Loftur skrifar
„Það er ekki bæði sleppt og haldið“ tönglast ESB-sinnar gjarnan á í umræðum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB). Draumur ESB-sinna er að ganga að fullu inn í regluverk ESB með öllu sem því fylgir. „Það er betra að sitja við borðið en úti á gangi“ er viðkvæðið. „Borðið“ er hins vegar svo stórt og á því liggja svo mörg flókin skjöl á útlensku að ESB-sinnarnir virðast hvorki hafa tíma né kunnáttu til að kynna sér efni skjalabunkanna til hlítar. Það vekur því litla furðu þegar fulltrúar ESB-flokkanna á Íslandi (sbr. leiðara Fréttablaðsins 19. mars 2022) sem hafa verrið óþreytandi við að hvetja til inngöngu í ESB í öðru orðinu skuli með hinu hvetja til niðurgreiðslu raforku til garðyrkjubænda. Hmmm…?. Eru þeir ekki í raunveruleikatengslum?
Raforkuverð í Evrópu
Verð á raforku í ESB, sérstaklega vistvænni raforku, er í dag umtalsvert hærra en á Íslandi og mun hækka enn meira á komandi árum. Orkupakkar ESB gera ráð fyrir tengingu raforkukerfa á milli landa. Því má vera ljóst að þegar raforkukerfi Íslands verður tengt við raforkukerfi ESB muni raforka frá Íslandi flæða til Evrópu þar til skilaverð til framleiðenda á raforku til innanlandsnota er orðið því sem næst jafnt því sem þeir fá fyrir sölu raforku til Evrópu. Þetta mun hafa geigvænlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir Ísland þar sem raforkuverð á Íslandi mun þá hækka bæði til fyrirtækja og heimila.
Niðurgreiðslur á raforku óheimilar í ESB
Framleiðendur raforku myndu ekki vilja ótilneyddir selja raforku á lægra verði til sumra notenda en annarra. Þar að auki myndi slíkt flokkast undir markaðsbrenglandi niðurgreiðslur og/eða verðmismunun sem er óheimil samkvæmt EES-ESB reglum. Innlendir raforkunotendur myndu stórtapa á samtengingunni við orkumarkað ESB. Búast má við að raforkunotkun á Íslandi myndi minnka vegna hækkandi orkuverð þar sem lágt orkuverð er forsenda ýmiss konar starfsemi. Ætla má að það sé einkum í tiltölulega orkufrekum iðnaði miðað við framleiðsluverðmæti eins og t.d. í ylrækt, garðyrkju, fiskimjölsverksmiðjum, rekstri gagnavera og svo auðvitað í svokallaðri stóriðju. Atvinnutækifærum sem byggjast á raforku mun þá fækka að sama skapi.
Áhrif sæstrengs
Samtenging íslensks raforkumarkaðs við evrópskan mun leiða til aukinnar raforkuframleiðslu á Íslandi þar sem raforkuframleiðendur geta þá selt mun meira magn en áður og á mun hærra verði. Þetta mun skapa þrýsting á að virkjað verði meira (vatnsföll, jarðhita og vindorka) til að mæta eftirspurninni í Evrópu. Samkvæmt bæði grunnreglum og sértækum reglum ESB skulu markaðsöflin ráða. Því er að öðru jöfnu óheimilt að hindra virkjanir og banna lagningu sæstrengja ef einkaaðilar vilja leggja í slíkar framkvæmdir. Slíkt myndi að öðru jöfnu flokkast undir skaðlegar markaðshindranir. Á þessu munu orkuframleiðendur hagnast því eftir samtenginguna geta þeir selt meira orkumagn á hærra verði. Hins vegar munu notendur raforku innanlands tapa verulega vegna hærra orkuverðs og hefur samtengingin (sæstrengur) því í för með sér breytta tekjudreifingu milli framleiðenda og notenda raforku. Ritstjóri Fréttablaðsins, Sigmundur Ernir hefur greinilega ekki kynnt sér alla skýrsluna. Íslenskir ólígarkar og rafgreifar bíða nú hins vegar spenntir eftir 4. orkupakka ESB.
ref.
Sérfræðiskýrsla samtakanna Orkunnar okkar um orkupakka ESB