Sjálfstæðisflokkurinn má ekki jaðarsetja sín eigin grunngildi.

Arnar Þór Jónsson skrifar:

Ágætu félagsmenn.

Félag Sjálfstæðismanna um fullveldismál (FSF) er stofnað til að standa vörð um þau gildi sem Sjálfstæðisflokkurinn er reistur á. Nafn flokksins og uppruni er til áminningar um nauðsyn þess að samfélag okkar hafi lýðræðislega stjórn á örlögum sínum. Um of langt skeið hefur þessi lýðræðisþráður trosnað undan ágangi yfirþjóðlegs valds, sérfræðingastjórnar og tækniveldis. Myndbirtingin er m.a. sú að vald hefur í of miklum mæli verið afhent fólki sem Íslendingar hafa ekki kosið. Slík þróun ber með sér háska, því sagan sýnir að valdhafar þurfa að svara til ábyrgðar gagnvart borgurunum ef ekki á illa að fara. Ríkisvæðing stjórnmálaflokkanna hefur aukið á þennan vanda.

Á síðari árum hefur verið þrengt mjög að frelsinu, bæði hérlendis og erlendis. Smám saman eru völdin að færast frá fólkinu sjálfu (og kjörnum fulltrúum þeirra) til sérfræðinga, tæknimanna, erlendra stofnana o.fl. Valdboðsstjórn er að leysa lýðræðið af hólmi. Tækniveldi er að verða til á meðan lýðveldið hverfur í skuggann. Í stað pólitískrar rökræðu og stefnumótunar á þeim grunni gefa menn út fyrirskipanir og auka eftirlit með þeim afleiðingum að borgaralegt frelsi eyðist smám saman. Valdboðsstjórn býður heim hættu á harðstjórn þeirra sem fara með mikil völd og peninga. Í stað þess að áhersla sé lögð á að halda valdinu í skefjum má nú víða sjá merki þess að valdhafar freisti þess að halda almenningi í skefjum.

FSF er vettvangur lýðræðislegrar umræðu þar sem rætt er um leiðir til að sporna við valdboði, skrifræði og stjórnlyndi. Það gerum við í anda klassísks frjálslyndis og á grunni þeirra gilda sem reynst hafa best. Ef Íslendingar standa ekki vörð um eigin hagsmuni gerir það enginn. Sú hagsmunagæsla verður að byggjast upp innan frá, á grunni klassískrar menntunar og gagnrýninnar hugsunar. Í þessum tilgangi ber okkur að hjálpa samborgurum okkar til að finna tilgang sinn og hlutverk, þannig að við getum verið þátttakendur í frjálsu samfélagi en ekki valdlausir áhorfendur. Fámennisstjórn og fyrirskipanir eru eitur í beinum sannra Sjálfstæðismanna.

Til að flokkurinn geti verið sú breiðfylking sem honum er ætlað að vera þarf hinn almenni flokksmaður að hafa rödd og áhrif. Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki rísa undir þeirri ábyrgð sem á honum hvílir fyrr en hann slítur sig úr kæfandi faðmlagi við flokka sem stefna í aðra átt. Tími er kominn til þess að Sjálfstæðisflokkurinn marki sér stöðu þar sem honum er ætlað að standa, þ.e. að verja einstaklingsfrelsið gagnvart hvers kyns valdaásælni, verja fullveldi þjóðarinnar, mannlíf og atvinnulíf með því að tryggja valddreifingu, tjáningarfrelsi og sjálfstæði fjölmiðla. Við eigum ekki að sætta okkur við að alþjóðlegar stofnanir grípi um stjórnartaumana hér á landi. Æðsta vald í málefnum Íslands á að vera í höndum kjörinna fulltrúa Íslendinga. Ákvarðanir um málefni íslensku þjóðarinnar á ekki að taka í fjarlægum borgum. Stöðva þarf stjórnlausa útþenslu ríkisins, ríkisvalds og ríkisstofnana, fækka opinberum störfum og draga úr skattheimtu. Verja á hagsmuni skattgreiðenda með því að krefjast ráðdeildar í ríkisrekstri og strangs aðhalds við ráðstöfun fjármuna úr ríkissjóði.

Ég hvet alla sem vilja leggja okkur lið í þessari baráttu að gerast virkir meðlimir í FSF og vinna þar með okkur að framgangi Sjálfstæðisstefnunnar.

Með góðri kveðju,

Arnar Þór Jónsson, formaður FSF.