Kári skrifar:
– Fullveldi –
Sagan geymir mörg dæmi af átökum um landamæri, sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt ríkja. Hægt er að fjalla um þessi mál út frá heimspeki, félagsfræði eða lögfræði eða jafnvel blöndu af þessu þrennu [þverfagleg umfjöllun]. Við stjórnun ríkja virðist tvennt koma til álita: að stjórnun þeirra sé á innlendum forsendum, og þau undir innlendri stjórn, [i] eða að stjórnunin sé á erlendum forsendum og ríkin lúti erlendri stjórn. Þetta má þrengja niður í eina spurningu: hverjir ráða?
Þessi mál hafa bæði „macro-vídd“ [ríki meðal ríkja] og „micro-vídd“ [þegnar ríkja]. Þegar rætt er um sjálfstæði ríkja (macro) er átt við rétt þeirra gagnvart öðrum ríkjum [stöðu í „alþjóðasamfélagi“]. En viðfangsefnið hlýtur einnig að snúast um stöðu þegnanna innan hvers ríkis (micro). Flestir líta svo á að einstaklingar eigi að njóta sjálfstæðis og geta tekið ákvarðanir sem þá sjálfa varða miklu. Það má kalla „einstaklingsbundið fullveldi“.
Fólk getur t.a.m. stundum valið um „trúleysi“ eða að rækta ákveðna trú [trúfrelsi], að leggja deilumál sín fyrir dómstóla, hvar það vill búa [eða flytja til annars ríkis] o.s.frv. Með öðrum orðum, fólk hefur þá, að minnsta kosti að nafninu til, mannréttindi [margir njóta þó engra mannréttinda].
Eðlilegt þykir að fólk beiti þessum réttindum sjálft enda ganga þekktar kenningar [náttúruréttur] í heimspeki út frá því að fólk fæðist með ákveðin réttindi sem ekki verði af því tekin. Greinarhöfundur þekkir engin dæmi þess að fólk vilji framselja mannréttindi sín til annarra og fela þeim, fyrir sína hönd, að ákveða trúarafstöðu, búsetu eða hvað annað. Flestir vilja ráða sínum málum sjálfir. En þegar kemur að ríkjum og stjórnun þeirra er hins vegar allt annað uppi á teningnum. Þá vilja sumir afsala sér innlendu valdi og fela erlendum stjórnvöldum, t.d. innan Evrópusambandsins, að stjórna eigin málum. Í því felst vissulega ákveðin þversögn.
Fullveldi ríkja og einstaklinga tvinnast saman. Ákvarðanir sem t.a.m. eru teknar innan Evrópusambandsins hafa síðan víðtæk áhrif á borgara ríkjanna sem í hlut eiga og kunna jafnvel að ógna mannréttindum borgaranna. Þar má t.d. nefna takmarkanir á tjáningarfrelsi [ritskoðun] og hvernig sífellt er reynt að stimpla skoðanir þeirra sem ekki fylgja valdinu sem „hatursorðræðu“ og „upplýsingaóreiðu“. Raunverulega óreiðan er hins vegar af völdum fólksins sem þannig talar. Dæmi um það er að miklu leyti sjálfsköpuð orkukreppa í Evrópu. Þar er mikil óreiða, mynduð af „óreiðufólki“ innan Evrópusambandsins [sérstaklega í framkvæmdastjórninni]. Rökrétt framhald af tali „óreiðufólksins“ um „hatursorðræðu“ væri að stofna sérstakan dómstól um „réttar“ og „rangar“ skoðanir sem áður yrðu útfærðar í reglugerðum og tilskipunum. Slíkur dómstóll yrði banabiti lýðræðisins sem þó er orðið mjög laskað fyrir. Tjáningarfrelsi, án ritskoðunar, er meginforsenda lýðræðis.