Davíð Gíslason læknir skrifar um heilbrigðiskerfið á dögum kommúnismans
Við lifum á undarlegum tímum. Kóvid hefur umturnað lífi margra okkar og þessi veiruskömm er óvinur þjóðarinnar nr. 1. Þegar ég var ungur læknanemi var sagt að inflúensan væri besti vinur gamla mannsins, því ef hún kæmi í heimsókn tækju allar áhyggjur skjótan enda nema áhyggjur ættingjanna sem þyrftu að sjá um útförina. Þetta viðhorf á nú líklega ekki marga talsmenn lengur. Sagt er að sá sem ekki óttast dauðann óttist ekkert, og það er kosturinn við að verða gamall að þá fækkar ástæðum óttans og margir nálgast þá aftur barndóminn og geta leyft sér að benda á nýju fötin keisarans.
Þökk sé kóvid hefur heilbrigðiskerfið verið mikið í sviðsljósinu undanfarið. Neyðaróp hafa heyrst frá Landspítalanum og sérstaklega frá bráðamóttökunni. Það er eins og eilíf vandamál Landspítalans séu náttúrulögmál, svona eins og aðdráttarsvið jarðar. Fyrir mörgum árum var einn af kennurum mínum spurður frétta af spítalanum. „Þar sést aldrei glaður maður,“ var svarið. Annar kollega taldi einsýnt að spítalinn hefði verið byggður á álagabletti. Þetta er auðvitað hótfyndni, en kannski með einhverju sannleikskorni.
En flest hefur sínar skýringar. Það líður engum vel í allt of þröngum fötum. Eftir að spítalarnir voru sameinaðir hefur rúmum fyrir bráðveika sjúklinga fækkað um nærri 40%, þjóðinni hefur fjölgað um þriðjung og hér iðar samfélagið af útlendingum. Því er spítalanum allt of þröngur stakkur skorinn, sem bitnar kannski harðast á bráðamóttökunni við að finna sjúklingunum pláss.
Það er kvartað yfir skorti á mannafla. Sérnámslæknar hafa ekki beinlínis verið hvattir til að koma heim eftir sérnám. Þeir hafa jafnvel átt í málaferlum við stjórnvöld til að fá að hefja hér störf þótt þörfin fyrir þá sé æpandi.