Vel heppnuð sögufölsun
Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl
Hinum svonefndu menningarþjóðum Evrópu tókst ótrúlega vel að búa til fallega sögu um framferði þeirra víða um heim fyrr á tíð þegar þær voru að koma sér upp því sem kallað var nýlendur. Samkvæmt þeirra frásögn voru þær að brjóta siðmenningunni leið inn í fátæk lönd, sem höfðu ekki komizt í tæri við hana fyrr. Og með þeim rökum var því haldið fram að nýlendutíminn væri glæstasti þáttur í sögu þeirra. Þessi sögutúlkun er enn við lýði þótt reglulega skjóti upp kollinum fréttir sem benda til þess að sú söguskoðun sé á undanhaldi. Raunveruleikinn er sá að hinar evrópsku menningarþjóðir fóru ránshendi um heiminn í krafti vopnavalds og urðu ríkar á því að hagnýta sér auðlindir annarra þjóða. Fiskveiðar Breta undir herskipavernd við Ísland eru glöggt dæmi um það. Fyrrverandi nýlendum Evrópuríkjanna er þetta vel ljóst. Sennilega er framferði Belga í Kongó ljótasta dæmið um þetta. Belgískum hermönnum var gert að koma með líkamshluta af drepnum fórnarlömbum til að sanna að þeir hefðu sinnt skyldum sínum. Belgar eru að byrja að átta sig. Þeir eru farnir að breyta nöfnum á byggingum, götum og torgum sem höfðu verið nefnd eftir hetjum fyrri tíðar.
Eitt af því sem þessar miklu menningarþjóðir gerðu var að stela menningarverðmætum annarra þjóða sem í vaxandi mæli gera kröfu um að þeim stolnu munum verði skilað. En jafnvel í dag er því neitað, þótt öllum sé ljóst að hér var um þjófnað að ræða. Stöku sinnum berast fréttir um viðbrögð fórnarlambanna. Fyrir nokkrum áratugum birtist á forsíðu Morgunblaðsins lítil frétt þar sem sagt var frá athyglisverðum ummælum formanns utanríkismálanefndar indverska þingsins. Hann kallaði Winston Churchill stríðsglæpamann. Það er önnur lýsing á Churchill en við þekkjum en segir einhverja sögu um hvernig hann kemur Indverjum fyrir sjónir vegna þeirra samskipta við Breta.
Fyrir nokkrum árum var Macron forseti Frakklands á ferð í Afríku og velti fyrir sér á blaðamannafundi hvernig Evrópuríkin gætu bezt hjálpað Afríku. Svarið kom á sama blaðamannafundi frá forseta Gana. Látið okkur í friði. Franska forsetanum varð svarafátt. Merkilega lýsingu á framferði nýlenduherranna er að finna í lítilli bók sem heitir Dagar í Búrma, á ensku Burmese days, eftir George Orwell, sem starfaði sem lögreglumaður í Búrma áður en hann varð þekktur rithöfundur. Sú bók segir mikla sögu um brezku nýlenduherrana, í hvítum jakkafötum með innlenda þjóna sér við hlið. Nú er háttsemi fulltrúa Vesturlandaþjóða, sem eru á ferð í nafni þróunaraðstoðar, sú sama, en þeir eru að vísu mjög önnum kafnir á golfvöllum. Loks má nefna afrek Evrópuþjóðanna í Mið-Austurlöndum en þær bera mesta ábyrgð á ástandinu þar. Mörg ríkjanna sem mestar deilur eru um þar voru búin til á stjórnarskrifstofum í London og París. Það er kominn tími til að hætta lygunum og segja þessa sögu eins og hún er. Og það eiga afkomendur nýlenduherranna að gera sjálfir og gera þar með upp eigin sögu. Í þeim efnum geta þeir margt af Þjóðverjum lært. Og jafnframt eiga Evrópuþjóðir að huga alvarlega að því að fara að ráðum forseta Gana og láta þjóðir Afríku í friði. Þetta er nauðsynleg forsenda þess að friður skapist í þeirra eigin ranni.
Saga afskipta Breta af Írlandi er svo ljót að á milli þeirra verður aldrei til eðlilegt samband fyrr en Bretar gangast við eigin verkum. Raunar eru allar líkur á því að brezka konungsveldið sé að liðast í sundur. Vaxandi stuðningur er við sameiningu Írlands á Norður-Írlandi og stuðningur við sjálfstæði Skotlands er sterkur. Raunar þarf ekki að leita langt til að finna dæmi um erfið samskipti Norðurlandaþjóðanna, sem nú er þagað vandlega um. Í stríðinu ráku Svíar til baka yfir landamærin Norðmenn sem voru á flótta undan nazistum. Og svipuð dæmi eru til úr kalda stríðinu þegar Svíar ráku til baka flóttamenn frá Eystrasaltsríkjunum. Þögnin leysir ekki erfið deilumál á milli Evrópuríkja.
Og það er erfitt að sjá að Evrópa gæti komið sér saman um sameiginlega sögu, sem þó væri mikilvægt í tilraunum þessara ríkja til að koma á varanlegum friði sín í milli. Málflutningur þeirra sem vilja aðild Íslands að ESB byggist að verulegu leyti á þeirri glansmynd af Evrópu sem dregin hefur verið upp á okkar tímum en er ekki annað en glansmynd. Sá fantaskapur – svo vægt sé til orða tekið – sem einkenndi samskipti þessara ríkja fyrr á tíð og framkomu þeirra við önnur ríki birtist aftur fyrir nokkrum árum gagnvart Grikkjum sem hafa engu gleymt. Það væri mikilvægt að þjóðin sýndi það með afgerandi hætti í kosningunum í haust að hún kann ekki að meta þann boðskap. Jafnframt er tímabært að við sýnum innan EES að við þorum að nýta ákvæði þess samnings til að segja nei, ef svo ber undir. Hingað til hafa embættismenn og kjarklitlir stjórnmálamenn ráðið því að það nei hefur ekki verið sagt. Slíkt nei mundi kannski veita okkur kraft til að segja hingað og ekki lengra í innanlandsmálum, sem hafa reynzt okkur ótrúlega erfið úrlausnar.
Höfundur er f.v. ritstjóri