Réttinn ber að virða

Réttur Íslands til að fullgilda ekki einstakar tilskipanir er ekki feimnismál

Ritstjórnargrein Mbl þ. 15. febrúar 2023:

Hin dálítið skrítna trú á manngert veður, sem er næsta nýtilkomin og menn hafa fundað um á nærri 30 loftslagsráðstefnum um heimsendi handan við hornið er smám saman að verða að raunverulegu vandamáli. Þá er ekki átt við hjalið um loftslagið, sem er ekki skaðlegra en umræður um álfa og tröll voru áður fyrr.

Halldór Laxness sagði í einni smásögu sinni af manni sem var svo vel undirbúinn að hann gekk með gerviauga í vasanum til að geta hrætt lítil börn, kæmi sú nauðsyn upp. Og auðvitað má hafa brúk í loftslagsmálum fyrir þá sem nærast á óttanum þótt undarlegur sé. En auðvitað þurfa burðugir fyrirsvarsmenn þjóða að ýta dellunni út í sitt horn, sé hún komin í ógöngur og að auki farin að skattleggja mannkynið til að standa undir aðgerðum sem engu breyta. Góð og vönduð umgengni við umhverfið er mál sem sérhver góður maður vill leggja lið. Fáir vilja muna óvitaganginn um ógnina miklu um ósonlagið þar sem „svitabrúsar“ höfðu gert atlögu að mannkyninu og með þeim ýtt heiminum út á ystu brún og lífi á jörðinni „í forbífarten“. Séðir menn þess tíma vildu ekki karpa við „vísindamennina“ sem höfðu lifað sig inn í ógnina og var því brúsum breytt í krem, og þeir fengu að halda í „sannleikann“ og eina ráðstefnu árlega í Kanada sem staðfesti að allt væri á réttri leið. Þær eru enn haldnar þótt engar fréttir berist frá þeim.

Enn hafa sárafáar þjóðir axlað ábyrgð á hinum nýju trúarsetningum, nema helst nokkur ríki í kjarna Evrópu. Almenningur í Bandaríkjunum setur „eyðingu mannkyns“ í 20. sæti yfir mál sem þarf að kíkja á af alvöru. Og það sýnir mikinn áhuga sé miðað við afgangsstærð heimsins, litlu fámennu löndin Kína, Rússland, Indland, Afríku sem heild, Suður-Ameríku, og miðríkin þar, og Indónesíu, Víetnam og Filippseyjar og Pakistan svo nokkur „smálönd“ séu nefnd af handahófi, sem gera ekkert með dánartilkynningu mannkyns á 27 árlegum ráðstefnum, sem sóttar eru af ríkisbubbunum á einkaþotunum og „samninganefndum“ frá þjóðunum. Þannig fór fjölmenn sendinefnd Reykjavíkur til Parísar og stundaði ráðstefnuhjal í tvær vikur! Ekki hefur verið birt hvað það ball kostaði.

Umburðarlyndið er enn mikið, þótt sífellt sé sótt meira fé í „gerviverkefni“ til að bjarga heiminum. Og eins gagnvart Íslendingum sem hafa fyrir löngu náð þeim „markmiðum“ sem aðrir bisa við að ná. Íslendingar náðu þeim markmiðum árið 1992 þegar vitleysan byrjaði og því voru engar áhyggjur hér. En á daginn kom að „embættismenn“ hér með stjórnmálamenn í taumi töldu sig ekki fá að gráta með hinum nema litið yrði fram hjá íslenskum staðreyndum. Þeir knúðu á um að árangur þjóða sem náðist fyrir 1992 teldist ekki með. Og íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki kjark, til að losa sig út úr lönguvitleysu.

Það kostar þjóðina sífellt meir, sem hefur nóg með yfirgengilegar ógöngur í „útlendingamálum“. Ný dæmi tengd „heimshlýnun“ birtast í sífellu. Bogi Nils Bogason benti nýlega á að það hefði slæm áhrif á samkeppnishæfi Keflavíkurflugvallar sem alþjóðlegrar tengimiðstöðvar, yrði kerfi ESB, fyrir viðskipti með heimildir til losunar á gróðurhúsalofttegundum, tekið upp í EES-samninginn án þess að Íslandi yrðu veittar undanþágur. „Vegna landfræðilegrar legu Íslands bitnar þetta, ef af verður, verr á tengimiðstöðinni í Keflavík en öðrum tengimiðstöðvum sem hún keppir við,“ segir Bogi Nils.

Rétt er því að krefjast undanþágu og fáist hún ekki, á Ísland ekki að fullgilda tilskipunina. Slíkur réttur var forsenda þess að Ísland samþykkti EES-samninginn. Án þess fyrirvara stenst EES-samningurinn ekki stjórnarskrá Íslands og sjálfgefið að fella hann úr gildi.