Hafa menn gleymt markmiðum og stefnu Sjálfstæðisflokksins?
Það er auðvelt að gleyma því í dag að Sjálfstæðisflokkurinn (XD) hafi eitt sinn verið breiðfylking sjálfstætt hugsandi manna á Íslandi. “Stétt með stétt” hljómar ekki lengur sem kjörorð, verkalýðsarmur flokksins er t.d. horfinn og grafinn. Hvar seilast sjálfstæðismenn þá eftir fylgi? Svari hver fyrir sig en því er ekki að neita að flokkurinn hefur í sívaxandi mæli horfið frá grunngildum sínum og hefur nú í augum margra kjósenda á sér yfirbragð flokks eiginhagsmunapotara. Ekki er að furða þótt fylgið hafi dalað svo um munar. Flokkurinn hafði áður um 40% fylgi og var drifkraftur framfara og hagsældar í íslensku samfélagi. Hvað klikkaði?
Í Morgunblaðinu í dag kveður við nýjan tón. Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður XD, varaformaður utanríkismálanefndar og formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins segir þar m.a:
“Allir þessir atburðir (undanfarið) vekja áleitnar spurningar um þjóðaröryggi og innviði þjóðarinnar, s.s. orkuöryggi, fæðuöryggi, netöryggi og hvernig við tryggjum almennt að fólk geti verið öruggt í heimabyggð. Það er brýnt að greina ítarlega grunninnviði samfélagsins og þá samfélagslegu innviði sem teljast mikilvægir að teknu tilliti til þjóðaröryggishagsmuna. Þannig má tryggja öryggi þjóðarinnar og sameiginlegan skilning á því hvað felst í þjóðaröryggishugtakinu. Sá sameiginlegi skilningur er lykilforsenda þess að
þjóðarsátt ríki um hvernig öryggi lands og þjóðar er best tryggt.
…síðar segir:
“Ég tel að gott samstarf allra sem koma að grunninnviðum sem varða þjóðaröryggi sé lykillinn að farsælli stefnu og þarna þurfum við að leggja minni hagsmuni til hliðar fyrir meiri. Við megum ekki festast í hugsunarhætti stjórnmála liðinnar tíðar og festa tennurnar í gömlu þrætuepli. Þjóðaröryggishagsmunir eru hagsmunir þjóðarinnar allrar.”
Þarna kemst þingmaðurinn að kjarna sjálfstæðisstefnunnar: “Einn fyrir alla, allir fyrir einn!”
.