AFSAL Á STJÓRNUN AUÐLINDA OG AUÐLINDUNUM SJÁLFUM – Orkupakkar ESB

Kári skrifar:

Nei við ACER!

Reglan um varanlegt fullveldi fólks og ríkja yfir náttúruauðlindum tók að festast í sessi, sem ný regla í alþjóðarétti, eftir lok seinni heimsstyrjaldar, eða eftir 1945.[i] Ályktanir og ákvarðanir eru formleg tjáning á skoðunum eða vilja innan stofnana Sameinuðu þjóðanna. Margs konar ályktanir um fjölbreytileg efni hafa verið samþykktar af helstu stofnunum Sameinuðu þjóðanna og undirstofnunum þeirra frá stofnun árið 1945.[ii]

Almennt er litið svo á að ályktanir og samþykktir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, samkvæmt VII. kafla stofnsáttmála þeirra, séu bindandi í samræmi við 25. grein sáttmálans. En fræðimenn greinir á um lagalegt gildi annara ályktana og samþykkta.[iii] Þá er eftirfylgni [enforcement] oft háð sömu annmörkum og margt annað í alþjóðakerfinu.

Árið 1962 samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktun 1803,[iv] um fullveldi ríkja yfir náttúruauðlindum sínum. Í 1. gr. ályktunarinnar segir: „Rétti fólks og þjóða til varanlegs fullveldis yfir náttúruauðæfum sínum og auðlindum verður að beita í þágu innlendrar þróunar og velferðar almennings í hlutaðeigandi ríki.“[v]

Nú ber hins vegar svo við að íslenskir stjórnmálamenn, margir hverjir, ólmast við að koma íslensku fullveldi yfir auðlindum, og fullveldinu almennt, undir erlenda stjórn. Til þess hafa þeir m.a. keypt álit, frá misjafnlega vel jarðbundnu fólki, sem segir ekkert að óttast – að bæði sé hægt að gefa frá sér hlut en þó eiga hann áfram. Það má kalla lögfræðilega tvíhyggju. Mótsagnarlögmál rökfræðinnar gildir ekki hjá þeim álitsgjöfum sem þannig tala.

Fullveldisrétturinn

Sumir ráðherrar eru svo óforskammaðir að tala um það í eldhúsdagsumræðum að þjóðin hafi enn fulla stjórn á eigin auðlindum, enda þótt við blasi að sömu ráðherrar stóðu einmitt sjálfir að framsali stjórnunar þeirra úr landi með innleiðingu orkupakka þrjú. Slík er ósvífni og ófyrirleitni þessa fólks. Það lætur enn eins og ákvarðanir þess hafi engin áhrif, beitir sífelldum blekkingum og reynir að afvegaleiða kjósendur. Innleiðing orkupakka þrjú felur í sér afsal fullveldisréttar yfir íslenskum orkuauðlindum, einkum til ACER, orkustofnunar Evrópu, en þar liggur þó mun meira undir. Enn fyrirfinnst fólk sem annað hvort skilur ekki eða vill ekki skilja þetta. Það birtist svo í pontu Alþingis og talar þar eins og álfur út úr hól.

Áframhald af greininni