Hvað höfum við lært?

Ekki má þrengja svo að þjóðfélaginu í baráttu við eina hættu að við búum til sjálfstæða ógn úr annarri átt. Hér þarf að finna jafnvægispunkt.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Í fyrri greinum um kórónuveiruna (C19) hef ég borið fram spurningar um þá vegferð sem yfirvöld hér á landi – og raunar víðar – hafa kosið að feta. Augljóslega er sérstök ástæða til að vara við því að valin sé leið sem til lengri tíma gæti reynst skaðlegri en veiran sjálf. Kófið hefur þrengt sjónarhorn leyfilegrar umræðu, kippt hefðbundnum stjórnmálum úr sambandi, fært völdin úr höndum þings og ríkisstjórnar til ólýðræðislega valinna sérfræðinga. Afleiðingin hefur verið sú að grafið hefur verið undan lýðræðinu, réttarríkinu og öryggisventlum stjórnskipunarinnar um valddreifingu. Of fáum mönnum hafa verið afhent óþægilega mikil völd. Slíkt stjórnarfar, sem kenna má við fámennisstjórn eða sérfræðingastjórn, gengur gegn stjórnskipulegu markmiði lýðræðisríkja um temprun valds.

Þekktu óvininn

Með hliðsjón af opinberri tölfræði um hættueiginleika C19 má furðu sæta hversu lítil umræða hefur farið fram um inngrip sóttvarnalæknis í stjórn landsins. Þau inngrip hafa verið byggð á almennt orðuðum ákvæðum laga um sóttvarnir, án þess að Alþingi eða ríkisstjórn hafi sýnilega gert nóg til að tempra nefnda valdbeitingu.

Með skírskotun til C19 hefur daglegu lífi þjóðarinnar, þ.m.t. atvinnu-, félags- og efnahagslífi, verið raskað með fordæmalausum hætti. Þó er veiran ekki hættulegri en svo að meðalaldur þeirra sem látist hafa af hennar völdum er rúmlega 80 ár, 99,7% smitaðra ná bata, 97% smitaðra fá engin eða væg einkenni, líkur á að smitast og deyja eru 0,024% og dánarlíkur þeirra sem smitast eru 0,096%, allt án bólusetningar.

Ungu og heilsuhraustu fólki stafar langtum minni hætta af C19 en þessar tölur gefa til kynna. Aðgerðir stjórnvalda hafa þó ekki sjáanlega tekið viðeigandi mið af þessum tölum. Þá hefur fréttaflutningur af veirunni valdið órökréttum viðbrögðum meðal almennings, þar sem tilfinningar hafa iðulega ráðið för fremur en yfirveguð og rökræn hugsun.

Könnun sem gerð var í Bretlandi í ágúst 2020 benti til að fólk þar í landi teldi dánarlíkur vegna C19 vera 100 sinnum verri en þær voru í raun. Eins og mörg önnur vandamál krefur C19 okkur um viðbrögð. Hér sem annars staðar hlýtur ákvarðanataka þó að snúast um skynsamlega forgangsröðun og jafnvægisstillingu, sem tekur mið af aðstæðum. Farsæl leiðsögn þarf að taka heildstætt tilllit til væntanlegs kostnaðar og ábata af aðgerðum.

Stjórnmálin eiga að miðast við yfirsýn og heildarsamhengi, en ekki eitt þröngt sjónarmið. Einmitt á vettvangi stjórnmálanna ber að leita svara við erfiðustu spurningum, svo sem hversu miklu má fórna, t.a.m. af menntun, efnahag og andlegri heilsu, til að seinka dauðsföllum. Besta leiðin til að feta braut jafnvægis er að efla heilbrigða rökræðu, þar sem mönnum leyfist að bera fram spurningar og tilgátur, auk þess að framkvæma rannsóknir í leit að svörum. Standa ber vörð um frjálst vísindastarf og gegn því að þrýstihópar nái tangarhaldi á kennivaldi fræðanna og einoki það. Í lengd og bráð grefur slík þróun undan burðarstoðum vísindanna sjálfa. Ekki má þrengja svo að þjóðfélaginu í baráttu við eina hættu að við búum til sjálfstæða ógn úr annarri átt. Hér þarf að finna jafnvægispunkt. Máttur þekkingar er mikill en vísindin (scientia) mega ekki kæfa hófsemi (prudentia) og visku (sapientia). Sjálfsagðar öryggisreglur mega ekki umbreytast í rimla. Óttinn má ekki verða svo yfirgnæfandi að menn gangi viljandi inn í búr þeirra sem lofa vernd og eftirliti.

Skortur á rökræðu

Þegar litið er yfir þróun umræðunnar um C19 tel ég að greina megi viss óheillamerki. Í miklum og jafnvel vaxandi mæli hefur áhersla verið lögð á það að við „látum sérfræðingana ráða“. Sérfræðiþekking er góð eins langt og hún nær, en vandamálið við hana er hversu þröngt slíkt sjónsvið er. Í umræðum um flókin og vandasöm viðfangsefni þarf að opna umræðuna og fá fram sem flest sjónarmið. Þetta er gert til að afstýra því að við hlaupum á okkur, missum jafnvægið og keyrum út af veginum til hægri eða vinstri. Við núverandi aðstæður hvílir sönnunarbyrðin á stjórnvöldum vilji þau halda áfram skerðingum og höftum á borgaralegu frelsi í nafni C19. Þetta er grundvallaratriði sem virðist hafa gleymst í stöðugum straumi blaðamannafunda og óttastjórnunar. Í ljós hefur komið að stór hluti stjórnmálamanna, embættismanna og almennings hefur brennandi áhuga á að hafa vit fyrir öðrum og fyrirskipa, með góðu eða illu, hvernig okkur hinum ber að lifa. Þetta hefur m.a. birst í því að „beturvitar“ hafa sprottið fram úr ýmsum hornum með fyrirskipanir til annarra, kröfur um alls kyns takmarkanir eða með hótunum í garð þeirra sem í krafti heilbrigðs efa ganga ekki í takt eða samþykkja ekki nýjar háttsemisreglur og tilmæli umyrðalaust.

Samantekt

Niðurstaða þeirrar reynslu sem síðustu 18 mánuðir hafa fært Íslendingum og öðrum Vesturlandabúum er sú að lýðræðið, réttarríkið og aðrar undirstöður frjálslyndrar stjórnskipunarhefðar standa á veikari grunni en okkur hafði áður órað fyrir. Þeir veikleikar sem C19 hefur opinberað sýna að ótti getur hæglega leitt okkur í stjórnskipulegar ógöngur. Ef við viljum vera frjáls þurfum við að taka ábyrgð á eigin frelsi, orðum okkar og gjörðum. Slík persónuleg og samfélagsleg ábyrgð jafngildir því þó alls ekki að við tökum upp vélræna, fyrirskipaða, hugsunarlausa hegðun, þar sem öllum heilbrigðum efa og gagnrýni hefur verið úthýst. Okkur ber að hugsa sjálfstætt og veita virkt málefnalegt aðhald. Ef við gerum það ekki getum við sjálfum okkur um kennt þegar frjálslyndið og lýðræðið umbreytast endanlega í innantómt skrum.

Höfundur er lögmaður.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *