Hvað kostar Ísland? Loftur skrifar:
Það kann mörgum sjálfstæðismanninum að þykja það skjóta skökku við, að vitna í Ögmund Jónasson f.v. ráðherra sem er gallharður sósíalisti. Ögmundur hefur barist með oddi og egg gegn framsali á fullveldi Íslands til yfirþjóðlegs valds sem samrýmist vel stefnu xD og ályktana landsfunda flokksins en það er ekki hægt að segja með góðri samvisku um þá sjálfstæðismenn sem nú sitja á Alþingi, utan einn þingmann, Ásmund Friðriksson, sem hafnaði innleiðingu 3. orkupakka ESB í íslensk lög. Leitandi er að glæðum fullveldishugsjónarinnar í ræðum eða riti sjálfstæðismanna nema þá helst í skrifum Arnars Þórs Jónssonar, leiðara Mbl. og Staksteinum sama blaðs.
Ögmundur ritar fróðlega grein í Mbl í dag sem hann nefnir:
“Ég hef einfaldan smekk, ég vel aðeins það besta!” en þar segir hann m.a.:
“Ef fer sem horfir að innviðirnir verði settir á markað, allt er það að gerast jafnt og þétt, á okkur þá að þykja gott og eftirsóknarvert að bjóða erlendum fjárfestum að eignast grunnnet fjarskipta, samgöngukerfið, heilbrigðiskerfið, vatnsveitur, sorphirðuna, rafveitur, Landsvirkjun? Og nú stendur til að selja íslensk fjöll til útlanda. Og við sem héldum að þetta væri bara málsháttur, að trúin flytti fjöll. En þetta er þá trúin og um hana er bærileg sátt á Alþingi. Aðeins einn þingmaður greiddi atkvæði gegn endurskoðaðri samvinnuhugsjón Framsóknarflokksins að heimila fjárfestum að næla sér í arð upp úr vösum okkar sem ferðumst um vegakerfi landsins. Að þessu sögðu er eins gott fyrir almenning að byrja að reisa sig og spyrja hvort við virkilega viljum færa fjárfestum eignarhald á öllu því sem við höfum sameiginlega byggt upp og vitað er að verður alltaf að vera til staðar að þjónusta samfélagið. Varla er það eftirsóknarvert markmið að búa svo um hnúta að handhafar fjármagns geti gert sér slíka þjónustu að féþúfu að ógleymdum völdunum sem slíku fylgir eins og við vorum minnt á eftir að Marriott-keðjunni hafði verið svo innilega fagnað í Reykjavík. Almenningur, við öll, þurfum að segja hátt og skýrt að við viljum halda völdunum sem næst okkur, innanlands og á okkar eigin hendi, það s é heillavænlegast og það s é það besta. Er þetta ekki eins einfalt og verða má? Og má ekki taka undir með því sem sagt var í frægri sjónvarpsauglýsingu: „Ég hef einfaldan smekk, ég vel aðeins það besta“?
Og nú stendur til að selja íslensk fjöll til útlanda. Og við sem héldum að þetta væri bara málsháttur, að trúin flytti fjöll.“
Almennt gera Íslendingar sér ekki grein fyrir því, hvað framsal fullveldisins til ESB hefur í för með sér. Ætla menn t.d. í alvöru að skipta upp Landsvirkjun, sameign þjóðarinnar og selja hana hæstbjóðandi og setja raforkuna okkar á uppboðsmarkað ESB í takt við orkupakkana?
Þurfum við sjálfstæðismenn að láta harðlínusósíalista vekja okkur upp til umhugsunar um fullveldið og gildi þess fyrir Ísland og íslensku þjóðina?
Er ekki nóg komið af framsali fullveldisins?