Þjóðhátíð 2022

Kæru landsmenn.

Fjallkona Íslands

Á þjóðhátíðardaginn er vert að minnast þess sem við Íslendingar eigum sameiginlegt. Þjóðhátíðardagurinn er sameiginlegur hátíðisdagur. Hann gefur okkur mikilvægt tækifæri til að gleðjast og fagna. Á þessum degi komum við saman og gleðjumst hvert með öðru. Haldnar eru ræður, flutt ljóð, leikið, dansað og sungið. Fjallkonan er þar í lykilhlutverki. Fólk og félög leggja sitt af mörkum til gleðja og gera daginn eftirminnilegan. Í orði og verki gefum við hvert öðru hlut af hjarta okkar og tíma.

Fjallkonan er táknmynd Íslands, landsins sem fóstrar okkur, nærir og verndar. Fjallkonan táknar líka móður jörð, móðurástina sem öllum er lífsnauðsynleg. Ísland (Ísafold) er móðir okkar allra, griðastaður okkar, sem okkur ber virða, hlúa að og verja. Við erum þannig í reynd börn þessa lands. Það sem móðir þráir heitast er að börn hennar sýni hvert öðru virðingu og vináttu, þroskist og blómstri á fallegan hátt. Ágreiningur getur verið hluti af þroskaferli manns og þjóðar, en takmarkið er að við náum að búa í sátt og samlyndi, vinnum saman að sameiginlegum markmiðum og gildum.

Við getum notað þennan þjóðhátíðardag til að hugsa um þennan fagra þráð milli lands og þjóðar og hvað við sem einstaklingar, í okkar eigin mætti, getum gert til þess að bæta samfélagið á einhvern máta. Það gerum við með því að líta inn á við, finna styrkleika okkar, tengjast hjörtum annarra og spinna saman litríkan og traustan þjóðarþráð til framtíðar. Saman myndum við sterka heild og gott samfélag.

Gleðilega þjóðhátíð.