Flugvallarmartröð meirihlutans í Reykjavík

Hvað nær forheimskan langt út fyrir Hvassahraun og hvað kostar hún skattborgarana?

Leiðari Morgunblaðsins fjallar í dag um þráhyggju andstæðinga Reykjavíkurflugvallar og spyr: „Ef þrjú eldgos duga ekki til að fólk skipti um skoðun, hvað þarf þá til?“

Leiðarinn er hér birtur í heild sinni:

„Hugmyndin um flugvöll í Hvassahrauni var fjarstæðukennd alveg frá því að hún kom fyrst fram. Ástæðan fyrir þeirri sérkennilegu hugmynd var ákafi þeirra sem vilja ýta flugvellinum úr Vatnsmýrinni, hvað sem það kostar. Hvassahraun og aðrar furðuhugmyndir voru liðir í því að réttlæta að þrengt yrði að flugvellinum þar sem hann er til að smám saman yrði hann varla nothæfur lengur og þá mætti taka lokaskrefið og ryðja honum burt.

Með íbúabyggð nærri flugvellinum hefur þetta markmið nálgast og gerir það enn frekar fái meirihlutinn í borginni að framkvæma áform sín um margföldun byggðar í Skerjafirði. Reykjavíkurborg á nægt landrými annars staðar og hefur enga ástæðu til að halda áfram að þrengja að flugvellinum. Furðulegt er að fylgjast með stjórnmálamönnum sem segjast vera fylgjandi innanlandsflugi, þar með talið sjúkrafluginu, en láta þessa þróun halda áfram í stað þess að taka skýra afstöðu gegn því sem augljóslega er að eiga sér stað þó að forsprakkar flugvallarandstæðinganna neiti því.

Flugvallarandstæðingar tala enn sem þeir vinni samkvæmt samkomulagi um að Reykjavíkurflugvöllur verði í fullri virkni þar til og ef að annað jafn gott flugvallarstæði býðst. Allir vita að þetta eru ósannindi. Eitt af því sem notað er til að tefja mál og veita meirihlutanum í borginni svigrúm til að halda áfram með fyrirhugaða byggð ofan í flugvellinum í Skerjafirði er að halda áfram rannsókn á því hvort að Hvassahraun henti fyrir innanlandsflugvöll. Minnihluti sjálfstæðismanna í borgarstjórn bókaði fyrir nokkru um að slíkar hugmyndir væru óraunhæfar í ljósi eldgosahættu og jarðhræringa á svæðinu og í gær ritaði Kjartan Magnússon borgarfulltrúi grein um málið. Í greininni benti Kjartan á hið augljósa, að eftir að þriðja eldgosið á jafn mörgum árum væri hafið á Reykjanesskaga væri nýtt gostímabil hafið. Hann benti líka á að þróunin hefði orðið sú að gosvirknin hefði verið að færast nær Hvassahrauni. „Hugmyndir um flugvöll í Hvassahrauni eru óraunhæfar vegna jarðhræringa og eldgosahættu eins og jarðvísindamenn hafa reyndar bent á árum saman.

Afar heimskulegt væri að leggja flugvöll svo nálægt virku eldsumbrotasvæði. Þótt ekki gysi á sjálfum flugvellinum gætu eldsumbrot í næsta nágrenni haft margvísleg neikvæð áhrif á starfsemi hans. Til dæmis vegna gasmengunar, reykjarkófs og öskufalls. Atvinnuflugmenn hafa einnig um langa hríð varað við hugmyndum um flugvöll í Hvassahrauni vegna lélegra aðflugsskilyrða og sviptivinda,“ skrifar Kjartan. Og hann heldur áfram: „Óverjandi er að halda áfram að sóa hundruðum milljóna króna til frekari rannsókna vegna flugvallar í Hvassahrauni. Hætta á fjáraustri í slíkt gæluverkefni, sem virðist hafa þann tilgang helstan að friða flugvallarandstæðinga í Reykjavík.“

Vitaskuld á að halda áfram að rannsaka jarðhræringarnar og eldvirknina á Reykjanesskaga í nágrenni Keilis, Hvassahrauns og Litla-Hrúts. Það gefur auga leið og verður gert, en það þarf engar rannsóknir til að finna út að það er hrein fjarstæða að til greina komi að ráðast í gerð nýs flugvallar í Hvassahrauni. Eftir þrjú ár af gosum í nágrenni Hvassahrauns er tímabært að stjórnvöld, bæði á landsvísu og í höfuðborginni, viðurkenni staðreyndir og hætti að sóa fé og tíma í að meta flugvallarstæði í Hvassahrauni. Þess í stað þurfa þau að huga að framtíð Reykjavíkurflugvallar þar sem hann er og verður augljóslega næstu áratugina hið minnsta. Þar verður að tryggja flugvellinum það svigrúm sem slíkri starfsemi er nauðsynleg og hætta alfarið að þrengja að honum. Stjórnvöldum, bæði í borginni og á landsvísu, ber að tryggja öruggt innanlandsflug, sjúkraflug og björgunarflug og þegar augljóst er orðið að það verður hvergi gert nema þar sem það er nú, verður að tryggja þá starfsemi eftir bestu getu.“