Skjalafals í boði stjórnvalda og Evrópusambandsins – Upprunaábyrgðir

Hvernig tengjast upprunaábyrgðir skjalafalsi?

Kári skrifar:

Í síðustu grein, um tjáningarfrelsið, var vikið að sannleikshugtakinu og samsvörunarkenningunni um sannleikann. Í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 með síðari breytingum eru m.a. ákvæði um skjalafals. Undir XVII. kafla laganna, 1. mgr. 155. gr., segir svo: „Hver, sem notar falsað skjal til þess að blekkja með því í lögskiptum, skal sæta fangelsi allt að 8 árum. Skal það einkum metið refsingu til þyngingar, ef skjalið er notað sem opinbert skjal, viðskiptabréf eða erfðaskrá.“ Í 2. mgr. 155. gr. segir: „Sömu refsingu varðar að nota fölsuð gögn, sem geymd eru á tölvutæku formi, til að blekkja með þeim í lögskiptum.“[i]

Ef gefin er út ábyrgð fyrir einhverju er almennt gengið út frá því að ábyrgðin svari til einhvers sem hægt er að sannreyna, að ábyrgðin passi við andlagið. Þannig er t.d. hægt að sannreyna framleiðsluár bifreiðar eftir verksmiðjunúmeri hennar. Ef hugmyndin um upprunaábyrgðirnar ætti að gilda um uppruna bifreiða gæti eigandi fimm ára gamallar bifreiðar einfaldlega keypt sér „upprunaábyrgð“ og „yngt“ bifreiðina um t.a.m. fjögur ár. Eigandi nýrrar bifreiðar gæti á sama hátt selt þann „unga aldur“ á markaði til hinna sem kysu að „yngja upp“ gamla bíla [á pappírunum].

Í báðum tilvikum er ljóst að ekkert hefur breyst í raunveruleikanum. Gamlir bílar verða áfram gamlir og nýjir bílar (á sama tímapunkti) enn nýir. En við lifum á tímum sýndarveruleika og sýndarstjórnmála – ekkert er eins og það sýnist. Með óheftu hugmyndaflugi má útfæra þetta nánar. T.d. má vel hugsa sér að unglingar, ungmenni, geti í náinni framtíð selt ungan aldur sinn til hinna sem eldri eru.

Sjötugur maður gæti þannig keypt sér „upprunaábyrgð“ á frjálsum markaði og fengið aldri sínum breytt í þjóðskrá [fellur mjög vel að hugmyndinni um „aldurstengt sjálfræði“]. Eftir endurskráningu væri hann ekki lengur sjötugur heldur tvítugur. Báðir græða, ungmennið fær helling af peningum og eldri borgarinn „endurheimtir“ æsku sína. Markaðurinn ræður og sá sem vill greiða fyrir „yngingu“ á að hafa rétt til þess. Fyrirkomulagið hvetur til „yngingar“ og „eilífrar æsku“.

Hvað eru upprunaábyrgðir?

Upprunaábyrgðir eru verslunarhæf orkuskírteini, skilgreindar í tilskipunum Evrópusambandsins, 2009/28/EB og 2018/2001/ESB.[ii] Í stuttu máli má segja að upprunaábyrgðir (evrópska fyrirkomulagið) séu hugsaðar sem söluvara með vísan til umhverfisávinnings sem tengist endurnýjanlegri orkuframleiðslu. Verslað er rafrænt með ábyrgðirnar á frjálsum markaði, fyrir endurnýjanleg orkuskírteini sem ekki tengjast afhendingu raforkunnar sem slíkrar.

Upprunaábyrgð gefur til kynna framleiðslu á einni megavattstund (MWst) af raforku frá viðurkenndum endurnýjanlegum orkugjafa. Hver upprunaábyrgð svarar til undirliggjandi tegundar orkugjafa, staðsetningar framleiðslunnar og ártals. Evrópski markaðurinn inniheldur nú upprunaábyrgðir vegna vindorku, vatnsorku, sólarorku, jarðvarma og lífmassa.[iii]

Hver upprunaábyrgð er auðkennd og fær ákveðið númer. Þegar upprunaábyrgð „skiptir um hendur“ frá útgefanda til miðlara/veitu og að lokum til „neytanda“ er allt ferlið rakið. Þannig er reynt að fyrirbyggja tvítalningu í raforkuupplýsingum og áreiðanleika „grænna raforkusamninga“. Dæmi um útgáfustofnanir eru: Svenska kraftnet í Svíþjóð, CertiQ í Hollandi, Fingrid í Finnlandi, Statnett í Noregi og UBA í Þýskalandi.[iv]

Kerfi upprunaábyrgða

Sérhver upprunaábyrgð innan evrópska ábyrgðakerfisins (EECS) gildir í 12 mánuði. Það þýðir að frá því augnabliki sem MWst af endurnýjanlegri orku er framleidd, og samsvarandi upprunaábyrgð er gefin út, er aðeins hægt að millifæra og niðurfella ábyrgðina innan 12 mánaða. Að þeim tíma loknum gengur ábyrgðin úr gildi.[v]

Áframhald af greininni