Sérstakt félag sjálfstæðismanna um fullveldismál – Til hvers?

Þegar stjórnmálaflokkur fer ekki eftir grundvallarstefnu sinni þá starfar hann í umboðsleysi. Fólkið sem kaus flokkinn er flokkurinn og það má krefjast þess að þeir sem hyggjast stjórna í umboðsleysi verði settir af.

Forsaga

Félag Sjálfstæðismanna um fullveldismál (FSF) var stofnað undir forystu Styrmis Gunnarssonar þann 1. desember 2019. Kveikjan að stofnun félagsins var sú að stuttu áður höfðuallir þingmenn Sjálfstæðisflokksins (að einum undanskildum) samþykkt innleiðingu þriðja orkupakka ESB í íslensk lög. Hvers vegna samþykkti þingflokkur Sjálfstæðismanna á Alþingi framsal á yfirstjórn orkuauðlinda Íslands til ESB? Skýringuna er a.m.k. ekki að finna í ályktunum landsfundar flokksins því á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 16. – 18. mars 2018 segir eftirfarandi í ályktun atvinnuveganefndar í kaflanum um iðnaðar- og orkumál:

“Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.”

Samkvæmt lögum flokksins er landsfundur „æðsta vald í málefnum flokksins. Hann markar heildarstefnu flokksins í landsmálum og setur reglur um skipulag hans.”

Því er enn ósvarað, hvers vegna þingmenn Sjálfstæðisflokksins samþykktu innleiðingu þriðja orkupakka ESB í íslensk lög. Það er flestum Sjálfstæðismönnum með öllu óskiljanlegt enda hefur ríkt sátt um skipan íslenskra orkumála, svo sem að orkuverin séu í eigu Íslendinga eða að arðurinn fari til almennings og fyrirtækja í gegnum lágt orkuverð.

Hvaða hagsmunir lágu þar að baki? Er ekki lengur hægt að treysta forystu flokksins til að framfylgja stefnu hans? Hvað kom eiginlega fyrir Sjálfstæðisflokkinn?

Samband forystunnar við flokksmenn hefur rofnað

Ríkisvæðing stjórnmálaflokkanna er líklega einn versti gjörningur á síðari tímum gegn lýðræðinu. Flokkarnir hafa ekki lengur sömu þörf fyrir flokksmenn sína og sambandið við hinn almenna flokksmann hefur rofnað. Þetta er einkum áberandi í Sjálfstæðisflokknum sem áður gat státað af langöflugasta flokksstarfinu einkum vegna  fjölmennra hverfafélaga í Reykjavík og félögum Sjálfstæðismanna um allt land. Engin alvöru pólitísk umræða fer lengur fram í flokknum og félagsstarfsemi er með minnsta móti. Sem dæmi voru allar stjórnmálaumræður hnepptar í Gleipnisfjötra á síðasta landsfundi. Vandamál Sjálfstæðisflokksins er ekki síst sá, að forustumennirnir eru ekki í nægjanlega góðum tengslum við flokksmenn. Hér á árum áður þá fóru þingmenn um landið þegar Alþingi var ekki að störfum og töluðu við flokksmenn og héldu héraðsmót. Nú fara þér í golf og laxveiðar og eru lítt til viðræðu fyrr en þing kemur saman á nýjan leik. Fylgi flokksins hefur því dalað svo um munar í skoðanakönnunum. Hvað veldur?

Hvers vegna að kjósa Sjálfstæðisflokkinn?  

Hvernig ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að heilla til sín kjósendur í næstu Alþingiskosningum? Hvaða baráttumál flokksins verða sett á oddinn? Af hverju getur Sjálfstæðisflokkurinn státað af langri setu í þriggja flokka ríkisstjórn? Hvernig hefur flokkurinn staðið sig í fullveldismálum og samskiptum við ESB? Hefur hann sett hagsmuni þjóðarinnar framar öðrum hagsmunum? Hefur hann sinnt hagsmunum hins almenna kjósanda?

Syndalistinn

Syndalisti forystu Sjálfstæðisflokksins er orðinn æði langur og lengist stöðugt:

  1. Á síðasta landsfundi var gerð alvarleg aðför að lýðræðinu í flokknum framsögumaður málefnanefndar mælti gegn tillögum meirihluta nefndarinnar, sem voru síðan felldar vegna þess að Sjálfstæðisfólk mátti ekki taka skynsamlega afstöðu í málefnum hælisleitenda. Flokksmenn hafa algjörlega misst tiltrúna á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, hafi hún einhver verið fyrir. 
  2. Flokkurinn hefur hefur staðið fyrir því að ákvarðanir um  landamæragæslu er komnar í hendur erlendra aðila vegna aðildar Íslands að Schengen. 
  3. Sú ákvörðun að leggja skyndilega fram frumvarp til að innleiða bókun 35 við EES-samninginn og ætla að samþykkja hana án umræðu er gróf aðför að fullveldi Íslands á flestum sviðum. Hvaða Sjálfstæðismanni dettur í hug að framselja löggjafarvald Alþingis til ESB? 
  4. Fullveldisframsalið varðandi orkumál var augljóst þegar þriðji orkupakki ESB var samþykktur af Sjálfstæðisflokknum. 
  5. Persónuverndarlög ESB, sem voru innleidd af Alþingi, eru þegar farin að setja hömlur á tjáningarfrelsi Íslendinga t.d. þegar erlendar vefsíður eru farnar að loka á Ísland í síauknu mæli. ESB er farið að beita sektum á íslensk fyrirtæki vegna laganna sem eiga í raun mun betur við milljónaþjóðir en fámennt samfélag.
  6. Óheftar innleiðingar á regluverki ESB eru að setja verulega íþyngjandi kröfur á lítil íslensk fyrirtæki og hefur einnig valdið því að eftirlitsstofnanir ríkisins hafa bólgnað út með sífellt auknum kostnaði.
  7. Aðför að málfrelsinu er gerð með haturslögum ESB, sem m.a. mun hafa enn frekari lokanir á vefsíðum í för með sér og setja verulegar skorður á tjáningarfrelsið í andstöðu við stjórnarskrá Íslands.
  8. Flokkurinn hefur einnig brugðist algerlega í hagsmunagæslu vegna mengunarkvóta ESB sem mun leggjast þungt á samfélagið innan nokkurra ára og hefur ESB ekki tekið í mál að endurskoða hann þótt hann sé bersýnilega mjög ósanngjarn gagnvart Íslandi. Á Íslandi er nánast öll raforkuframleiðsla græn og kynding húsa með hitaveitu. Engin viðurkenning hefur verið veitt fyrir þessa staðreynd og talað er eins og að framtak okkar til umhverfismála sé slæmt.
  9. Ríkisútgjöld hafa stóraukist og skattar og álögur hafa hækkað. Tryggingagjaldið er enn mikill dragbítur á fyrirtæki og stofnun nýrra fyrirtækja. Ríkisstarfsmönnum fjölgar stöðugt. Vinnandi mönnum er hegnt fyrir dugnað með því að skerða örorku- og ellilífeyri sem er í algjörri andstöðu við sjálfstæðisstefnuna. Í staðinn styðja þingmenn við glórulaus gæluverkefni vinstri manna svo sem Borgarlínu og óheftan innflutning hælisleitenda
  10. Ekkert samráð er haft um afdrifaríkar ákvarðanir í ýmsum málum t.d. viðskiptabann á Rússa, vopnasendingar á klasasprengjum til Úkraínu, brottrekstur sendiherra Rússa, lokun sendiráðs Íslands í Moskvu o.fl. Hvort skipta eigi um þjóð í landinu og gera ensku að opinberu máli hér á landi.
  11. Voru sjálfstæðismenn einhvern tímann spurðir að því hvort þeir vildu að það yrði stefna Sjálfstæðisflokksins að ráðast að skoðana- og tjáningarfrelsinu? 

Lokaorð

Þegar stjórnmálaflokkur fer ekki eftir grundvallarstefnu sinni þá starfar hann í umboðsleysi. Fólkið sem kaus flokkinn er flokkurinn og það má krefjast þess að þeir sem hyggjast stjórna í umboðsleysi verði settir af. Eins og mál standa nú er einungis tímaspursmál hvenær hinn almenni kjósandi Sjálfstæðisflokksins yfirgefur sinn gamla flokk því núverandi forysta hans virðir hvorki grunngildi eða stefnuskrá hans og þverbrýtur endurtekið stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Varla hefur flokkurinn efni á enn einum klofningnum en kjörfylgi hans hefur aldrei verið lægra.

Félag sjálfstæðismanna um fullveldismál var stofnað af sjálfstæðismönnum sem allir höfðu
lengi starfað með flokknum og gegnt trúnaðarstöðum fyrir hann. Markmið félagsins er að
endurreisa flokkinn, ásýnd hans og hlutverk í íslenskum stjórnmálum og ná aftur fyrri reisn og bæta orðspor hans. Allir þeir sem aðhyllast stefnu og grunngildi flokksins eru hvattir til að ganga í Félag Sjálfstæðismanna um fullveldismál.

Stjórn félags sjálfstæðismanna um fullveldismál

Hægt er að skrá sig í félagið á fullveldisfelag@gmail.com