Vegna umræðu um bókun 35, sem virðist stefna í að lögfest verði, með lagafrumvarpi utanríkisráðherra sk. “sjálfstæðisflokks”, vísast hér með til orða Jóns forseta frá árinu 1845:
„Eitt af því, sem hefir aukið frægð hina fornu íslendinga fram eftir öldum, er sú þekking á lögum og landstjórn, sem hefir verið þar almenn frá alda öðli í fornöld. Þessu lýsa Íslands fornu lög og dómar lengi frameftir, með lög og lof voru í höndum landsmanna sjálfra. Útlendir ferðamenn, sem voru á Íslandi meðan Jónsbók var í fullu gildi, hafa getið þess, til dæmis um almenna lagamenntun meðal alþýðu á landi voru, að hver lögréttumaður gekk með lögbók sína undir hendi sér til lögréttu, og sýndi þar með, að hann hafði bæði þekking á lögum lands síns, og líka greind á að þýða þau þegar til þurfti að taka. Þetta sýnir einnig hinn mikli fjöldi af afskriftum lögbóka, eins og þau hin miklu söfn af dómabókum, og ýmsar ritgjörðir um lagaþýðingar, sem hafa verið til, og eru enn til í handritum eftir ýmsa lögfróða menn, jafnvel af bændastétt, frá hinum fyrri tímum.
Eftir að hin dönsku lög fóru að komast inn, og ryðja hinum íslensku úr sæti, dróst lagamenntunin smásaman úr höndum bænda, og varð eiginleg eign lagamannanna. En allir þeir hinir helstu af lagamönnum vorum hafa þó fundið, hversu mikils var í misst, þegar lagaþekkingin ekki hafði rót meðal alþýðu manna, að hún varð þar með köld og dauð, svo að sjálf lögin urðu þar fyrir stirð, ógeðfelld og ávaxtarlaus. Þeir hafa þess vegna allir leitast við eftir megni, að rita fræðibækur til leiðbeiningar í þessum efnum. Eigi að síður hefir þessi viðleitni ekki getað borið fullkominn ávöxt, bæði af því, að fræðibækur þessar hafa ekki verið nógu yfirgripsmiklar, og af því, að blendingur danskra og íslenskra laga hefur stundum verið svo mikill, að sjálfir hinir lögfróðustu menn hafa verið í vafa um, eða eru jafnvel enn, hver lög væru í gildi á Íslandi.“