Þjóðhátíð 2022

Kæru landsmenn.

Fjallkona Íslands

Á þjóðhátíðardaginn er vert að minnast þess sem við Íslendingar eigum sameiginlegt. Þjóðhátíðardagurinn er sameiginlegur hátíðisdagur. Hann gefur okkur mikilvægt tækifæri til að gleðjast og fagna. Á þessum degi komum við saman og gleðjumst hvert með öðru. Haldnar eru ræður, flutt ljóð, leikið, dansað og sungið. Fjallkonan er þar í lykilhlutverki. Fólk og félög leggja sitt af mörkum til gleðja og gera daginn eftirminnilegan. Í orði og verki gefum við hvert öðru hlut af hjarta okkar og tíma.

Fjallkonan er táknmynd Íslands, landsins sem fóstrar okkur, nærir og verndar. Fjallkonan táknar líka móður jörð, móðurástina sem öllum er lífsnauðsynleg. Ísland (Ísafold) er móðir okkar allra, griðastaður okkar, sem okkur ber virða, hlúa að og verja. Við erum þannig í reynd börn þessa lands. Það sem móðir þráir heitast er að börn hennar sýni hvert öðru virðingu og vináttu, þroskist og blómstri á fallegan hátt. Ágreiningur getur verið hluti af þroskaferli manns og þjóðar, en takmarkið er að við náum að búa í sátt og samlyndi, vinnum saman að sameiginlegum markmiðum og gildum.

Við getum notað þennan þjóðhátíðardag til að hugsa um þennan fagra þráð milli lands og þjóðar og hvað við sem einstaklingar, í okkar eigin mætti, getum gert til þess að bæta samfélagið á einhvern máta. Það gerum við með því að líta inn á við, finna styrkleika okkar, tengjast hjörtum annarra og spinna saman litríkan og traustan þjóðarþráð til framtíðar. Saman myndum við sterka heild og gott samfélag.

Gleðilega þjóðhátíð.

Sjálfstæð fullvalda þjóð

Jón Magnússon skrifar í tilefni Fullveldisdagsins 1. desember 2021

Sjálfstæði og fullveldi Íslands og íslensku þjóðarinnar er ekki sjálfsagt eða sjálfgefið og hefur aldrei verið það. Okkur sem erum fædd eftir stofnun lýðveldis á Íslandi 17.júní 1944 hættir til að telja að stjórnskipuleg réttindi, fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar séu sjálfsagður hlutur. Því miður er ekki svo farið og smáþjóð verður stöðugt að vera á varðbergi til að verja réttindi sín menningu og eiginleika.

Jón Magnússon

Ísland naut skammvinns sjálfstæðis frá því að land byggðist þangað til höfðingjar landsins vegna eigin sundrungar og skammsýni neyddust til að játa Hákoni gamla Hákonarsyni Noregskonungi hollustu sína og ganga honum á hönd með samþykki hins svokallaða „Gamla sáttmála“ árið 1262.

Frá þeim tíma til 1.desember 1918 lutum við erlendu valdi. Fyrst valdi Noregskonunga og síðar Danakonunga eftir að Noregur tapaði sjálfstæði sínu og Danir tóku þar völdin. 

En sjálfstæðisviljinn var alltaf til staða með íslensku þjóðinni. Íslendingar litu jafnan á sig sem sérstaka þjóð með sína sérstöku menningu og tungumál. Áshildarmýrarsamþykktin 1496 er dæmi um það að bændur á Suðurlandi töldu að þeir ættu ákveðin réttindi, sem þeir gætu krafist af konungi að fá að njóta, sem sjálfstæðir menn. Sömu viðhorf var ekki að finna í Evrópu á þeim tíma og er Áshildarmýrarsamþykktin einstök og mjög merkileg í sögu og viðleitni þjóðarinnar til að tryggja sjálfsákvörðunarrétt sinn.

Sjálfstæðisbarátta þjóðarinnar birtist með ýmsum hætti í áranna rás. Íslendingar vildu ekki játast undir einveldi Danakonungs árið 1662 en gerðu það nauðugir.

Lesa meira