Vanda skal val þegar kosið er til þings

Arnar Þór í 2. sæti Sjálfstæðisflokksins í Kraganum.

Ragnhildur Kolka skrifar í Mbl

Ragnhildur Kolka

„Það þarf að hreinsa út á Alþingi og fá nýtt fólk sem kann til verka.“ Þessa setningu má heyra í öllum innhringiþáttum sem útvarpsstöðvarnar bjóða upp á. Þeir sem þennan söng kyrja eru oftast að hugsa um eigin hagsmuni sem lítið erindi eiga inn á þing þjóðarinnar. En kemur þá að kosningum og sagan endurtekur sig. Tilraunir til að bæta mannval á þingi hafi lítið lagað. Til dæmis hefur tilraunin til að hækka laun þingmanna, og fá þannig reynslumikið fólk með haldgóða menntun, gersamlega mistekist. Alls kyns lukkuriddarar, með litla sem enga reynslu aðra en að tala fyrir eigin skoðun, hafa þá nælt sér í þægilega innivinnu. Afleiðingin er að flokkar spretta upp eins og gorkúlur því nú hefur ríkið tekið framfærslu þeirra á sig. Og ef eitthvað, þá sýnir reynslan að gæðastuðullinn lækkar með hverju ári. Busarnir koma inn með ærslum og það að markmiði að láta fyrir sér fara; sá sem hefur hæst, gagnrýnir mest og kemst oftast í settið hjá RÚV á besta möguleikann á að ná endurkjöri. Eða þannig virðist planið sett upp. En nú sést ljós við enda ganganna. Þær fréttir berast að hinn ágæti Arnar Þór Jónsson héraðsdómari, sem mörgum er kunnur af greinaskrifum um þjóðmál, gefur nú kost á sér til setu á Alþingi.

Verður að segjast að sú sem þetta ritar harmar það helst að geta ekki tekið þátt í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi, því langt er um liðið síðan annar eins gæslumaður fyrir hagsmunum Íslands og fullveldi þjóðar hefur stigið fram í röðum þeirra. Vona ég að kjósendur í kjördæminu séu mér sammála og styðji framboð hans, því ekkert er jafn mikilvægt fyrir íslenska þjóð og að fulltrúar hennar hafi ást og trú á henni sjálfri. Nóg er af neisegjurum í öðrum flokkum. Arnar Þór hefur um árabil fjallað um samspil laga og samfélags á vettvangi löglærðra, en steig skrefið inn í opinbera umræðu á síðum Morgunblaðsins árið 2017. Þar, og víðar, hefur hann fjallað um ýmis lögfræðileg, siðferðisleg og samfélagsleg mál af heimspekilegri nálgun samkvæmt vestrænni lýðræðishefð. Slík umfjöllun kveikir sjaldnast stóra elda hér á landi, þótt þá þegar hafi hann aflað sér nokkuð stórs hóps lesenda. Enn fleiri tóku þó að sperra eyrun þegar hann setti fram efasemdir um réttmæti þess að Alþingi samþykkti þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Var hann þá óragur við að vara við hættunni á fullveldisafsali sem í slíkri samþykkt fælist. Á sinn hógværa hátt minnti hann á að fullveldi þjóðar gæti stafað ógn af og benti m.a. á að EES-samningurinn hefði, á sínum tíma, tryggt þjóðinni óskorað vald yfir orkulindum.

Það vald gæti nú tapast. Samningurinn hefði verið gerður í góðri trú um að stórveldið ESB stæði við sinn hlut. En stórveldi hafa ekki samvisku og gæta ekki trúnaðar við aðra en sjálf sig. Þau eru eins og hver önnur félagasamtök sem hugsa fyrst og fremst um eigin hag, breyta reglum og beita valdi ef þau sjá sér hag í því. Við höfum séð hvernig því er nú beitt með ostaskeranum í ótal málum, þ.s. hverri sneiðinni af annarri er sporðrennt ofan í gin Brussel-valdsins. Ásælni stóra bróður í Brussel og ostaskeraaðferðin birtist okkur einnig í því að æ fleiri dómsúrskurðir byggjast nú á lögum sem koma „að ofan“. Frá ESB og dótturstofnunum þess. Lögum sem hér hafa möglunarlaust verið innleidd án nokkurrar sýnilegrar gagnsemi fyrir þjóðina og þau jafnvel orðið okkur til óþurftar. Fullvalda þjóð setur sín eigin lög án yfirlestrar erlends valds. En krumla ESB seilist nú sífellt oftar og lengra inn á svið löggjafans. Um þessi mál og mörg önnur vill Arnar Þór að talað sé af hispursleysi og með þátttöku almennings, sem þarf jú að lifa með ákvörðuninni. Hann vill setja grundvallarmál þjóðarinnar á oddinn, mál sem varða íslenska hagsmuni, og er tilbúinn að leggja sitt af mörkum í þeirri baráttu. Eins og staðan er í dag geta sjálfstæðismenn tæpast hafnað því.

En það eru ekki bara fullveldið og dómsmálin sem fanga hug Arnars Þórs. Í störfum sínum sem lögmaður og dómari hefur hann ekki komist hjá að kynnast brotalömum samfélagsins sem við flest ýmist sjáum ekki eða leiðum hjá okkur. Það er nefnilega fyrir dómstólunum sem samfélagsmeinin afhjúpast. Brotnu fjölskyldurnar, fátæktin, fíknin og vanrækslan sem oft fylgir í kjölfarið og þá ekki síst menntunarskorturinn. Allt þættir sem lita líf þeirra sem rata inn á braut afbrota og því eru mennta og samfélagsmál Arnari Þór einnig afar hugleikin. Kannski er stærsta gjöfin sem Arnar Þór getur fært okkur með setu á Alþingi ekki bara að skjóta styrkari stoðum undir þau gildi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð viljað standa fyrir, en ekki alltaf staðið undir, heldur líka vel ígrunduð nálgun við frjálslynda hugsun, sem ýmsir pólitískir ólátabelgir hafa eignað sér án þess að hafa innistæðu fyrir. Sjálfstæðismenn í Kraganum hafa nú í hendi sér að taka afstöðu til þessara mála. En þeir þurfa að hugsa sig vel um áður en þeir hafna slíku kostaboði.

Höfundur er lífeindafræðingur.
rjk9@simnet.is