sbr. leiðara Fréttablaðsins 19. mars 2022) sem hafa verrið óþreytandi við að hvetja til inngöngu í ESB í öðru orðinu skuli með hinu hvetja til niðurgreiðslu raforku til garðyrkjubænda. Hmmm…?. Eru þeir ekki í raunveruleikatengslum?
Raforkuverð í Evrópu
Verð á raforku í ESB, sérstaklega vistvænni raforku, er í dag umtalsvert hærra en á Íslandi og mun hækka enn meira á komandi árum. Orkupakkar ESB gera ráð fyrir tengingu raforkukerfa á milli landa. Því má vera ljóst að þegar raforkukerfi Íslands verður tengt við raforkukerfi ESB muni raforka frá Íslandi flæða til Evrópu þar til skilaverð til framleiðenda á raforku til innanlandsnota er orðið því sem næst jafnt því sem þeir fá fyrir sölu raforku til Evrópu. Þetta mun hafa geigvænlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir Ísland þar sem raforkuverð á Íslandi mun þá hækka bæði til fyrirtækja og heimila.
Niðurgreiðslur á raforku óheimilar í ESB
Framleiðendur raforku myndu ekki vilja ótilneyddir selja raforku á lægra verði til sumra notenda en annarra. Þar að auki myndi slíkt flokkast undir markaðsbrenglandi niðurgreiðslur og/eða verðmismunun sem er óheimil samkvæmt EES-ESB reglum. Innlendir raforkunotendur myndu stórtapa á samtengingunni við orkumarkað ESB. Búast má við að raforkunotkun á Íslandi myndi minnka vegna hækkandi orkuverð þar sem lágt orkuverð er forsenda ýmiss konar starfsemi. Ætla má að það sé einkum í tiltölulega orkufrekum iðnaði miðað við framleiðsluverðmæti eins og t.d. í ylrækt, garðyrkju, fiskimjölsverksmiðjum, rekstri gagnavera og svo auðvitað í svokallaðri stóriðju. Atvinnutækifærum sem byggjast á raforku mun þá fækka að sama skapi.
Áhrif sæstrengs
Samtenging íslensks raforkumarkaðs við evrópskan mun leiða til aukinnar raforkuframleiðslu á Íslandi þar sem raforkuframleiðendur geta þá selt mun meira magn en áður og á mun hærra verði. Þetta mun skapa þrýsting á að virkjað verði meira (vatnsföll, jarðhita og vindorka) til að mæta eftirspurninni í Evrópu. Samkvæmt bæði grunnreglum og sértækum reglum ESB skulu markaðsöflin ráða. Því er að öðru jöfnu óheimilt að hindra virkjanir og banna lagningu sæstrengja ef einkaaðilar vilja leggja í slíkar framkvæmdir. Slíkt myndi að öðru jöfnu flokkast undir skaðlegar markaðshindranir. Á þessu munu orkuframleiðendur hagnast því eftir samtenginguna geta þeir selt meira orkumagn á hærra verði. Hins vegar munu notendur raforku innanlands tapa verulega vegna hærra orkuverðs og hefur samtengingin (sæstrengur) því í för með sér breytta tekjudreifingu milli framleiðenda og notenda raforku. Ritstjóri Fréttablaðsins, Sigmundur Ernir hefur greinilega ekki kynnt sér alla skýrsluna. Íslenskir ólígarkar og rafgreifar bíða nú hins vegar spenntir eftir 4. orkupakka ESB.
Ísland á nú í stríði við Rússland. Ekki sem frjálst og fullvalda lýðræðisríki, heldur sem taglhnýtingur Evrópusambandsins (ESB). Ísland er ekki aðili að ESB og þá vaknar sú spurning hvernig gat þetta gerst?
ESB er viðskiptabandalag nokkurra Evrópuríkja. ESB er ekki hernaðarbandalag, og ekki heldur varnarbandalag. Samt sem áður á ESB nú í stríði við Rússland. ESB er óvinur Rússlands og Ísland er nú orðinn óvinur Rússlands vegna ESB.
Ísland er hluti af NATO, sem er varnarbandalag vestrænna ríkja og sem ekki á í stríði við Rússland. Hvers vegna á þá Ísland í stríði við Rússland þegar engin ógn steðjar að Íslandi?
Hvað ef Rússland vinnur stríðið?
Er ekki eitthvað bogið við þessa utanríkisstefnu Íslands?