Aðalfundur FSF 2023

Félag Sjálfstæðismanna Um Fullveldismál

F.S.U.F.

Aðalfundur 2023 var haldinn í Valhöll þ. 11. Júlí 2023 kl. 17:00

Auglýst dagskrá:

 1.            Ársreikningur lagður fram til samþykktar

 2.            Skýrsla stjórnar

 3.            Kosning formanns

 4.            Kosning stjórnar

 5.            Kosning varastjórnar

 6.            Kosning framkvæmdastjórnar

 7.            Ákvörðun upphæðar félagsgjalda 2023

 8.            Ákvörðun um opna félagsfundi í lok ágúst 2023.

 9.            Önnur mál.

  1. Ársreikningur  

Birgir Steingrímsson gjaldkeri FSF lagði fram ársreikning félagsins og var hann samþykktur einróma

2. Skýrsla stjórnar

Arnar Þór Jónsson formaður FSF flutti skýrslu stjórnar. þar kom m.a. fram að starfsemi félagsins hafi verið mjög virk á starfsárinu og hafi verið og verið áfram afar mikilvægt innlegg í stöðugri baráttu fyrir fullveldi Íslands. Haldnir voru fjölmennir opnir fundir m.a. um útlendingamál með Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra og merk ráðstefna í Reykholti með norska lagaprófessornum Hans Petter Graver um lýðræði, sjálfstjórnina og fleiri áhugaverðum fyrirlesurum.

FSF var stofnað 2019 í kjölfar samþykktar Alþingis á innleiðingu 3. orkupakkaESB í íslensk lög sem var gróf aðför að fullveldi Íslands í eigin orkumálum. Sá gjörningur var sjálfstæðismönnum mikill sorgaratburður ekki síst þar sem þar voru í fararbroddi ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Nú glímir þjóðin við enn stærri vanda vegna framgöngu ráðherra flokksins þ.e. yfirvofandi innleiðing Bókunar 35 við EES samninginn sem kveður á forgang laga og reglugerða ESB fram yfir íslensk lög! Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður á sínum tíma til þess að hér gæti búið frjáls þjóð í frjálsi landi. Hvert er frelsið ef við ráðum ekki sjálf þeim lögum sem hér eiga að gilda? ESB stefnir hraðbyri að stofnun sambandsríkis („Ever Closer Union“ skv. Rómarsáttmálanum) þar sem lýðræðislegt vald fólksins, löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdavald er fært á hendur fjarlægs, yfirþjóðlegs, ólýðræðislegs, skrifræðisveldis. Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur að standa fyrir lýðræðislegu aðhaldi og valddreifingu. Ef forysta flokksins heldur áfram þeirri stefnu að jaðarsetja þetta félag og koma í veg fyrir að það öðlist fulla aðild að Landsfundum flokksins þá hlýtur að koma að þeim tímapunkti að sú stefna flokksins bíti hann sjálfan í hnakkann.

Að því kann að koma að fólk sem aðhyllist kjarnagildi Sjálfstæðisflokksins, klassískt frjálslyndi og hófsamt íhald og að við stjórnum sjálf okkar eigin för, að það átti sig á því að við getum ekki verið áfram í flokki sem aðhyllist einhvers konar sósíal-kratisma undir forystu sem beinir Íslandi sífellt meir undir áhrifavald ESB án þess að slíkt hafi verið borið undir þjóðina. Með þessu er verið að vanvirða grundvallarstefnu flokksins og þann málflutning sem á sér stað á vettvangi FSF. Við viljum að sjálfsögðu koma í veg fyrir klofning úr Sjálfstæðisflokknum með öllum tiltækum ráðum. En til þess þarf forysta þessa ágæta flokks að viðurkenna rætur sínar og hætta að óttast háværan minnihluta í flokknum en virða þess í stað hinn þögla meirihluta sem hrópar á lýðræði og fullveldi Íslandi til handa. Helsta ósk og hvatning formanns FSF er að við stöndum saman um fullveldið og að við reynum okkar allra besta til stýra flokknum okkar inn á þær brautir sem honum er ætlaðar og til að standa undir þeirri ábyrgð sem honum er ætlað að verja.     

3. Kosning formanns

Arnar Þór Jónsson var sjálfkjörinn formaður FSF. Önnur formannsframboð bárust ekki fyrir aðalfundinn.

4. Kosning stjórnar

Aðalstjórn

Arnar Þór Jónsson

Birgir Örn Steingrímsson
Elinóra Inga Sigurðardóttir
Jón Kári Jónsson
Júlíus Valsson

Varamenn:

Erlendur Borgþórsson
Ingibjörg Sverrisdóttir
Jón Magnússon
Pjétur Stefánsson
Þórður Birgisson

Framkvæmdastjórn:

Ásmundur Friðriksson
Erling Óskar Kristjánsson
Geir Waage
Gísli Ragnarsson
Guðfinnur Halldórsson
Guðmundur Pálsson
Jóhann Birgisson
Ólafur Hannesson
Svala Magnea Ásdísardóttir
Viðar Guðjohnsen jr

Varamenn í framkvæmdastjórn:

Albert Guðmundsson
Halldór Gunnarsson
Halldóra Hjaltadóttir
Júlíus Hafstein
Ólafur Egilsson
Ólafur Ísleifsson
Ragnar Árnason
Ragnar Önundarson

7. Félagsgjald 2023

Félagsgjald fyrir árið 2023 verði kr. 7.000.-

8. Lagabreytingar

Engar tillögur um lagabreytingarhafa borist

9. Fundarröð vegna Bókunar 35 

Samþykkt var tillaga formanns félagsins um að fara fundarherferð á nokkra staði og halda opna félagsfundi um Bókun 35 við EES í ágúst úti á landi t.d. á Akureyri, Egilsstöðum, Selfossi,   Keflavík og á Akranesi. Vekja þarf þjóðina til vakningar um þann vágest sem þar er fyrir dyrum að frumkvæði utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins. Til stendur að færa löggjafarvald Alþingis nær alfarið undir áhrifavald ESB.

10. Önnur mál

Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum héldu erindi þeir Birgir Þórarinsson alþingismaður og Ragnar Önundarson f.v. bankastjóri.  Að því loknu hófust fyrirspurnir úr sal og fjörugar umræður. Þessum fyrirlestrum verður gerð nánari skil síðar.

Fundi var slitið kl 20:00.

Við pennann:

Júlíus Valsson aðalritari

Úlfakreppa stjórnmálanna.

Arnar Þór Jónsson skrifar á Blog.is:

Nýjar reglur frá ESB munu valda því að íþyngjandi losunarskattar verða lagðir á flug til og frá íslandi. Málið er ljóslega viðkvæmt á ýmsa kanta, en varpar um leið ljósi á það sem er að gerast á bak við leiktjöld / ytri ásýnd stjórnmálanna.

Hefðbundin stjórnmál eru að leysast upp í einhvers konar sjónhverfingu. Á bak við tjöldin stýrir tækniveldið för (vísindi, tækni og iðnaður). Tækniveldið er alþjóðlegt og starfar utan við stjórnmál þjóðríkjanna. Afleiðingarnar má sjá í því hvernig lýðræðið víkur fyrir einhvers konar tækniræði og hvernig hagsmunir þjóðríkisins víkja fyrir yfirþjóðlegum sjónarmiðum. Kjörnir stjórnmálamenn telja sig ekki eiga annan kost en að staðfesta það sem þegar hefur verið ákveðið annars staðar. Þetta þýðir að lagasetning er í síauknum mæli hugsunarlaus innleiðing erlendra reglna. Þetta birtist líka í því hvernig innlendir embættismenn fylgja í blindni línum sem lagðar hafa verið erlendis.

Til að dylja þessa umbreytingu fyrir almenningi er lögð mikil áhersla á að halda uppi ásýnd sjálfstæðis og lýðræðis. Gagnvart kjósendum er mikilvægt að þessi ásýnd haldi velli, því afhjúpun gæti valdið almennum óróa. Stöðugt erfiðara verður þó að fela þá breytingu sem er að eiga sér stað: Stjórnmálin eru að umbreytast í gervistjórnmál. Á sama tíma er raunhagkerfið sett í þumalskrúfur gervihagkerfis sem á hugmyndafræðilegum grundvelli vill m.a. stýra orkunotkun og eldsneytisvali, sbr. m.a. áðurnefnda losunarskatta.

Framangreind umbreyting er hvergi rædd. Stjórnvöld vinna að „lausn“ á bak við tjöldin með „lobbíisma“. Þar með eru íslensk yfirvöld í reynd farin að starfa samkvæmt erlendum leikreglum, en ekki á þeim skýra grundvelli sem stjórnarskráin markar lýðveldinu okkar. Að þetta sé hvergi gagnrýnt er til marks um það hversu máttlaus pólitisk rökræða er orðin.

Kjósendur sitja í raun uppi með valdhafa í erlendum borgum sem svara ekki til neinnar ábyrgðar vegna afleiðinga þeirra ákvarðana sem teknar eru. Í slíku umhverfi er ekki við öðru að búast en einmitt því sem blasir við í tilviki losunarskattanna, þ.e. að ákvarðanir t.d. miðist við hag / ásýnd valdsins (ESB) fremur en hugsanlegt tjón Íslendinga. Þegar hagsmunir valdhafa fara ekki lengur saman við hagsmuni þegnanna hlýtur að koma að því að áhorfendur bauli á leikarana (stjórnmálamenn) og vilji yfirgefa leikhúsið.

Ef stjórnmálamenn á Íslandi vilja afstýra því að algjör trúnaðarbrestur verði milli þeirra og kjósenda þarf að viðurkenna þá stöðu sem uppi er og taka hana til heiðarlegrar umræðu.  

Bloggsíða Arnars Þórs Jónssonar á Blog.is

Hugur þinn og hjarta er þín eign, ekki ríkisins

Arnar Þór Jónsson:

Reynsla síðustu ára bendir til að vestrænar þjóðir kunni ekki að verjast valdhöfum sem undir yfirskyni umhyggju vilja skerða frelsi okkar. Þjóðfélögum okkar er í auknum mæli stjórnað af fólki sem gefur sig út fyrir að vera frjálslynt, fólki sem í orði kveðnu styður málfrelsið. Þegar þetta sama fólk kallar eftir ritskoðun til að vernda okkur er verið að bjóða falskt öryggi.

Tjáningarfrelsið er lífæð alls lýðfrelsis. Sú þjóð sem afhendir valdhöfum úrskurðarvald um hvað má segja og hvað ekki, afhendir ríkinu um leið alla umræðustjórn. Í slíku þjóðfélagi viðgengst engin lifandi umræða og fólk fer ósjálfrátt að ritskoða sjálft sig. Ef að er gáð má víða finna vísbendingar um það hvernig verið er að þrengja umræðuna, loka fyrir sjónarmið, banna gagnrýni, fela óþægilegar upplýsingar.

Frjálslynt stjórnarfar bannar fólki ekki að hafa óvinsælar skoðanir, heldur býr svo um hnútana að menn beri ábyrgð á orðum sínum og gjörðum. Frjálslynt fólk hefur trú á samborgurum sínum, er reiðubúið að hlusta á röksemdir og svara með rökum. Stjórnlynt fólk aðhyllist ritskoðun, styður slaufunarmenningu og umræðustjórn, en leggst gegn frjálsum fjölmiðlum.

Við búum nú í samfélagi þar sem ríkið vill í auknum mæli taka ábyrgðina af herðum okkar, en gerir á móti tilkall til þess að taka af okkur frelsið um leið. Slík skipti leiða okkur í átt til alræðis, þar sem allir eru steyptir í sama mót og aðeins ein ,,ríkisskoðun” leyfð.

Við erum hugsandi verur sem tjáum okkur með orðum og athöfnum. Verkefni hvers dags er að tjá sig fallega og af virðingu fyrir öðrum. Stundum tekst okkur það vel og stundum ekki eins vel. Með því að samþykkja einsleitni og ritskoðun myndum við skapa flatneskjulegt, taugaveiklað, óheiðarlegt og huglaust samfélag þar sem enginn þyrði að tjá eigin hug og hjarta. Með því værum við að svíkja okkar innsta kjarna, samvisku okkar og mannlega reisn. Við eigum ekki að setja ljós okkar undir mæliker.

Bloggsíða Arnars þórs á Mbl.is

Er lýðræðið dautt?

Arnar Þór Jónsson skrifar minningargrein í Mbl:

Til minningar um lýðræðið

“Frammi fyrir þessu rann smám saman upp fyrir kjósendum að stjórnmálin höfðu umbreyst í leiklestur og stjórnmálamennirnir í brúður.”

Arnar Þór Jónsson

Þótt ekkert fæðingarvottorð sé til er almennt talið að lýðræðið hafi fæðst í Grikklandi á 5. öld f. Kr. og að vöggu þess sé helst að finna í borgríkinu Aþenu. Á æskuskeiði átti lýðræðið góða spretti í Róm, áður en valdagírugir menn komu á einræði með múgæsingarstarfi, ógn og ofbeldi. Eftir það sat lýðræðið lengi í öskustó annars stjórnarfars. Minningin um sólbjarta daga málfrelsis og sjálfstæðis dofnaði en hvarf þó ekki með öllu. Jafnvel þótt þessi minning hafi orðið óljós á myrkustu köflum þessara fyrstu alda var það þó kannski einmitt óljós endurómurinn sem hélt lífi í glóðunum þegar útlitið var sem dekkst. Þrátt fyrir vanþroska og mótlæti braust andi lýðræðisins stundum eftirminnilega í gegn. Til þeirrar sögu má nefna stofnun Alþingis árið 930, Magna Carta (1215) o.fl. Á þessum grunni holdgerðist lýðræðisandinn í Englandi á 17. öld eins og sjá má m.a. í Bill of Rights (1689) sem markaði þáttaskil. Lýðræðið fann rætur sínar og styrktist með hverri raun.

Segja má að átök næstu 100 ára hafi falið í sér dýrmæta þjálfun hvað varðar bæði úthald og styrk. Á þessum mótunarárum naut lýðræðið leiðsagnar úrvals kennara. Við leiðarlok ber að minnast sérstaklega á John Locke (1632-1704) og bók hans, Ritgerð um ríkisvald, sem reyndist lýðræðinu traust handbók í átökum og eftirmálum bandaríska frelsisstríðsins (1765-1791) og frönsku byltingarinnar (1789).

Ekki verður skilið við þetta tímabil án þess að minnast á Sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna (1776), þar sem þrír grundvallarþræðir lýðræðisins, uppruni, markmið og tilgangur, eru glæsilega fléttaðir saman:

1) Guð skapaði alla menn jafna og gaf þeim rétt til lífs, frelsis og til að leita hamingjunnar.
2) Megintilgangur með öllu stjórnarfari er að verja þessi réttindi.
3) Ef ríkið reynir að synja mönnum um þennan rétt er fólki heimilt að gera uppreisn og koma á fót nýrri stjórn.

Saman mynda þessir þrír þræðir erfðamengi lýðræðisins, anda þess og sál, sem síðar má vonandi vekja til nýs lífs. Á blómaskeiði sínu átti lýðræðið glæstar stundir og fóstraði margt það besta sem mönnum hefur tekist að leiða fram, með því að virkja sköpunarkraft, samtakamátt o.fl. Stofnun íslenska lýðveldisins 1944 var mjög í þessum anda, hugdjörf ákvörðun fámennrar en stórhuga þjóðar. Því verður þó ekki á móti mælt, að lýðræðið glímdi alla tíð við meðfædda galla og var t.d. óþægilega ginnkeypt fyrir hvers kyns skrumi. Í alþjóðlegu samhengi leiddu veikleikar lýðræðisins til þess að það féll ítrekað fyrir varasömum mönnum, sem kunnu að spila á strengi sem leiddu fólk í gildru harðstjórnar, þar sem járnkrumla hertist um æðakerfi þjóðlífsins þar til ekkert varð eftir annað en stirðnuð skel og líflaus leikmynd þar sem andlausir leikarar þuldu upp sömu setningarnar í mismunandi útgáfum. Stjórnmálin urðu dauf og líflaus, ekkert kom lengur á óvart. Hver einasta lína var skrifuð af ósýnilegum baktjaldamönnum og óttinn knúði alla til að vanda framburð og látbragð í hvívetna, því sérhvert frávik frá textanum gat varðað atvinnumissi og brottrekstri af sviðinu. Í þessu umhverfi entust þeir lengst í stjórnmálum sem nutu sviðsljóssins mest og höfðu kannski minnst fram að færa frá eigin brjósti, en sýndu hæfni í að endurtaka hugsanir annarra af einlægum sannfæringarkrafti.

Þegar þátttaka í stjórnmálum var ekki lengur þjónustuhlutverk, heldur starfsferill, náðu þeir lengst sem spurðu engra spurninga, voru reiðubúnir að kynda undir óvild manna í garð samborgara sinna, veigruðu sér ekki við að hóta þeim sem sýndist skorta undirgefni og hikuðu ekki við að framfylgja fyrirskipunum með valdbeitingu. Frammi fyrir þessu rann smám saman upp fyrir kjósendum að stjórnmálin höfðu umbreyst í leiklestur og stjórnmálamennirnir í brúður. Niðurlægingin var svo mikil og svikin svo sárgrætileg að enginn vildi viðurkenna að þetta væru dauðamörk. Enginn nema börn og stöku eldri borgarar höfðu einlægni til að spyrja:

„Til hvers að taka þátt í pólitík ef þú ætlar ekki að segja það sem þér sjálfum finnst?“

Ef marka má sögu lýðræðisins mun ekkert breytast fyrr en menn rísa upp gegn ofríkisöflunum og hafna andleysinu í þeim tilgangi að verja líf sitt og frelsi til gagnrýninnar hugsunar, málfrelsi sitt og frelsi til athafna, samvinnu, uppbyggingar og friðar. Aðeins þannig getur lýðræðið vaknað til nýs lífs.

Hafa Íslendingar þrek til þess eða kjósa menn enn að dvelja sofandi á draumþingum og hlusta hálfsofandi á léleg handrit leiklesin á öllum sviðum einkalífs og þjóðlífs?

Höfundur er sjálfstætt starfandi lögmaður og formaður Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál.
arnarthor@griffon.is