Frelsi þjóðarinnar er okkur afar dýrmætt

Úr viðtali við Vigdísi Finnbogadóttur á RÚV:

Spyrill RÚV:

„Að lokum Vigdís. Þú ert fjórtán ára gömul þegar lýðveldi var stofnað á Þingvöllum 1944. Hverjar eru minningar þínar frá þeim degi?“

Vigdís Finnbogadóttir:

„Ákaflega bjartar.  Við vorum öll svo hreykin af þessu frelsi og þessu sjálfstæði sem að við innsigluðum á Þingvöllum þennan dag við fórum austur í Steindórsrútu sem var farartæki þeirra tíma og og við vorum öll sparibúinn eða minnsta kosti með sparifötin í töskunni en það var svo mikill vatnsgangur við komumst aldrei í þessi fínu föt okkar en sjálf lýðveldistakan á Lögbergi verður öllum ógleymanleg sem þar voru staddir. Og við megum aldrei, aldrei gleyma því hversu dýrmætt það er að eiga þetta frelsi; mega segja allt upphátt, hugsa allt og vera við sjálf með okkur sjálfum.“

Vigdís Finnbogadóttir f.v. forseti Íslands í útvarpsviðtali á Rás 1, RÚV 26. júní 2022

Hér má hlusta á allt viðtalið í þættinum Reykjavík bernsku minnar, sem er afar fróðlegt

ESB – áróður á RÚV

Einu sinni enn

Staksteinar MBL 0104022
(ekki aprílgabb!)

Útvarp allra landsmanna?

Örn Arnarson ritaði meðal annars um umræðuþætti Ríkisútvarpsins í fjölmiðlarýni sinni í
Viðskiptablaðinu í gær. Þar nefndi hann tvö dæmi frá liðinni helgi þar sem málefni voru til umræðu en einungis fulltrúar annarrar hliðarinnar á staðnum.

Á Rás 1 var í Vikulokunum rætt um aðild Íslands að Evrópusambandinu „en nánast allur þátturinn snerist um af hverju þau mál öll sömul væru ekki nú þegar til lykta leidd. Sigríður Dögg Auðunsdóttir, þáttastjórnandi og formaður Blaðamannafélagsins, fékk til sín þrjá yfirlýsta stuðningsmenn Evrópusambandsaðildar til að ræða málið í þættinum. Þetta voru þau Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, Jón Steindór Valdimarsson, fyrrverandi þingmaður Viðreisnar og stjórnarformaður í samtökunum Já Ísland sem hafa barist fyrir aðild að ESB, og svo Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar.“

Örn rakti umræðurnar stuttlega og með ólíkindum er að lesa lýsingar hans á einhliða og undarlegum umræðum í þættinum. Óhætt er að mæla með að lesendur kynni sér þau skrif í Viðskiptablaðinu.

Ríkisútvarpið er rekið fyrir skattfé, auk auglýsinga, og skattinn greiða bæði stuðningsmenn og andstæðingar aðildar að ESB hvort sem þeim líkar betur eða verr. Og Ríkisútvarpinu ber samkvæmt lögum að gæta hlutleysis í umfjöllun. Því miður eru þrátt fyrir það fjölmörg dæmi til um einhliða áróður RÚV, Útvarpi allra landsmanna eins og glöggt kom fram verðandi 3. orkupakka ESB og enginn vilji virðist vera innan stofnunarinnar til að laga það. Nema síður sé.