Orkulaus náttúruvernd

Jónas Elíasson skrifar (visir.is)

Varaaflsskortur

Jónas Elíasson prófessor

Nú er orkuskortur í landinu og verður viðvarandi næstu 4 – 5 árin að líkum lætur. Kerfið er eins og sjómenn kalla það „á tampi“, varla má bila vél án þess að skerða þurfi orkuafhendingu. Þetta kemur orkufyrirtækjunum ekkert illa. Þeim gefst tækifæri til að loka á þá sem eru á lægstu töxtunum og hækka þannig meðalverðið í sölunni. Þetta er þjóðhagslega óhagkvæmt og slæmt fyrir loftslagið, því jarðefnaeldsneyti kemur í stað hinnar hreinu íslensku orku. Nú þurfa loðnubræðslur að brenna 20.000 tonnum af olíu af því að þær fá ekki rafmagn.

Stjórnvöld hafa í gegn um tíðina þurft að beita töluverðum þrýstingi á orkufyrirtækin til að fá þau til að virkja, jafnvel ríkisfyrirtækið Landsvirkjun dregur lappirnar þegar kemur að því að byrja á næstu virkjun, tólf ár eru síðan byrjað var á síðustu virkjun hefur sá tími ekki orðið jafn langur áður. Einangrað orkukerfi eins og Ísland þarf varafl, en það er uppurið eftir þessi tólf ár. Þetta hefur ríkisstjórnin látið gott heita, nú er frekar treyst á ferðamenn en orkuiðnað til að halda uppi þjóðarbúskapnum, og ekki má gleyma því að gróði orkufyrirtækja er mestur meðan ekkert er byggt. Hinir síblönku félagar, ríkiskassinn og Reykjavíkurborg, hefur lapið upp arðgreiðslur frá orkufyrirtækjum sínum þó þá muni ekkert um þetta lítilræði, án tillits til þess að í orkuskorti tapar þjóðarbúið 10 – 20 földu því verðmæti sem orkan kostar.

Pólitísk uppgjöf fyrir þrýstihópum

Þetta ástand má kalla „de facto“ pólitíska uppgjöf fyrir samtökum í umhverfis og náttúruverndargeira sem búin eru að vera suðandi um skaðsemi allra framkvæmda sem skerða ósnerta náttúru, að þeirra eigin óskeikula mati. Þeir ímynda sér að náttúran eigi um aldur og ævi að vera eins og hún var daginn sem þeir fermdust. Gallinn er auðvitað sá að þeir fermdust ekki allir sama daginn og hvernig á náttúran þá að vera ?

Lestu meira

Ályktun FSF vegna stjórnarmyndunarviðræðna

Frá Félagi Sjálfstæðismanna um Fullveldismál

Ný ríkisstjórn Íslands þarf að takast á við fjölþættan vanda ekki síst vegna þeirra víðtæku áhrifa og þess gríðarlega kostnaðar, sem Covid-19 faraldurinn hefur haft fyrir þjóðarbúið. 

Sjálfstæðisflokkurinn verður að gæta þess í stjórnarmyndunarviðræðum og í starfi að hafa ætíð í heiðri ályktanir landsfunda Sjálfstæðisflokksins einkum hvað varðar frelsi einstaklingsins og fullveldi íslensku þjóðarinnar. Í því sambandi er nauðsynlegt að taka EES samninginn til endurskoðunar á þessu kjörtímabili.

Til þess að Ísland verði raunverulegt land tækifæranna er grundvallaratriði, að borgararnir fái sem mest frelsi til arðsköpunar, skattar verði í lágmarki og auðlindir landsins verði nýttar til arðsköpunar í sátt við eðlileg verndarsjónarmið, þannig að ekki verði gengið á landsins gæði til tjóns fyrir komandi kynslóðir. 

Í stjórnarmyndunarviðræðum  nú er því nauðsynlegt að vikið verði af þeim vegi friðunar nánast allra staða sem bjóða upp á hefðbundna orkunýtingu og hefur leitt til þess að sumir landshlutar búa við ótryggt og óviðunandi ástand í orkumálum. 

Horfast verður í augu við það að aðgerðaráætlun ríkisins í loftslagsmálum stenst ekki og mun stofna til gagnslausra fjárfestinga, sem leggja óbærilegar byrðar á neytendur og atvinnulíf á komandi árum, þannig að ólíklegt er, að Ísland verði ”land tækifæranna” verði henni fylgt eftir. Ísland þarf að öðlast viðurkenningu á framlagi sínu til loftslagsmála, sem felst í málmbræðslu með hreinni orku. Eigi að kaupa losunarkvóta til áframhaldandi iðnaðar á þessu sviði eru orkulindir á Íslandi nánast verðlausar.

Taka verður skipulag heilbrigðismála til gagngerrar endurskoðunar og gera þær breytingar sem eru nauðsynlegar til að nýta þjónustu verktaka og annan einkarekstur til að gera gott kerfi fjölbreyttara, öruggara og betra fyrir þá sem þurfa á þjónustu þess að halda. Hefjast skal strax handa við að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús á nýjum stað. Stórbæta þarf aðgengi landsbyggðarinnar að heilbrigðisþjónustunni. 

Nauðsynlegt er að við nýtum okkur sjávarútvegsauðlindina í meira mæli en gert hefur verið á undanförnum árum. Eftir rúmlega 40 ára ákveðnar friðunaraðgerðir sem hafa ekki skilað þeim árangri, sem til var ætlast er full ástæða til að skoða frekari markaðsvæðingu í sjávarútvegi,  rýmkun aflaheimilda sérstaklega á grunnslóð og aukinn sveigjanleika í úthlutun aflaheimilda.

Sjálfstæðisflokkurinn verður að móta ákveðna stefnu í næstu ríkisstjórn um nauðsynlegar breytingar til að auðvelda ungu fólki að eignast eigin íbúð án þess að það þurfi að sæta félagslegu skömmtunar- og eða leigukerfi. Sú stefna Sjálfstæðisflokksins, sem var einn hornsteinn félagsmálastefnu flokksins um áratuga skeið, að auðvelda ungu fólki að verða eignafólk er mikilvæg og hana verður að endurvekja m.a. með því að frumkvæði og kraftur unga fólksins verði leystur úr læðingi og sé virkjaður með einstaklingsbundnum lóðaúthlutunum í stað þess að lóðaúthlutanir verði aðallega eða nánast eingöngu til stórra byggingaraðila.

Gæta verður þess, að innflutningur fólks verði ekki óhóflegur, til að komast hjá samfélagslegum óstöðugleika og þeirri hættu að þjóðfélagsgerð okkar raskist í grundvallaratriðum eins og raunin er í ýmsum nágrannalöndum okkar. Gera verður kröfu til þeirra, sem flytja búsetu sína til landsins, að þeir læri íslensku og fái fræðslu um sögu landsins og grundvallaratriði íslenskrar þjóðmenningar.

 Bregðast verður við óhóflegum áhuga erlendra auðmanna til að kaupa jarðnæði og auðlindir á Íslandi með því að skerpa á allri sýn, löggjöf og reglum, sem varða eignarhald á landi og auðlindum. Stjórnvöld þurfa að og að endurskoða lög um auðlindir í jörðu

Á sama tíma og gert verið átak til að tryggja ungu fólki farsæld og góða möguleika í lífinu þá verði brugðist við réttmætum og sanngjörnum kröfum eldri borgara til að  ná því grundvallarmarkmiði lýðræðisþjóðfélags, að sátt verði með kynslóðunum og velferð bæði æsku og elli tryggð með viðunandi hætti. Þá verði þess gætt, að framtak og vinnusemi fólks nýtist samfélaginu, en með því væri stigið skref til þess,  að Ísland verði land tækifæranna. 

Gera þarf stórátak í samgöngumálum, ekki síst á Stór-Reykjavíkursvæðinu og tryggja að íbúarnir hafi frjálst val um þá samgöngumáta sem hentar þeim best.

Tryggt verði að skipulagsákvarðanir og framkvæmdir einstakra sveitarfélaga tefji ekki samgöngur um þjóðvegakerfi landsins óhóflega með tilheyrandi kostnaði fyrir neytendur.

Nýsköpun, framsækni og dugnaður er forsenda velmegunar í samkeppnisþjóðfélagi eins og okkar og Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur íslenskra stjórnmála, sem ber skyldu til þess að einstaklingurinn fái jafnan að sýna það sem í honum býr og njóta eigin arðsköpunar.

Samþykkt á stjórnarfundi Félags sjálfstæðismenna um fullveldismál haldinn í Valhöll þ. 9. október 2021