Arnar Þór Jónsson ræðir um þátttöku okkar í lýðræðinu o.fl.
Á bak við grímu gervifrjálslyndis býr grimmdarstjórn
Eins og aðrar þjóðir stöndum við Íslendingar nú á krossgötum. Leiðarval okkar mun
hafa mótandi áhrif á farsæld okkar til lengri tíma.
Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl
Kórónuveiran (C19) hefur leitt stjórnmálaumræðuna inn á óheillavænlega braut. Þeir sem eru hvað hræddastir við veiruna nota óttann til að réttlæta stóryrði og óþol í garð þeirra sem hafa aðrar skoðanir. Óyfirveguð og þröngsýn orðræða fælir almenning frá því að tjá sjálfstæða afstöðu. Í slíku umhverfi skapast forsendur fyrir ógnarstjórn. Veruleikinn er þá teiknaður upp sem svarthvítur og fólk dregið í dilka réttlátra og ranglátra, góðra og vondra, upplýstra og fáfróðra o.s.frv. Með þessu er vegið að ýmsu því sem telja má dýrmætast, s.s. gagnrýninni hugsun, frjálsri og lýðræðislegri umræðu og jafnræði allra manna fyrir lögunum. Ekki vil ég gera lítið úr því að menn séu kappsamir, en ákafinn má ekki umbreytast í óþol, einstrengingshátt, þröngsýni og hroka. Slíkt hugarfar gerir menn herskáa, fyllir þá vandlætingu og leiðir til ofstækis. Því miður hrannast óveðursskýin nú upp á vettvangi stjórnmála, lagasetningar og lagaframkvæmdar. Eins og hendi sé veifað eru vestræn lýðræðisríki að taka upp annars konar stjórnarfar, þar sem ókjörnum embættismönnum er falið það vald að skammta borgaralegt frelsi úr hnefa að fyrirmynd harðstjórnarríkja. Þetta er réttlætt með því að frelsinu beri að fórna í skiptum fyrir heilsu og öryggi. Frammi fyrir því ómælda efnahagslega, heilsufarslega, sálræna, pólitíska, lýðræðislega og lagalega tjóni sem þetta stjórnarfar hefur þegar valdið (og mun fyrirsjáanlega halda áfram að valda) virðist stöðugt skýrara að við erum á rangri braut, sem brýnt er að snúið verði af hið fyrsta, áður en öllu verður stefnt í voða.
Skrefið frá stjórnlyndri „framfarastefnu“ til ofríkis er stutt
Sú mynd sem hér er að birtast sýnir breikkandi gjá milli þeirra sem aðhyllast frelsi, sjálfsákvörðunarrétt og lýðræði annars vegar og hins vegar þeirra sem kjósa vald, hlýðni og stjórnlyndi.
Áleitnar spurningar
Úr Staksteinum Mbl 13. nóvember 2021
Á fundi Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál sem haldinn var á dögunum ræddi Arnar Þór Jónsson, fyrrverandi dómari og nú varaþingmaður, um stöðu laga Evrópusambandsins gagnvart íslenskum lögum. Hann benti á að ríkjasambandið ESB stefndi í átt að sambandsríki, en að Pólland og Þýskaland hefðu spyrnt við fótum gagnvart því að lög ESB gengju framar stjórnarskrám þessara ríkja.
Arnar Þór velti síðan upp þeirri spurningu hvort fullveldi Íslands hefði verið skert og sagði: „Þegar við horfum á það að stór hluti löggjafar sem fer í gegnum Alþingi Íslendinga er í rauninni saminn af fólki sem við kunnum engin deili á, sem enginn hefur kosið, við höfum engan aðgang að því að hlusta á umræður um þessi lagafrumvörp, ef það má kalla þetta það þegar það er í fæðingu, við höfum enga, eða að minnsta kosti afskaplega litla möguleika á að tempra það sem þarna er að gerast, hvernig má það þá vera að því sé haldið fram samhliða því að við höfum haldið fullveldi okkar? Er verið að halla réttu máli? Getur verið að menn séu hugsanlega beinlínis að setja fram blekkingar eða slá ryki í augu Íslendinga? Það væri býsna alvarlegt mál frammi fyrir svona mikilvægu atriði eins og innleiðingu erlends réttar og regluverks sem hugsanlega kann að skerða yfirráðarétt Íslendinga gagnvart náttúruauðlindum sínum, samanber umræðuna um þriðja orkupakkann.
Ég spyr: hafa sérfræðingar á þessu sviði verið fullkomlega heiðarlegir? Hafa stjórnmálamenn verið fullkomlega heiðarlegir? Og að hvaða ósi fljótum við sem þjóð inni í þessu samstarfi sem kennt er við EES?“
Hér er hægt að hlusta á erindi Arnars Þórs Jónssonar í heild
Hvað höfum við lært?
Ekki má þrengja svo að þjóðfélaginu í baráttu við eina hættu að við búum til sjálfstæða ógn úr annarri átt. Hér þarf að finna jafnvægispunkt.
Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl
Í fyrri greinum um kórónuveiruna (C19) hef ég borið fram spurningar um þá vegferð sem yfirvöld hér á landi – og raunar víðar – hafa kosið að feta. Augljóslega er sérstök ástæða til að vara við því að valin sé leið sem til lengri tíma gæti reynst skaðlegri en veiran sjálf. Kófið hefur þrengt sjónarhorn leyfilegrar umræðu, kippt hefðbundnum stjórnmálum úr sambandi, fært völdin úr höndum þings og ríkisstjórnar til ólýðræðislega valinna sérfræðinga. Afleiðingin hefur verið sú að grafið hefur verið undan lýðræðinu, réttarríkinu og öryggisventlum stjórnskipunarinnar um valddreifingu. Of fáum mönnum hafa verið afhent óþægilega mikil völd. Slíkt stjórnarfar, sem kenna má við fámennisstjórn eða sérfræðingastjórn, gengur gegn stjórnskipulegu markmiði lýðræðisríkja um temprun valds.
Þekktu óvininn
Með hliðsjón af opinberri tölfræði um hættueiginleika C19 má furðu sæta hversu lítil umræða hefur farið fram um inngrip sóttvarnalæknis í stjórn landsins. Þau inngrip hafa verið byggð á almennt orðuðum ákvæðum laga um sóttvarnir, án þess að Alþingi eða ríkisstjórn hafi sýnilega gert nóg til að tempra nefnda valdbeitingu.