Kundera og mikilvægi fáfengileikans

Þorsteinn Siglaugsson skrifar í Mbl

Þorsteinn Siglaugsson

“Þetta er alræði almenningsálitsins, alræði umburðarleysisins þar sem sérhvert frávik, brandari, illkvittnisleg athugasemd, ögrandi fullyrðing verður að ófyrirgefanlegum glæp. Þar sem einstaklingseinkennin, efinn og hugsunin, sem þrátt fyrir allt áttu sér athvarf í andófsritum, neðanjarðarleikhúsum, bröndurunum um yfirvöldin á tímum Stalínismans hljóta að láta endanlega undan, í samfélögum sem eru að sögn hin frjálsustu og lýðræðislegustu í sögunni en einkennast æ meir af dauðhreinsun á grunni andlegra lýðheilsusjónarmiða.”

Vestræn menning nútímans grundvallast á ákvörðunarvaldi hins hugsandi einstaklings sem efast, og á listsköpun sem endurspeglar einstaklingseinkenni hans.“ Milan Kundera, 1984. Sinfonietta tékkneska tónskáldsins Leos Janáceks leikur stórt hlutverk í lykilverki japanska rithöfundarins Harukis Murakamis, 1Q84. Þetta er verkið sem önnur aðalpersóna bókarinnar, líkamsræktarþjálfarinn Aomame, sem stundar morð á kynferðisbrotamönnum í tómstundum, hlustar á í leigubíl á hraðbraut í Tókýó rétt áður en hún klifrar niður stiga frá hraðbrautinni og lendir í undarlegum heimi 1Q84 þar sem tvö tungl skína á himni og rök og skynsemi hopa fyrir dulúð og furðuverum. Og verkið tengir hana og hina aðalpersónuna, Tengo Kawana; hvort um sig heillast þau af Janácek í hinum djúpa einmanaleika sem umlykur þau allt frá barnæsku og fram undir sögulok. Að sögn Murakamis voru það furðulegheit verksins sem ollu því að það varð lykilþáttur í skáldsögunni. Þetta er versta hugsanlega tónlistin sem hægt er að hlusta á í umferðarteppu sagði Murakami í viðtali árið 2011. Fimmtán trompetar hamast fyrir aftan hljómsveitina í hávaðasömu og dramatísku verki, sem fellur fullkomlega að súrrealískum söguheiminum. „Ég gæti ekki ímyndað mér neitt verk sem félli betur að þessari sögu,“ segir hann. Janácek samdi verkið á efri árum eins og Milan Kundera gerir grein fyrir í ritgerðasafninu Svikin við erfðaskrárnar sem út kom árið 1993, en á íslensku á síðasta ári, í þýðingu Friðriks Rafnssonar, hins ötula þýðanda og vinar Kunderas, sem eins og lesendum er væntanlega kunnugt féll nýlega frá, á 95. aldursári. Janácek var íhaldssamur lengst framan af, segir Kundera, en á efri árum varð hann sannkallaður framúrstefnumaður, módernisti. Og um síðir öðlaðist hann viðurkenningu, eða fremur, eins og Kundera segir, umbáru menn hann. Líkt og fleiri var hann ekki spámaður í eigin föðurlandi. Janácek var nánast óþekktur í Japan þegar skáldsaga Murakamis kom út, en í kjölfar þess öðluðust verk hans vinsældir. Þannig tengist heimurinn gegnum listina, á óútreiknanlegan og ófyrirsjáanlegan hátt. Og þannig tengjast tveir gjörólíkir rithöfundar, annar í öruggu og einsleitu samfélagi Japans, hinn í hinni ótryggu Mið-Evrópu þar sem þjóðir samlagast, blandast, hverfa og verða aftur til í sífellu.

Lestu áfram