Höldum í heiðri fullveldi okkar í orkumálum Íslands. Hugsum sjálfstætt!

Elinóra Inga Sigurðardóttir:

Umsögn til Alþingis um 777. mál, þingsályktunartillaga, 149. löggjafarþings: Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (25. apríl 2019)

„Játast aldrei undan því sem vér vitum að er réttur í þessu landi og réttur þessa lands:
Það er sjálfstæði.“

Halldór Laxness, 1. desember 1955 (ref.1)

Ágæti alþingismaður
Í fyrsta skipti í sögu íslenska lýðveldisins stendur Alþingi Íslendinga frammi fyrir þeirri erfiðu
ákvörðun hvort afsala skuli yfirráðum landsmanna yfir einni helstu auðlind landsins, orkuauðlindinni og þeirri afurð sem er henni nátengd, raforkunni til erlends ríkjasambands.

Elinóra Inga Sigurðardóttir

Í ljósi 100 ára afmæli fullveldis Íslands er þetta illskiljanlegur harmleikur. Hvað rekur ráðamenn þjóðarinnar til að fremja slíkt spellvirki? Ljóst er, að vissir stjórnmálaflokkar hafa lengi barist fyrir innlimum Íslands í Evrópusambandið (ESB), sem er ríkjasamband 28 aðildarlanda, sem telja yfir 300 milljón manna. Þingmenn þessara flokka hafa róið að því öllum árum að innlima Ísland í ESB með öllum þeim fórnum sem því myndi fylgja. Það er því skiljanlegt út frá þeirra sjónarhorni að þeim þyki sjálfsagt að taka þátt í þeim fórnardansi, sem afsalar okkur yfirráðum yfir orkuauðlindinni, sem og öðrum auðlindum svo sem fiskimiðunum. ESB er ekki alþjóðleg stofnun og hefur ekkert með alþjóðasamvinnu að gera, eins og stundum er haldið ranglega fram.

Hitt er hins vegar algjörlega óskiljanlegt, hvers vegna það eru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem nú hafa frumkvæðið að slíku framsali. Þegar Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sameinuðust árið 1929 undir merkjum nýs flokks, Sjálfstæðisflokksins, var kveðið á um tvö meginatriði sem flokkurinn skildi hafa að leiðarljósi. Annars vegar var því lýst yfir að undanbragðalaust yrði að vinna að því að landið yrði sjálfstætt þegar skilyrði væru til þess samkvæmt sambandslögunum. Hins vegar sagði að flokkurinn ætlaði:

Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.”



Þetta eru þau grunngildi Sjálfstæðisflokksins og sjálfstæðisstefnunnar sem hafa laðað marga að þátttöku í flokknum allt frá stofnun hans.

Á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins í mars 2018 var eftirfarandi ályktun atvinnuveganefndar samþykkt einróma:

„Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.“ (ref. 2)

Fullveldishugsjónin er sterk meðal þjóðarinnar og einkum hjá þeim sem kosið hafa að fylgja merkjum fálkans í Valhöll. Hreiðrið hans er nú að tæmast en eftir liggja fúlegg sjálfstæðisbaráttunnar, brotinn vinstri vængur og rautt rjúpuhjarta, sem enn er í dauðateygjunum og sem verður vart lífgað við. Íslensk náttúra andvarpar af sorg.

Þriðji orkupakki ESB, sem nú er til umræðu á Alþingi felur m.a. í sér reglugerð nr. 713/2009. Í ítarlegri greinargerð lögmannanna Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst kemur m.a. fram, „að með 8. gr. reglugerðarinnar er orkustofnun ESB, Agency for the Cooperation of Energy Regulators (ACER), m.a. falið vald til að taka vissar ákvarðanir sem varða flutningsvirki sem flytja raforku milli ríkja sem mynda sameiginlegan raforkumarkað ESB. Verði þriðji orkupakkinn innleiddur hér á landi verður ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar falið vald til að taka ákvarðanir um skilyrði og skilmála fyrir aðgangi að grunnvirkjum yfir landamæri verði slíkum grunnvirkjum á annað borð komið á fót hér á landi. Slíkar ákvarðanir ESA geta m.a. lotið að því hvernig flutningsgetu er úthlutað milli raforkufyrirtækja og notenda hér á landi og annars staðar á EES-svæðinu, sem og fleiri atriðum er snerta grunnvirki yfir landamæri.

Verði 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009 tekin upp í EES-samningsins og innleidd í íslenskan rétt í óbreyttri mynd mun reglugerðarákvæðið fela í sér framsal framkvæmdarvalds til ESA sem ella væri á hendi íslenskra stjórnvalda. Verður ESA þá falið vald til að taka ákvarðanir sem munu binda íslensk stjórnvöld að landsrétti og munu um leið varða hagsmuni mikilsverða raforkufyrirtækja og notenda raforkukerfisins beint og óbeint. ACER myndi einnig hafa umtalsverð áhrif á efni ákvarðana ESA. Umræddar ákvarðanir ESA lúta að nýtingu takmarkaðrar auðlindar sem felst í raforkuflutningsgetu um grunnvirki yfir landamæri. Ekki eru fordæmi fyrir slíku valdframsali til alþjóðlegra stofnana á grundvelli EES-samningsins.” (ref.3)

Ekki eru fordæmi fyrir slíku valdaframsali segja lögmennirnir. Hér er um að ræða framsal á löggjafar-, framkvæmda- og dómsvaldi yfir orkumálum Íslendinga til stofnana ESB. Þetta er sá raunveruleiki sem blasir við Alþingi í dag. Þetta er algjörlega á skjön við skoðanir meirihluta Íslendinga, sem hafa sýnt það í endurteknum skoðanakönnunum að þeir eru andvígir inngöngu í ESB og frekara valdaframsali til yfirþjóðlegs valds og erlendra ríkja eða ríkjasambanda.

Ég hvet því Alþingi til að segja NEI við innleiðingu 3. Orkupakka ESB í íslensk lög. Vísum málinu til sameiginlegu EES nefndarinnar þar sem samið verður um undanþágur fyrir Ísland í orkumálum þjóðarinnar. Samþykki Alþingi innleiðingu 3. orkupakka ESB í íslensk lög nú,
mun það grafa undan EES-samningnum því þjóðin mun þá fyrst rísa upp gegn honum vegna vanmáttar hennar gegn þeim lýðræðishalla, sem hlýst af endalausum sjálfkrafa og ófyrirsjáanlegum innleiðingum á reglugerðum og tilskipunum ESB í gegn um EES-samstarfið.

Tímabært er að þjóðin verði spurð réttrar spurningar: „Vilt þú ganga í ESB?“

Höldum í heiðri fullveldi okkar í orkumálum Íslands. Hugsum sjálfstætt!

Reykjavík, Sumardaginn fyrsta, 25. apríl 2019
Virðingarfyllst,

Elinóra Inga Sigurðardóttir (sign)
Forstjóri Elás ehf, formaður Orkunnar okkar og Kvenn, kennari, nýsköpunarráðgjafi,
þáttagerðarmaður, í framkvæmdastjórn IFIA, hjúkrunarfræðingur og jarðfræðingur B.S.

Heimildir:
(ref.1):
Halldór Laxnes
(ref.2):
Ályktun Landsfundar 2018
(ref.3):
Texti Alþingis

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *