Atlagan að stöðu Guðlaugs Þórs sem helsta forustumanns Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík geigaði. Hann fékk flest atkvæði í prófkjörinu og er því enn ótvíræður foringi Sjálfstæðisfólks í Reykjavík og full ástæða til að óska honum og Flokknum til hamingju með það.
Sterk staða nýliðans Diljá Mist Einarsdóttur,vekur athygli,en hún vann 3. sætið með glæsibrag og er glæsilegur fulltrúi venjulegs ungs fólks innan Sjálfstæðisflokksins. Diljá hefur getið sér góðs orðs hvarvetna sem hún hefur starfað og mikils af henni að vænta í framtíðinni.
Þingmennirnir Brynjar Níelsson og Birgir Ármannsson héldu sjó og Kjartan Magnússon og Friðjón Friðjónsson mega vel við sinn hlut una.
Nokkur atriði eru umhugsunarverð fyrir Sjálfstæðisfólk að loknu þessu prófkjöri og að fengnum þessum úrslitum.
Í fyrsta lagi er Sigríði Andersen fyrrum dómsmálaráðherra hafnað. Það er alvarlegt mál. Ekki síst fyrir það, að Sigríður er ötulasti málsvari borgaralegs frelsis innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Það er alvarlegt mál þegar Sjálfstæðisfólk refsar ötulasta málsvara grundvallarsjónarmiða sjálfstæðisstefnunnar, vegna þess ótta, sem byggður hefur verið upp til réttlætingar hömlum og ófrelsi.
Í öðru lagi voru það afgerandi mistök að hafna Ingibjörgu Sverrisdóttur formanni félags eldri borgara í Reykjavík, helsta málsvara félagslegs réttlætis fyrir aldraða og verkafólk í þessu prófkjöri.
Í prófkjörinu sannaðist enn sem fyrr máttur peningana og auglýsinga í pólitískri baráttu og sýnir venjulegu fólki, hvað þarf til að ná árangri í prófkjörsbaráttu innan Sjálfstæðisflokksins. Milljónir á milljónir ofan þurfa til að koma. Þannig á það ekki að vera og má ekki vera og knýr á um að leita annarra leiða við val á frambjóðendum Flokksins í framtíðinni.
Þátttakan í prófkjörinu var góð miðað við það sem verið hefur undanfarin ár, en er léleg miðað við t.d. prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi þar sem um 5000 manns kusu í helmingi fámennara kjördæmi en í Reykjavíkurkjördæmunum. Þá er þessi þátttaka svipur hjá sjón miðað við það sem áður var þegar gott betur en 10 þúsund manns mættu til að kjósa í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Jón Magnússon er hæstaréttarlögmaður í Reykjavík