AFSAL Á STJÓRNUN AUÐLINDA OG AUÐLINDUNUM SJÁLFUM – Orkupakkar ESB

Kári skrifar:

Nei við ACER!

Reglan um varanlegt fullveldi fólks og ríkja yfir náttúruauðlindum tók að festast í sessi, sem ný regla í alþjóðarétti, eftir lok seinni heimsstyrjaldar, eða eftir 1945.[i] Ályktanir og ákvarðanir eru formleg tjáning á skoðunum eða vilja innan stofnana Sameinuðu þjóðanna. Margs konar ályktanir um fjölbreytileg efni hafa verið samþykktar af helstu stofnunum Sameinuðu þjóðanna og undirstofnunum þeirra frá stofnun árið 1945.[ii]

Almennt er litið svo á að ályktanir og samþykktir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, samkvæmt VII. kafla stofnsáttmála þeirra, séu bindandi í samræmi við 25. grein sáttmálans. En fræðimenn greinir á um lagalegt gildi annara ályktana og samþykkta.[iii] Þá er eftirfylgni [enforcement] oft háð sömu annmörkum og margt annað í alþjóðakerfinu.

Árið 1962 samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktun 1803,[iv] um fullveldi ríkja yfir náttúruauðlindum sínum. Í 1. gr. ályktunarinnar segir: „Rétti fólks og þjóða til varanlegs fullveldis yfir náttúruauðæfum sínum og auðlindum verður að beita í þágu innlendrar þróunar og velferðar almennings í hlutaðeigandi ríki.“[v]

Nú ber hins vegar svo við að íslenskir stjórnmálamenn, margir hverjir, ólmast við að koma íslensku fullveldi yfir auðlindum, og fullveldinu almennt, undir erlenda stjórn. Til þess hafa þeir m.a. keypt álit, frá misjafnlega vel jarðbundnu fólki, sem segir ekkert að óttast – að bæði sé hægt að gefa frá sér hlut en þó eiga hann áfram. Það má kalla lögfræðilega tvíhyggju. Mótsagnarlögmál rökfræðinnar gildir ekki hjá þeim álitsgjöfum sem þannig tala.

Fullveldisrétturinn

Sumir ráðherrar eru svo óforskammaðir að tala um það í eldhúsdagsumræðum að þjóðin hafi enn fulla stjórn á eigin auðlindum, enda þótt við blasi að sömu ráðherrar stóðu einmitt sjálfir að framsali stjórnunar þeirra úr landi með innleiðingu orkupakka þrjú. Slík er ósvífni og ófyrirleitni þessa fólks. Það lætur enn eins og ákvarðanir þess hafi engin áhrif, beitir sífelldum blekkingum og reynir að afvegaleiða kjósendur. Innleiðing orkupakka þrjú felur í sér afsal fullveldisréttar yfir íslenskum orkuauðlindum, einkum til ACER, orkustofnunar Evrópu, en þar liggur þó mun meira undir. Enn fyrirfinnst fólk sem annað hvort skilur ekki eða vill ekki skilja þetta. Það birtist svo í pontu Alþingis og talar þar eins og álfur út úr hól.

Áframhald af greininni

ESB – umsókn? Enn og aftur?

Leiðari Mbl. föstudaginn 23. september 2022:

Systurflokkarnir vilja kíkja aftur í pakkann sem allir
vita hvað er í…eða hvers vegna gengu Svíar og Finnar í NATO?

Svíar sóttu um aðild að NATO


Þingmenn systurflokkanna hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar „um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við Evrópusambandið“ og fengu hana rædda í þaula á þriðjudag. Forsendur flutningsmannanna fyrir því að taka aftur upp viðræður við Evrópusambandið um aðild eru þær sömu og þær voru þegar málið sigldi eftirminnilega í strand fyrir um áratug, fyrir utan að nú telja þeir að stríðið í Úkraínu gefi þeim færi á að vinna fleiri á sitt band. Það er eitthvað alveg sérstaklega lítið geðfellt við það að reyna að nota yfirgang Pútíns og ógæfu Úkraínumanna til að endurvekja þetta vonlausa mál, en það er engu að síður gert og þarf ef til vill ekki að koma á óvart enda hefur flest verið reynt fyrir þennan vonda málstað. Þannig er beinlínis fullyrt í greinargerð með tillögunni að óhætt sé að segja að „vatnaskil hafi orðið í umræðunni um stöðu Íslands í Evrópu með innrás Rússa í Úkraínu“. Vísað er til þess að Danir hafi samþykkt að falla frá fyrirvörum um að taka fullan þátt í varnarmálasamstarfi ESB og að Finnar og Svíar hafi sótt um aðild að Atlantshafsbandalaginu vegna innrásarinnar. Þetta er fjarstæðukenndur málflutningur og öfugsnúinn, því að sú staðreynd að Finnar og Svíar sækja um aðild að NATO vegna aukinnar

Lestu áfram

Höldum í heiðri fullveldi okkar í orkumálum Íslands. Hugsum sjálfstætt!

Elinóra Inga Sigurðardóttir:

Umsögn til Alþingis um 777. mál, þingsályktunartillaga, 149. löggjafarþings: Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (25. apríl 2019)

„Játast aldrei undan því sem vér vitum að er réttur í þessu landi og réttur þessa lands:
Það er sjálfstæði.“

Halldór Laxness, 1. desember 1955 (ref.1)

Ágæti alþingismaður
Í fyrsta skipti í sögu íslenska lýðveldisins stendur Alþingi Íslendinga frammi fyrir þeirri erfiðu
ákvörðun hvort afsala skuli yfirráðum landsmanna yfir einni helstu auðlind landsins, orkuauðlindinni og þeirri afurð sem er henni nátengd, raforkunni til erlends ríkjasambands.

Elinóra Inga Sigurðardóttir

Í ljósi 100 ára afmæli fullveldis Íslands er þetta illskiljanlegur harmleikur. Hvað rekur ráðamenn þjóðarinnar til að fremja slíkt spellvirki? Ljóst er, að vissir stjórnmálaflokkar hafa lengi barist fyrir innlimum Íslands í Evrópusambandið (ESB), sem er ríkjasamband 28 aðildarlanda, sem telja yfir 300 milljón manna. Þingmenn þessara flokka hafa róið að því öllum árum að innlima Ísland í ESB með öllum þeim fórnum sem því myndi fylgja. Það er því skiljanlegt út frá þeirra sjónarhorni að þeim þyki sjálfsagt að taka þátt í þeim fórnardansi, sem afsalar okkur yfirráðum yfir orkuauðlindinni, sem og öðrum auðlindum svo sem fiskimiðunum. ESB er ekki alþjóðleg stofnun og hefur ekkert með alþjóðasamvinnu að gera, eins og stundum er haldið ranglega fram.

Hitt er hins vegar algjörlega óskiljanlegt, hvers vegna það eru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem nú hafa frumkvæðið að slíku framsali. Þegar Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sameinuðust árið 1929 undir merkjum nýs flokks, Sjálfstæðisflokksins, var kveðið á um tvö meginatriði sem flokkurinn skildi hafa að leiðarljósi. Annars vegar var því lýst yfir að undanbragðalaust yrði að vinna að því að landið yrði sjálfstætt þegar skilyrði væru til þess samkvæmt sambandslögunum. Hins vegar sagði að flokkurinn ætlaði:

Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.”

Áframhald af greininni

Alþingi Íslendinga átti ekki að samþykkja 3. orkupakka ESB!

„For years many people remained at home, unaffected, continuing to do what they had always done. Then … bombs and mines suddenly exploded everywhere, buildings collapsed, and the streets were full of rubble, soldiers, and refugees. Soon, no one was left who could pretend it wasn’t happening …“
Natalia Ginzburg í Family Lexicon

Arnar Þór Jónsson

Arnar Þór Jónsson lögmaður, f.v. héraðsdómari og núverandi 1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins ritar á Facebook síðu sína þ. 11. september 2022:

,,Af hverju tala þau við mig eins og ég sé kjáni?” hugsaði ég sem barn þegar fullorðið fólk vék sér undan að svara viðkvæmum spurningum. Öllum er ljóst að við eyðum ekki vanda með því að eyða talinu. Nú er ég orðinn of fullorðinn til að láta tala við mig sem barn. Þetta rifjast upp þegar ég les ummæli sérfræðinga / embættismanna / stjórnmálamanna um orkumál og hugsanleg áhrif sæstrengs á raforkuverð á Íslandi. Börn geta skilið hvaða áhrif slík tenging mun hafa á raforkuverð innanlands. Öllum má sömuleiðis vera morgunljóst að ákvörðunarvald um slíkan streng hvílir ekki lengur aðeins í höndum Íslendinga. Enn vill fólk þó afneita því að þetta séu afleiðingar þess að Alþingi samþykkti innleiðingu þriðja orkupakka ESB árið 2019. Þverpólitísk samstaða skapaðist, utan Alþingis, um að forða Íslendingum frá því að festa sig að óþörfu í þessum orkupakkasnörum. Á það var ekki hlustað. Stórpólitískt mál um þjóðarhagsmuni var skrumskælt sem flokkspólitískt smámál. Þetta minnisblað svarar ekki öllum spurningum, en það er púsl í heildarmyndina sem margir vilja enn ekki sjá. Ég hef ekki birt þetta áður hér á FB, en því miður er full ástæða til að vekja athygli á innihaldi þess. Við getum ekki lokað augum og eyrum fyrir þeim vanda sem blasir nú við nágrannaþjóðum okkar. Varla viljum við fara sömu leið, eða hvað?

Með þessari færslu sinni birtir hann í fyrsta sinn eftirfarandi minnisblað sitt vegna fundar í utanríkismálanefnd Alþingis hinn 16. ágúst 2019 um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES- samninginn (þriðji orkupakkinn), 777. mál:

Minnisblað þetta er ritað eftir móttöku fundarboðs utanríkismálanefndar 14. ágúst 2019, þar sem undirritaður er boðaður á fund nefndarinnar 16. ágúst 2019. Í fundarboðinu kemur fram að á fundinum verði til umfjöllunar „tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (þriðji orkupakkinn), 777. mál.

Um leið og ég þakka fyrir að fá tækifæri til að ræða við þingmenn um hinn svonefnda þriðja orkupakka ESB (O3) skal tekið fram að ég rita þessar línur að eigin frumkvæði, án utanaðkomandi þrýstings eða fyrirmæla og án þess að hafa þegið nokkra greiðslu fyrir þessi skrif né heldur fyrir framlag mitt til almennrar umræðu um málefnið sem hér um ræðir.

Áframhald af greininni

Sögulegar áskoranir og fölsk stefnumál – Evrópa á krossgötum

Eftir Mateusz Morawiecki

Mbl 22. ágúst 2022

Mateusz Morawiecki forsætisráðherra Póllands

Rússland vill breyta Evrópu í þá mynd sem það hefur þekkt vel undanfarnar aldir, þ.e.a.s. í samstillt stórveldi með sameiginlega skilgreint áhrifasvið.

Stríðið í Úkraínu hefur afhjúpað sannleikann um Rússland. Þeir sem neituðu að taka eftir því að ríki Pútíns hefði tilhneigingu til heimsvaldastefnu verða núorðið að horfast í augu við þá staðreynd að djöflar 19. og 20. aldar hafa nú lifnað við: þjóðernishyggja, nýlendustefna og æ sýnilegri alræðishyggja. Stríðið í Úkraínu hefur þó einnig flett ofan af sannleikanum um Evrópu. Margir Evrópuleiðtogar hafa látið Vladimír Pútín draga sig á tálar og verða nú fyrir áfalli. Endurkoma hinnar rússnesku alræðishyggju ætti ekki að koma okkur á óvart. Rússland hefur jafnt og þétt verið að endurbyggja stöðu sína undanfarin tuttugu ár. Á því tímabili kusu Vesturlönd að taka sér landstjórnmálalegan lúr í stað þess að vera árvökul og skynsöm. Þau kusu að líta framhjá sívaxandi vandamáli í stað þess að standa gegn því fyrr. Evrópa kom sér ekki í þessa stöðu vegna þess að hún var ekki nægilega samþætt heldur vegna þess að hún kaus að hlusta ekki á rödd sannleikans. Sú rödd hefur verið að koma frá Póllandi í mörg ár.

Pólland áskilur sér ekki rétt á sannleikanum en af samskiptum við Rússland hefur Pólland þó talsvert meiri reynslu en aðrir. Lech Kaczynski, fyrrverandi forseti Póllands, hafði rétt fyrir sér, líkt og Kassandra sem sá fyrir fall Trójuborgar. Kaczynski sagði fyrir mörgum árum að Rússland myndi ekki láta staðar numið í Georgíu heldur myndi teygja sig áfram til að sölsa meira land undir sig. Ekki var heldur hlustað á hann. Sú staðreynd að rödd Póllands hafi verið hunsuð er einungis birtingarmynd stærra vandamáls sem ESB stendur frammi fyrir í dag.

Áframhald af greininni

Er lýðræðið dautt?

Arnar Þór Jónsson skrifar minningargrein í Mbl:

Til minningar um lýðræðið

“Frammi fyrir þessu rann smám saman upp fyrir kjósendum að stjórnmálin höfðu umbreyst í leiklestur og stjórnmálamennirnir í brúður.”

Arnar Þór Jónsson

Þótt ekkert fæðingarvottorð sé til er almennt talið að lýðræðið hafi fæðst í Grikklandi á 5. öld f. Kr. og að vöggu þess sé helst að finna í borgríkinu Aþenu. Á æskuskeiði átti lýðræðið góða spretti í Róm, áður en valdagírugir menn komu á einræði með múgæsingarstarfi, ógn og ofbeldi. Eftir það sat lýðræðið lengi í öskustó annars stjórnarfars. Minningin um sólbjarta daga málfrelsis og sjálfstæðis dofnaði en hvarf þó ekki með öllu. Jafnvel þótt þessi minning hafi orðið óljós á myrkustu köflum þessara fyrstu alda var það þó kannski einmitt óljós endurómurinn sem hélt lífi í glóðunum þegar útlitið var sem dekkst. Þrátt fyrir vanþroska og mótlæti braust andi lýðræðisins stundum eftirminnilega í gegn. Til þeirrar sögu má nefna stofnun Alþingis árið 930, Magna Carta (1215) o.fl. Á þessum grunni holdgerðist lýðræðisandinn í Englandi á 17. öld eins og sjá má m.a. í Bill of Rights (1689) sem markaði þáttaskil. Lýðræðið fann rætur sínar og styrktist með hverri raun.

Segja má að átök næstu 100 ára hafi falið í sér dýrmæta þjálfun hvað varðar bæði úthald og styrk. Á þessum mótunarárum naut lýðræðið leiðsagnar úrvals kennara. Við leiðarlok ber að minnast sérstaklega á John Locke (1632-1704) og bók hans, Ritgerð um ríkisvald, sem reyndist lýðræðinu traust handbók í átökum og eftirmálum bandaríska frelsisstríðsins (1765-1791) og frönsku byltingarinnar (1789).

Ekki verður skilið við þetta tímabil án þess að minnast á Sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna (1776), þar sem þrír grundvallarþræðir lýðræðisins, uppruni, markmið og tilgangur, eru glæsilega fléttaðir saman:

1) Guð skapaði alla menn jafna og gaf þeim rétt til lífs, frelsis og til að leita hamingjunnar.
2) Megintilgangur með öllu stjórnarfari er að verja þessi réttindi.
3) Ef ríkið reynir að synja mönnum um þennan rétt er fólki heimilt að gera uppreisn og koma á fót nýrri stjórn.

Saman mynda þessir þrír þræðir erfðamengi lýðræðisins, anda þess og sál, sem síðar má vonandi vekja til nýs lífs. Á blómaskeiði sínu átti lýðræðið glæstar stundir og fóstraði margt það besta sem mönnum hefur tekist að leiða fram, með því að virkja sköpunarkraft, samtakamátt o.fl. Stofnun íslenska lýðveldisins 1944 var mjög í þessum anda, hugdjörf ákvörðun fámennrar en stórhuga þjóðar. Því verður þó ekki á móti mælt, að lýðræðið glímdi alla tíð við meðfædda galla og var t.d. óþægilega ginnkeypt fyrir hvers kyns skrumi. Í alþjóðlegu samhengi leiddu veikleikar lýðræðisins til þess að það féll ítrekað fyrir varasömum mönnum, sem kunnu að spila á strengi sem leiddu fólk í gildru harðstjórnar, þar sem járnkrumla hertist um æðakerfi þjóðlífsins þar til ekkert varð eftir annað en stirðnuð skel og líflaus leikmynd þar sem andlausir leikarar þuldu upp sömu setningarnar í mismunandi útgáfum. Stjórnmálin urðu dauf og líflaus, ekkert kom lengur á óvart. Hver einasta lína var skrifuð af ósýnilegum baktjaldamönnum og óttinn knúði alla til að vanda framburð og látbragð í hvívetna, því sérhvert frávik frá textanum gat varðað atvinnumissi og brottrekstri af sviðinu. Í þessu umhverfi entust þeir lengst í stjórnmálum sem nutu sviðsljóssins mest og höfðu kannski minnst fram að færa frá eigin brjósti, en sýndu hæfni í að endurtaka hugsanir annarra af einlægum sannfæringarkrafti.

Þegar þátttaka í stjórnmálum var ekki lengur þjónustuhlutverk, heldur starfsferill, náðu þeir lengst sem spurðu engra spurninga, voru reiðubúnir að kynda undir óvild manna í garð samborgara sinna, veigruðu sér ekki við að hóta þeim sem sýndist skorta undirgefni og hikuðu ekki við að framfylgja fyrirskipunum með valdbeitingu. Frammi fyrir þessu rann smám saman upp fyrir kjósendum að stjórnmálin höfðu umbreyst í leiklestur og stjórnmálamennirnir í brúður. Niðurlægingin var svo mikil og svikin svo sárgrætileg að enginn vildi viðurkenna að þetta væru dauðamörk. Enginn nema börn og stöku eldri borgarar höfðu einlægni til að spyrja:

„Til hvers að taka þátt í pólitík ef þú ætlar ekki að segja það sem þér sjálfum finnst?“

Ef marka má sögu lýðræðisins mun ekkert breytast fyrr en menn rísa upp gegn ofríkisöflunum og hafna andleysinu í þeim tilgangi að verja líf sitt og frelsi til gagnrýninnar hugsunar, málfrelsi sitt og frelsi til athafna, samvinnu, uppbyggingar og friðar. Aðeins þannig getur lýðræðið vaknað til nýs lífs.

Hafa Íslendingar þrek til þess eða kjósa menn enn að dvelja sofandi á draumþingum og hlusta hálfsofandi á léleg handrit leiklesin á öllum sviðum einkalífs og þjóðlífs?

Höfundur er sjálfstætt starfandi lögmaður og formaður Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál.
arnarthor@griffon.is

Þjóðhátíð 2022

Kæru landsmenn.

Fjallkona Íslands

Á þjóðhátíðardaginn er vert að minnast þess sem við Íslendingar eigum sameiginlegt. Þjóðhátíðardagurinn er sameiginlegur hátíðisdagur. Hann gefur okkur mikilvægt tækifæri til að gleðjast og fagna. Á þessum degi komum við saman og gleðjumst hvert með öðru. Haldnar eru ræður, flutt ljóð, leikið, dansað og sungið. Fjallkonan er þar í lykilhlutverki. Fólk og félög leggja sitt af mörkum til gleðja og gera daginn eftirminnilegan. Í orði og verki gefum við hvert öðru hlut af hjarta okkar og tíma.

Fjallkonan er táknmynd Íslands, landsins sem fóstrar okkur, nærir og verndar. Fjallkonan táknar líka móður jörð, móðurástina sem öllum er lífsnauðsynleg. Ísland (Ísafold) er móðir okkar allra, griðastaður okkar, sem okkur ber virða, hlúa að og verja. Við erum þannig í reynd börn þessa lands. Það sem móðir þráir heitast er að börn hennar sýni hvert öðru virðingu og vináttu, þroskist og blómstri á fallegan hátt. Ágreiningur getur verið hluti af þroskaferli manns og þjóðar, en takmarkið er að við náum að búa í sátt og samlyndi, vinnum saman að sameiginlegum markmiðum og gildum.

Við getum notað þennan þjóðhátíðardag til að hugsa um þennan fagra þráð milli lands og þjóðar og hvað við sem einstaklingar, í okkar eigin mætti, getum gert til þess að bæta samfélagið á einhvern máta. Það gerum við með því að líta inn á við, finna styrkleika okkar, tengjast hjörtum annarra og spinna saman litríkan og traustan þjóðarþráð til framtíðar. Saman myndum við sterka heild og gott samfélag.

Gleðilega þjóðhátíð.

Málefni útlendinga sett í biðflokk

Jón Gunnarsson Dómsmálaráðherra

Ákveðið hefur verið að fresta frek­ari umræðu um útlend­inga­mála­frum­varp Jóns Gunn­ars­sonar dóms­mála­ráð­herra til haust­þings, en dóms­mála­ráð­herr­ann hefur sagt að hann hafi ákveðið að fresta frum­varp­inu til þess að liðka fyrir samn­ingum um þing­lok.  Þrír stjórn­ar­and­stöðu­flokk­ar, Sam­fylk­ing­in, Við­reisn og Flokkur fólks­ins, fram ítar­legar breyt­ing­ar­til­lögur við frum­varp ráð­herra eftir að ráð­herra óskaði eftir því að fá efn­is­legar athuga­semdir sem liðkað gætu fyrir samn­ingum um frum­varp­ið, en sam­kvæmt frétt RÚV kom ráð­herr­ann með til­lögur á móti sem þing­flokk­arnir þrír sættu sig ekki við.

Þetta frumvarp snýr meðal annars að flutningi þjónustu milli ráðuneyta. Breytingarnar munu greiða fyrir málsmeðferð og auka skilvirkni við afgreiðslu umsókna um vernd hérlendis og færa reglur nær þeim sem í gildi eru á Norðurlöndunum. Samstaða hefur verið um frumvarpið meðal ríkisstjórnarflokkanna og var vonast til að það yrði að lögum nú í vor. En reyndin var önnur.

Málið snýst nú um ólöglega hælisleitendur sem höfðu áður fengið hæli í öðrum Evrópulöndum en neituðu að framfylgja sóttvarnarlögum á Íslandi, svo ekki möguleiki á að flytja þá úr landi á þeim tíma. Afgreiðsla umsókna flóttafólks tekur langan tíma og hefur fjöldi umsækjenda sem rétt eiga á þjónustu tvöfaldast frá því í byrjun mars og eru það nú 1.400 manns.. 

Nýlega kom fram, að hælisleitendur sem Íslendingar hafa veitt hæli eru nú um 25 á hverja 10.000 íbúa landsins. Næsta þjóð er Svíþjóð með 7,6 á hverja 10.000 íbúa og síðan Danmörk og Noregur með í kringum 3 á hverja 10.000 íbúa. Finnland var ekki talið með enda er sennilega stuðulinn hjá þeim í kringum 0.

Það er að öllum líkindum orðið útbreidd vitneskja í Afríku og Mið-Austurlöndum að það skuli vera til þjóð norður í dumbshafi sem tekur á móti öllu fólki og ber það á höndum sér. Fólk fái húsnæði, laun og það besta væri að það þyrfti aldrei að vinna. Samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna eru um 400 milljónir manna sem eru lagðir af stað eða íhuga að gerast hælisleitendur. Hvert geta Íslendingar farið þegar búið er að fylla landið af hælisleitendum og ríkissjóður komin á svipaðan stað og sá í Venezúela? Það eru nægar flugsamgöngur til að moka 20.000 flóttamönnum á dag til landsins. Eftir 100 daga væru komnar 2 milljónir sem allir fengu fæði og húsnæði á kostnað ríkisins. Og ef það er ekki nóg eru 200 milljónir í viðbót þarna úti sem gjarnan mundu vilja fá það líka. 

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur lagt mikla vinnu í þetta frumvarp um útlendingamál með það fyrir augum að flýta fyrir afgreiðslu umsókna, gera umsóknarferilinn skilvirkari og réttlátari. Hingað til hafa ríkisstjórnarflokkarnir sýnt frumvarpinu stuðning og gerðar hafa verið breytingar á frumvarpinu til að koma til móts við athugasemdir stjórnarandstöðunnar m.a. til að flýta fyrir afgreiðslu frumvarpsins og greiða fyrir þinglokum. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að standa þétt að baki dómsmálaráðherra í þessu mikilvæga máli og löngu tímabæru breytingum til hins betra.

Mogginn kýlir formann xD kaldan í Orkupakkamálinu

Forysta xD nýkjörin

Úr leiðara MBL 20. febrúar 2022:

Orkukreppa Evrópu – Orkukreppa Evrópu setur orkupakka á rétt ljós

“Formaður Sjálfstæðisflokksins gladdi flest flokkssystkini sín stórlega þegar hann lýsti því yfir, úr ræðustól Alþingis, sem óskiljanlegu rugli, ætluðu menn sér að samþykkja orkupakkamálið.
Flokksmenn voru alls hugar fegnir, og uggðu því ekki að sér fyrir vikið, þegar ekkert reyndist að marka gleðiefnið.
Þetta er eitt af þeim stjórnmálalegu undrum sem ekki hafa verið útskýrð. En það er þó ekki brýnast heldur hitt að snúa af þessari ólánsbraut og lagfæra það sem skemmt var í fullkomnu heimildarleysi af óheilu undirmálsliði.”

Ekki er úr vegi að rifja upp ályktun 43. landsfundar Sjálfstæðisflokksins árið 2018 en landsfundur fer með æðsta vald í málefnum flokksins og þar er stefna hans mótuð af um tólfhundruð fulltrúum.

Í ályktun Atvinnuveganefndar segir orðrétt: “

Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.

Hvað boðar nýárs blessuð sól?

Nýjárskveðja frá FUS- Félagi sjálfstæðismanna um fulleldismál


Kæru vinir við óskum ykkur gleðilegs árs og þakka liðin.

Fáa hefði órað fyrir því í ársbyrjun 2021, að við mundum glíma við Covid-19 veiruna út árið með sama hætti og árið á undan. Á tímum samkomutakmarkana auk annarra sóttvarnarráðstafana er erfitt að halda úti eðlilegu félagsstarfi. Það hefur svo sannarlega bitnað á okkur í Fullveldisfélaginu. Fundi og ráðstefnur hafa verið undirbúin, en urðu að engu. Sú vinna er þó ekki unnin fyrir gíg hugmyndirnar og tillögurnar bíða þess eins að unnt verði að hrinda þeim í framkvæmd.

Fullveldisfélagið hefur þó unnið ákveðna áfangasigra. Félagið hefur fengið fulla viðurkenningu innan raða Sjálfstæðisflokksins og fleiri og fleiri úr forustuliði flokksins koma fram og samsama sig með þeim sjónarmiðum og gildum, sem við höldum fram og berjumst fyrir. Án Fullveldisfélagsins er hætt við að stefna Sjálfstæðisflokksins hefði í nokkrum málum orðið önnur en raunin varð.

Margir hafa agnúast út í félag fullveldissinna og fundið því margvíslegt til foráttu. Í sjálfu sér er það eðlilegt. Við berjumst fyrir ákveðnum sjónarmiðum m.a. því grundvallarmarkmiði, að ætíð sé gætt að fullveldi þjóðarinnar í samskiptum við erlendar þjóðir og fjölþjóðasamtök.

Nú þegar veiran geisar sem aldrei fyrr í landinu kann ýmsum að finnast það bjartsýni, að telja, að fljótlega á nýja árinu megi búast við því, að við verðum komin úr heljartökum veirunnar og eðlilegt mannlíf og persónufrelsi ráði ríkjum á nýjan leik. En þannig verður það vonandi.

Við höfum þá mikið verk að vinna. Við verðum að gæta að því að ekki verði gefið eftir sérstaklega í sambandi við samstarf okkar innan EES, þar sem að Evrópusambandið seilist stöðugt til meiri áhrifa bæði í aðildarríkjum sínum, en einnig í EES ríkjunum. Íslenskir stjórnmálamenn og baráttufólk í pólitík eins og við verðum því að vera stöðugt á varðbergi og svo kann að vera, að bæði okkur og Norðmönnum henti betur önnur umgjörð utan um samstarf okkar við Evrópusambandið en EES samningurinn.

Við gerðumst aðilar að EES til að geta átt góð viðskipti við Evrópusambandsríkin og létt yrði af hömlum og ýmsum takmörkunum, sem hafa verið milli landanna. En við vorum ekki að gefa frá okkur lagasetningarvald eða rétt til að hafa aðrar skoðanir og sjónarmið en Evrópusambandið. Við verðum því að gæta okkar og gera kröfur til þess, að hvorki í EES samstarfinu né öðru ríkjasamstarfi verði íslensk þjóð og frelsi hennar öðrum þjóðum háð.

Ágætu félagar við óskum ykkur og fjölskyldum ykkar góðs og heillaríks komandi árs

Baráttukveðjur

Stjórn FSF – Fullveldisfélags Sjálfstæðismanna