Áhrif 3. orkupakka ESB á fullveldi Íslands í raforkumálum

Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur skrifar á blog.is:
(tilvitnun úr Staksteinum Mbl 5. nóvember 2021)

Orkuskortur teygir sig til Noregs

Bjarni Jónsson

„Nú geisar orkukreppa á Bretlandseyjum og á meginlandi Evrópu, og bera margir kvíðboga fyrir vetrinum, því að ekki munu allir geta staðið straum af orkureikningunum, þar sem einingarverðið hefur jafnvel þrefaldazt og var þó hátt fyrir. Angar þessa teygja sig til vatnsorkulandsins Noregs, sem hefur rækilega tengt raforkukerfi sitt við þessi skortsvæði raforku. Þar sem norska þjóðin lendir þá í beinni samkeppni um sína eigin orku á uppboðsmörkuðum Evrópu (Nord Pool fyrir norðanverða Evrópu), hefur raforkuverðið jafnvel hækkað meira hlutfallslega í Noregi, þar sem það var mun lægra en á Bretlandi og á meginlandinu og góðar tengingar á milli orkusvæða jafna orkuverðið, en stærri markaðurinn verður alltaf ráðandi.

Öflugir norskir sæstrengir voru nýlega teknir í notkun, annar til Þýzkalands og hinn til Bretlands, sem hafa aukið fylgni norsks raforkuverðs við hið brezka og þýzka. Þetta veldur nú eðlilega óánægju í Noregi, og vilja nú sumir, að Norðmenn taki stjórn strengjanna í eigin hendur, en með Orkupakka 3 framseldu þeir völdin til regluverks ESB og markaðarins. Stórþingsmenn vilja margir hverjir niðurgreiðslur á raforkuverði í Noregi, en það rímar illa við Orkupakka 3, og ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) gæti fljótlega veifað refsivendi sínum um samningsbrot í kjölfar slíks inngrips á markaði.

Íslendingar geta ornað sér við þá staðreynd að ekki liggur raforkustrengur til og frá Íslandi.”

Tilvitnunin hér að ofan í orð Bjarna Jónssonar rafmagnsverkfræðings sýnir hversu mikið glapræði það var fyrir Alþingi Íslendinga að samþykkja innleiðingu 3. orkupakka ESB í íslensk lög. Þar með misstu Íslendingar fullveldi sitt yfir eigin orkulindum. Þessi gjörð var mikil skömm fyrir þingmenn og ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem þarna tóku ákvörðun sem beinlínis brýtur á bága við bæði stefnuskrá flokksins, landsfundarályktanir og stjórnarskrá landsins. Hafi þeir skömm fyrir!



Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *