Orkupakkar og orkustefna

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is) skrifar pistil á Mbl.is:

Vatnsaflstöð við Búrfell

Um alla vestur Evrópu kvíðir fólk vetrinum í kjölfar hitasumars. Við blasir að orkukostnaður hefur farið upp úr öllu valdi síðan stríðið í Úkraínu hófst og Vestur-Evrópa var gripin í bólinu með orkustefnu sína. Allt á þetta samhljóm í umræðunni um þriðja orkupakkann sem varð fyrirferðamikil hér á tímabili. Samhæfðir markaðir með orku hefðu átt að henta Vestur-Evrópu en gera það ekki í þessu ástandi, orkuverð fer upp úr öllu valdi, almenningur þjáist og Íslendingar geta þakkað fyrir að vera ekki hluti af þessum markaði. En er rekinn áróður í nafni EES samningsins um að gera Íslendinga hluta af þessu fyrirkomulagi með lagningu sæstrengs. Eitt af helstu markmiðum orkustefnu ESB er að koma á tengingum á milli orkusvæða (landa).

Í Evrópu eru nú sagðar hryllingssögur af orkuverðshækkunum og í Bretlandi eru komnir af stað undirskriftalistar þar sem fólk hótar að hætta að greiða orkureikninga og krefja stjórnvöld um aðgerðir. Íslendingar með tengsl út í Evrópu segja af þessu sögur í spjalli sín í milli. „Ég heyri frá vinafólki sonar míns að hitakostnaður fyrir frekar litla íbúð í London hafi meir en fjórfaldast á góðu ári (úr 60 pundum í 260 á mánuði),“ sagði einn netverjinn í vikunni. Sighvatur Bjarnason, sem rekur fyrirtæki í Lettlandi, sagði að rafmagnskostnaður í hans fyrirtæki þar í landi hefði í heild verið 252,6% hærri en á síðasta ári. „Í dag þurfum við að hættra framleiðslu kl 17:00 vegna þess að frá kl 18 til 19 fer kostnaðurinn í 4 EUR á KW.“ Hann lýkur orðum sínum með eftirfarandi ályktun: „Það er skynsamlegra fyrir Ísland að ganga úr EES en að missa yfirráðin yfir orkuauðlindunum. Þetta er það sem koma skal og mun eingöngu versna.“

Orkuverið í Svartsengi

Orkufrek starfsemi í samdrætti

Víða í Evrópu er verið að draga saman raforkufreka framleiðslu og í sumum tilvikum hefur iðnaðarframleiðsla stöðvast eða reynt að bregðast við á annan hátt. Orkufrek framleiðsla er keyrð á næturnar þegar orka er að jafnaði ódýrari en það hefur mikil óþægindi í för með sér fyrir starfsfólk og launakostnaður eykst á móti. Engin vill þurfa að búa við það til framtíðar og augljóslega hefur ástandið áhrif á landsframleiðslu viðkomandi landa.

Stjórnvöld hafa víða þurft að bregðast harkalega við og norska Stórþingið var kallað inn úr sumarleyfi vegna hins skelfilega ástands í raforkumálunum sem þar hefur ríkt. Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (Agency for the Cooperation of Energy Regulators, skammstafað ACER) hefur núna yfirstjórn yfir allri raforkunni þar í kjölfar þess að Norðmenn hafa tengt sig innri markaði, meðal annars í gegnum sæstrengi, og það er lítið sem norsk stjórnvöld hafa að segja um það fyrirkomulag. Uppistöðulónin eru við það að tæmast og vegna hins himinháa verðlags á raforkunni þarf að niðurgreiða hana hjá bæði einstaklingum og fyrirtækjunum. Um leið eru Svíar eru að kikna undir háu raforkuverði í Suður-Svíþjóð sem er tengt raforkukerfi ESB.

Kaldur vetur eða breytt stefna

Já, það er eðlilegt að það sé þungt yfir mönnum í þessu ástandi. Við Íslendingar eru orkuframleiðendur og fáum nú hærra orkuverð út úr samningum sem tengdir eru heimsmarkaðsverði á meðan almennir neytendur verða ekki varir við miklar breytingar.

Allt þetta kallar á viðbrögð þó ólíklegt sé að unnt verði að bjarga vetrinum. Þjóðverjar viðurkenna núna að hafa gert afdrifarík mistök í stefnumótun sinni í orkumálum undir stjórn Angelu Merkel eins og kemur fram í Morgunblaðinu í vikunni. Evrópusambandið hefur breytt skilgreiningum á kjarnorku og jarðgasi, með þegjandi samþykki umhverfisverndarsinna, til að auðvelda notkun þessara orkugjafa eins og bent hefur verið á hér. Þjóðverjar reyna að finna leiðir til að halda kjarnorkuverum sínum opnum eða opna þau á ný. Það er tímafrekt að snúa við stefnunni.

Finnar hafa ákveðið að reisa nýtt 1600 MW kjarnorkuver, Olkiluoto 3. Finnskir fjölmiðlar segja að líkindi til þess að fjárfestingin verði öll endurgreidd á innan við áratug, miðað við orkuverð núna, það sýnir arðsemi fjárfestingarinnar. Það þarf ekki að taka fram að þetta er mjög jákvætt fyrir koltvísýringsbúskap Finna.

Arðsömustu fjárfestingar Íslendinga

Rætt er um að kjarnorkuver eins og Olkiluoto 3 geti framleitt rafmagn í 60 ár. Afskriftartími vatnsorkuvera eins og við eigum er í raun endalaus, mest af mannvirkjum, svo sem stöðvarhús, skurðir og stíflur geta enst marga mannsaldra og haldið áfram að skila hreinni og ódýrri orku. Þetta er staðreynd sem Landvernd er eð reyna að snúa út úr. Við Íslendingar höfum enn tækifæri til að styrkja orkubúskap okkar og reka hann svo að hann styðji við atvinnulíf, íþyngi ekki heimilum landsins og færi ríkissjóði mikilvægar tekjur. Það er öfundsverð staða.

https://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/sigurdurmar/2281705/

Orkulaus náttúruvernd

Jónas Elíasson skrifar (visir.is)

Varaaflsskortur

Jónas Elíasson prófessor

Nú er orkuskortur í landinu og verður viðvarandi næstu 4 – 5 árin að líkum lætur. Kerfið er eins og sjómenn kalla það „á tampi“, varla má bila vél án þess að skerða þurfi orkuafhendingu. Þetta kemur orkufyrirtækjunum ekkert illa. Þeim gefst tækifæri til að loka á þá sem eru á lægstu töxtunum og hækka þannig meðalverðið í sölunni. Þetta er þjóðhagslega óhagkvæmt og slæmt fyrir loftslagið, því jarðefnaeldsneyti kemur í stað hinnar hreinu íslensku orku. Nú þurfa loðnubræðslur að brenna 20.000 tonnum af olíu af því að þær fá ekki rafmagn.

Stjórnvöld hafa í gegn um tíðina þurft að beita töluverðum þrýstingi á orkufyrirtækin til að fá þau til að virkja, jafnvel ríkisfyrirtækið Landsvirkjun dregur lappirnar þegar kemur að því að byrja á næstu virkjun, tólf ár eru síðan byrjað var á síðustu virkjun hefur sá tími ekki orðið jafn langur áður. Einangrað orkukerfi eins og Ísland þarf varafl, en það er uppurið eftir þessi tólf ár. Þetta hefur ríkisstjórnin látið gott heita, nú er frekar treyst á ferðamenn en orkuiðnað til að halda uppi þjóðarbúskapnum, og ekki má gleyma því að gróði orkufyrirtækja er mestur meðan ekkert er byggt. Hinir síblönku félagar, ríkiskassinn og Reykjavíkurborg, hefur lapið upp arðgreiðslur frá orkufyrirtækjum sínum þó þá muni ekkert um þetta lítilræði, án tillits til þess að í orkuskorti tapar þjóðarbúið 10 – 20 földu því verðmæti sem orkan kostar.

Pólitísk uppgjöf fyrir þrýstihópum

Þetta ástand má kalla „de facto“ pólitíska uppgjöf fyrir samtökum í umhverfis og náttúruverndargeira sem búin eru að vera suðandi um skaðsemi allra framkvæmda sem skerða ósnerta náttúru, að þeirra eigin óskeikula mati. Þeir ímynda sér að náttúran eigi um aldur og ævi að vera eins og hún var daginn sem þeir fermdust. Gallinn er auðvitað sá að þeir fermdust ekki allir sama daginn og hvernig á náttúran þá að vera ?

Lestu meira