Eins og aðrar þjóðir stöndum við Íslendingar nú á krossgötum. Leiðarval okkar mun
hafa mótandi áhrif á farsæld okkar til lengri tíma.
Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl
Kórónuveiran (C19) hefur leitt stjórnmálaumræðuna inn á óheillavænlega braut. Þeir sem eru hvað hræddastir við veiruna nota óttann til að réttlæta stóryrði og óþol í garð þeirra sem hafa aðrar skoðanir. Óyfirveguð og þröngsýn orðræða fælir almenning frá því að tjá sjálfstæða afstöðu. Í slíku umhverfi skapast forsendur fyrir ógnarstjórn. Veruleikinn er þá teiknaður upp sem svarthvítur og fólk dregið í dilka réttlátra og ranglátra, góðra og vondra, upplýstra og fáfróðra o.s.frv. Með þessu er vegið að ýmsu því sem telja má dýrmætast, s.s. gagnrýninni hugsun, frjálsri og lýðræðislegri umræðu og jafnræði allra manna fyrir lögunum. Ekki vil ég gera lítið úr því að menn séu kappsamir, en ákafinn má ekki umbreytast í óþol, einstrengingshátt, þröngsýni og hroka. Slíkt hugarfar gerir menn herskáa, fyllir þá vandlætingu og leiðir til ofstækis. Því miður hrannast óveðursskýin nú upp á vettvangi stjórnmála, lagasetningar og lagaframkvæmdar. Eins og hendi sé veifað eru vestræn lýðræðisríki að taka upp annars konar stjórnarfar, þar sem ókjörnum embættismönnum er falið það vald að skammta borgaralegt frelsi úr hnefa að fyrirmynd harðstjórnarríkja. Þetta er réttlætt með því að frelsinu beri að fórna í skiptum fyrir heilsu og öryggi. Frammi fyrir því ómælda efnahagslega, heilsufarslega, sálræna, pólitíska, lýðræðislega og lagalega tjóni sem þetta stjórnarfar hefur þegar valdið (og mun fyrirsjáanlega halda áfram að valda) virðist stöðugt skýrara að við erum á rangri braut, sem brýnt er að snúið verði af hið fyrsta, áður en öllu verður stefnt í voða.
Skrefið frá stjórnlyndri „framfarastefnu“ til ofríkis er stutt
Sú mynd sem hér er að birtast sýnir breikkandi gjá milli þeirra sem aðhyllast frelsi, sjálfsákvörðunarrétt og lýðræði annars vegar og hins vegar þeirra sem kjósa vald, hlýðni og stjórnlyndi.