Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl
Nái ég kjöri á Alþingi mun ég að sjálfsögðu láta af dómarastörfum á meðan ég gegni þingmennsku.
Þegar allt er á fleygiferð, þegar pólitískrar og félagslegrar upplausnar gætir, þegar aðstæður eru ófyrirsjáanlegar, þá blasir við mikilvægi þess að menn hafi föst mið og óhagganleg gildi sem reynst hafa vel. Stjórnarskrá, lögum og stjórnmálum er ætlað að standa vörð um slík gildi. Við stöndum nú frammi fyrir því að síðastnefndir öryggisventlar eru vanræktir. Gengið er frjálslega um ákvæði stjórnarskrárinnar, lýðræðisrót íslenskra laga trosnar frá ári til árs og stjórnmálamenn ganga sífellt lengra í að framselja vald sitt. Samhliða þessari þróun birtist ný sviðsmynd við sjóndeildarhringinn, þar sem ýmiss konar samtök og hagsmunahópar takast á um völd og áhrif. Hér vísa ég til hópa sem byggðir eru á hagsmunum og sameiginlegri sjálfsmynd þeirra sem samsama sig með hópnum. Þessi þróun er stærsta ógnin við lýðræðið og verður enn ókræsilegri þegar baráttan um völdin færist út fyrir landsteinana og risahagsmunir taka sér völd yfir þjóðríkinu. Í öllu þessu leynist þversögn sem erfitt er að útskýra: að innanlandsófriður verður herskárri á sama tíma og áhrif innlendra stjórnvalda og stjórnmálamanna verða minni.
Með því að færa borgurunum þau skilaboð að þau tilheyri þessum eða hinum hagsmunahópnum og verði að samræma hugsanir sínar hagsmunum hópsins, er einstaklingurinn gerður að óvirkum áhorfanda í hinu pólitíska og lýðræðislega ferli. Í stað rökræðu milli einstaklinga umbreytast stjórnmálin í baráttu mismunandi hagsmunahópa, þar sem einstaklingurinn er í algjöru aukahlutverki, ef nokkru. Þrýstihópavæðingin er andstæð lýðræðinu, enda er hún drifin áfram af undirliggjandi andúð á lýðræðinu sem óskilvirku stjórnkerfi. Í raun mætti segja að hagsmunahópar hafi nú yfirtekið stjórnmálin í heild. Þessir hópar klæða málflutning sinn í búning hlutlausrar greiningar og nota fjármuni sína og aðgengi að ráðamönnum til þess að keyra hagsmunamál sín í gegnum þær stofnanir sem lögum samkvæmt er ætlað að vera „hliðverðir“ samfélagsins. Þegar svo er komið ber enginn í raun ábyrgð lengur. Hlutverk einstaklinganna er þá aðeins að vinna í þágu hagsmunahópsins (á grunni hjarðhugsunar) og framfylgja skipunum. Í slíku umhverfi þarf ekki að koma á óvart að einstaklingarnir fari að líta á sig sem fórnarlömb eða kjósi að víkja sér undan ábyrgð með því að segjast ekki mega tjá sig, jafnvel ekki um brýnustu mál, stöðu sinnar vegna. Frammi fyrir þessu verða menn að snúa til baka og rækta grunninn ef lýðræðið á ekki að leysast upp í sjónhverfingar. Stjórnskipuninni er ætlað að standa gegn því að lýðræðið afbakist á framangreindan hátt. Okkur ber því að vinna gegn því að þrýstihópar og hagsmunasamtök komist í þá stöðu að geta kramið aðra undir skóhæl sínum og svipt þá borgaralegum réttindum, þ.m.t. tjáningarfrelsi.
Samkvæmt framansögðu er það réttur okkar og skylda, sem frjálsra einstaklinga, að taka ábyrgð á framtíð okkar og verja lýðræðislega stjórnarhætti. Tjáningarfrelsi og öll önnur mannréttindi byggja á þessum grunni. Þannig má segja að vestræn stjórnskipun standi og falli með því að frelsi borgaranna sé virt. Ofríki stendur hins vegar gegn frelsi mannsins, á móti sjálfstæðri hugsun. Slíkt stjórnarfar viðurkennir ekki sjálfsforræði einstaklingsins, vanvirðir samvisku borgaranna og gengur á þeim grunni út frá því að stjórna megi mönnum eins og skynlausum skepnum, svipta þá frelsi, neita þeim um réttindi og mismuna á grundvelli útlits, stéttar eða stöðu. Lýðræðisleg stjórnskipun ver frelsi manna, sbr. stjórnarskrárákvæði um trúfrelsi, tjáningarfrelsi, skoðanafrelsi, atvinnufrelsi, félagafrelsi o.fl. Harðstjórn og ofríki snýst á hinn bóginn ekki um frelsi heldur um vald yfir öðrum, t.d. með tjáningarbanni, fundabanni, skoðanabanni o.fl.
Við þessu þarf að bregðast með því að vekja fólk til meðvitundar um ábyrgð sína og skyldur gagnvart lýðræðinu, gagnvart jafnvæginu sem fyrr var nefnt. Þessari ábyrgð sinnum við með því að taka þátt í lýðræðislegu samtali, hirða um stoðir lýðræðisins, láta til okkar taka í félagsstarfi, bjóða fram krafta okkar, kjósa, nota sjálfstæða hugsun okkar og láta ekki berast með straumnum. Ég leyfi mér að birta þessar línur til að minna á að við berum ekki fyrst og fremst skyldur gagnvart „hagsmunahópnum okkar“, heldur gagnvart samfélaginu öllu. Á þeim grunni ákvað ég að bjóða mig fram til setu á löggjafarþingi Íslendinga. Þetta er borgaralegur réttur minn, sem ég afsalaði mér ekki með því að taka við dómarastarfi. Nái ég kjöri á þing mun ég að sjálfsögðu láta af dómarastörfum á meðan ég gegni þingmennsku. Það ber vott um dómgreindarleysi af hálfu Fréttablaðsins og annarra að láta sér detta í hug að menn ætli sér að fara með löggjafar- og dómsvald á sama tíma. Ýmsir embættismenn hafa í gegnum tíðina sest tímabundið á þing án þess að búið hafi verið til nokkurt fjaðrafok um það
Höfundur skipar 5. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.