Sjálfstæðisflokkurinn má ekki jaðarsetja sín eigin grunngildi.

Arnar Þór Jónsson skrifar:

Ágætu félagsmenn.

Félag Sjálfstæðismanna um fullveldismál (FSF) er stofnað til að standa vörð um þau gildi sem Sjálfstæðisflokkurinn er reistur á. Nafn flokksins og uppruni er til áminningar um nauðsyn þess að samfélag okkar hafi lýðræðislega stjórn á örlögum sínum. Um of langt skeið hefur þessi lýðræðisþráður trosnað undan ágangi yfirþjóðlegs valds, sérfræðingastjórnar og tækniveldis. Myndbirtingin er m.a. sú að vald hefur í of miklum mæli verið afhent fólki sem Íslendingar hafa ekki kosið. Slík þróun ber með sér háska, því sagan sýnir að valdhafar þurfa að svara til ábyrgðar gagnvart borgurunum ef ekki á illa að fara. Ríkisvæðing stjórnmálaflokkanna hefur aukið á þennan vanda.

Á síðari árum hefur verið þrengt mjög að frelsinu, bæði hérlendis og erlendis. Smám saman eru völdin að færast frá fólkinu sjálfu (og kjörnum fulltrúum þeirra) til sérfræðinga, tæknimanna, erlendra stofnana o.fl. Valdboðsstjórn er að leysa lýðræðið af hólmi. Tækniveldi er að verða til á meðan lýðveldið hverfur í skuggann. Í stað pólitískrar rökræðu og stefnumótunar á þeim grunni gefa menn út fyrirskipanir og auka eftirlit með þeim afleiðingum að borgaralegt frelsi eyðist smám saman. Valdboðsstjórn býður heim hættu á harðstjórn þeirra sem fara með mikil völd og peninga. Í stað þess að áhersla sé lögð á að halda valdinu í skefjum má nú víða sjá merki þess að valdhafar freisti þess að halda almenningi í skefjum.

FSF er vettvangur lýðræðislegrar umræðu þar sem rætt er um leiðir til að sporna við valdboði, skrifræði og stjórnlyndi. Það gerum við í anda klassísks frjálslyndis og á grunni þeirra gilda sem reynst hafa best. Ef Íslendingar standa ekki vörð um eigin hagsmuni gerir það enginn. Sú hagsmunagæsla verður að byggjast upp innan frá, á grunni klassískrar menntunar og gagnrýninnar hugsunar. Í þessum tilgangi ber okkur að hjálpa samborgurum okkar til að finna tilgang sinn og hlutverk, þannig að við getum verið þátttakendur í frjálsu samfélagi en ekki valdlausir áhorfendur. Fámennisstjórn og fyrirskipanir eru eitur í beinum sannra Sjálfstæðismanna.

Til að flokkurinn geti verið sú breiðfylking sem honum er ætlað að vera þarf hinn almenni flokksmaður að hafa rödd og áhrif. Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki rísa undir þeirri ábyrgð sem á honum hvílir fyrr en hann slítur sig úr kæfandi faðmlagi við flokka sem stefna í aðra átt. Tími er kominn til þess að Sjálfstæðisflokkurinn marki sér stöðu þar sem honum er ætlað að standa, þ.e. að verja einstaklingsfrelsið gagnvart hvers kyns valdaásælni, verja fullveldi þjóðarinnar, mannlíf og atvinnulíf með því að tryggja valddreifingu, tjáningarfrelsi og sjálfstæði fjölmiðla. Við eigum ekki að sætta okkur við að alþjóðlegar stofnanir grípi um stjórnartaumana hér á landi. Æðsta vald í málefnum Íslands á að vera í höndum kjörinna fulltrúa Íslendinga. Ákvarðanir um málefni íslensku þjóðarinnar á ekki að taka í fjarlægum borgum. Stöðva þarf stjórnlausa útþenslu ríkisins, ríkisvalds og ríkisstofnana, fækka opinberum störfum og draga úr skattheimtu. Verja á hagsmuni skattgreiðenda með því að krefjast ráðdeildar í ríkisrekstri og strangs aðhalds við ráðstöfun fjármuna úr ríkissjóði.

Ég hvet alla sem vilja leggja okkur lið í þessari baráttu að gerast virkir meðlimir í FSF og vinna þar með okkur að framgangi Sjálfstæðisstefnunnar.

Með góðri kveðju,

Arnar Þór Jónsson, formaður FSF.

Þjóðhátíð 2022

Kæru landsmenn.

Fjallkona Íslands

Á þjóðhátíðardaginn er vert að minnast þess sem við Íslendingar eigum sameiginlegt. Þjóðhátíðardagurinn er sameiginlegur hátíðisdagur. Hann gefur okkur mikilvægt tækifæri til að gleðjast og fagna. Á þessum degi komum við saman og gleðjumst hvert með öðru. Haldnar eru ræður, flutt ljóð, leikið, dansað og sungið. Fjallkonan er þar í lykilhlutverki. Fólk og félög leggja sitt af mörkum til gleðja og gera daginn eftirminnilegan. Í orði og verki gefum við hvert öðru hlut af hjarta okkar og tíma.

Fjallkonan er táknmynd Íslands, landsins sem fóstrar okkur, nærir og verndar. Fjallkonan táknar líka móður jörð, móðurástina sem öllum er lífsnauðsynleg. Ísland (Ísafold) er móðir okkar allra, griðastaður okkar, sem okkur ber virða, hlúa að og verja. Við erum þannig í reynd börn þessa lands. Það sem móðir þráir heitast er að börn hennar sýni hvert öðru virðingu og vináttu, þroskist og blómstri á fallegan hátt. Ágreiningur getur verið hluti af þroskaferli manns og þjóðar, en takmarkið er að við náum að búa í sátt og samlyndi, vinnum saman að sameiginlegum markmiðum og gildum.

Við getum notað þennan þjóðhátíðardag til að hugsa um þennan fagra þráð milli lands og þjóðar og hvað við sem einstaklingar, í okkar eigin mætti, getum gert til þess að bæta samfélagið á einhvern máta. Það gerum við með því að líta inn á við, finna styrkleika okkar, tengjast hjörtum annarra og spinna saman litríkan og traustan þjóðarþráð til framtíðar. Saman myndum við sterka heild og gott samfélag.

Gleðilega þjóðhátíð.

Hvað boðar nýárs blessuð sól?

Nýjárskveðja frá FUS- Félagi sjálfstæðismanna um fulleldismál


Kæru vinir við óskum ykkur gleðilegs árs og þakka liðin.

Fáa hefði órað fyrir því í ársbyrjun 2021, að við mundum glíma við Covid-19 veiruna út árið með sama hætti og árið á undan. Á tímum samkomutakmarkana auk annarra sóttvarnarráðstafana er erfitt að halda úti eðlilegu félagsstarfi. Það hefur svo sannarlega bitnað á okkur í Fullveldisfélaginu. Fundi og ráðstefnur hafa verið undirbúin, en urðu að engu. Sú vinna er þó ekki unnin fyrir gíg hugmyndirnar og tillögurnar bíða þess eins að unnt verði að hrinda þeim í framkvæmd.

Fullveldisfélagið hefur þó unnið ákveðna áfangasigra. Félagið hefur fengið fulla viðurkenningu innan raða Sjálfstæðisflokksins og fleiri og fleiri úr forustuliði flokksins koma fram og samsama sig með þeim sjónarmiðum og gildum, sem við höldum fram og berjumst fyrir. Án Fullveldisfélagsins er hætt við að stefna Sjálfstæðisflokksins hefði í nokkrum málum orðið önnur en raunin varð.

Margir hafa agnúast út í félag fullveldissinna og fundið því margvíslegt til foráttu. Í sjálfu sér er það eðlilegt. Við berjumst fyrir ákveðnum sjónarmiðum m.a. því grundvallarmarkmiði, að ætíð sé gætt að fullveldi þjóðarinnar í samskiptum við erlendar þjóðir og fjölþjóðasamtök.

Nú þegar veiran geisar sem aldrei fyrr í landinu kann ýmsum að finnast það bjartsýni, að telja, að fljótlega á nýja árinu megi búast við því, að við verðum komin úr heljartökum veirunnar og eðlilegt mannlíf og persónufrelsi ráði ríkjum á nýjan leik. En þannig verður það vonandi.

Við höfum þá mikið verk að vinna. Við verðum að gæta að því að ekki verði gefið eftir sérstaklega í sambandi við samstarf okkar innan EES, þar sem að Evrópusambandið seilist stöðugt til meiri áhrifa bæði í aðildarríkjum sínum, en einnig í EES ríkjunum. Íslenskir stjórnmálamenn og baráttufólk í pólitík eins og við verðum því að vera stöðugt á varðbergi og svo kann að vera, að bæði okkur og Norðmönnum henti betur önnur umgjörð utan um samstarf okkar við Evrópusambandið en EES samningurinn.

Við gerðumst aðilar að EES til að geta átt góð viðskipti við Evrópusambandsríkin og létt yrði af hömlum og ýmsum takmörkunum, sem hafa verið milli landanna. En við vorum ekki að gefa frá okkur lagasetningarvald eða rétt til að hafa aðrar skoðanir og sjónarmið en Evrópusambandið. Við verðum því að gæta okkar og gera kröfur til þess, að hvorki í EES samstarfinu né öðru ríkjasamstarfi verði íslensk þjóð og frelsi hennar öðrum þjóðum háð.

Ágætu félagar við óskum ykkur og fjölskyldum ykkar góðs og heillaríks komandi árs

Baráttukveðjur

Stjórn FSF – Fullveldisfélags Sjálfstæðismanna