Viðreisnarvillur

Loftur skrifar:

Það er auðvitað mjög alvarlegt mál reynist þessi málflutningur fyrrverandi formanna Sjálfstæðisflokksins réttur og að Alþingi Íslendinga skuli ítrekað hafa brotið ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar, jafnvel á þeirra eigin vakt.    

Eins-máls-flokkurinn Viðreisn var á sínum tíma stofnaður af ESB-sinnum sem klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum (XD). Eitt æðsta markmið flokksins er að koma Íslandi inn í ESB sem samrýmist alls ekki grunngildum og stefnuskrá XD en Landsfundur flokksins hefur endurtekið ályktað um að Íslandi sé best borgið utan ESB. Íslenskir kjósendur hafa reyndar aldrei verið spurðir álits um aðild Íslands að ESB en málgögn Viðreisnar, Fréttablaðið og Hringbraut hafa haldið uppi gegndarlausum áróðri fyrir ESB aðild og um leið gert lítið úr íslensku krónunni. Fremstir þar í flokki er formaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir f.v. varaformaður XD og Þorsteinn Pálsson (Þ.P.) f.v. formaður XD. Þann 18. febrúar s.l. ritaði sá síðarnefndi grein í Fréttablaðið sem ber heitið „Að bremsa tíðarandann“. Þar talar f.v. formaður XD um að „fjölþjóðasamvinna“ sé eitt stærsta viðfangsefni allra þjóða í nútímanum. Stjórnarskráin þurfi að heimila slíkt samstarf og kveða á um leikreglurnar. Það vekur athygli að hugtakið „alþjóðleg samvinna“ er ekki lengur notað um afsal á fullveldi Íslands til yfirþjóðlegs valds enda er ESB langt frá því að vera alþjóðlegt. Æðsti draumur þessara f.v. formanna XD er að Ísland gangist undir erlent ólýðræðislegt yfirþjóðlegt vald, vald sem komið er frá embættismönnum sambandsríkis, nú 27 Evrópuþjóða þar sem hver höndin er uppi á móti annarri, þar sem mikið atvinnuleysi hefur ríkt undanfarin ár og þar sem hagvöxtur er nánast enginn sé miðað við þau lönd sem hafa hvað mestan hagvöxt. ESB er samband ríkja þar sem reglugerðir andlitslausra embættismanna verða að lögum án undanfarandi lýðræðislegs ferlis, þ.a. án aðkomu kjósenda í viðkomandi löndum. Lýðræðið er þar m.ö.o. fótum troðið.  

Lesa meira…

Í grein Þ.P. kemur fram, að þingmenn VG endurflytja nú frumvarp, sem gerir ráð fyrir því að Alþingi þurfi að samþykkja allar bókanir og viðbætur við varnarsamninginn og allar varnarframkvæmdir. Þess ber að geta að varnarsamningurinn felur ekki í sér framsal fullveldis til yfirþjóðlegs valds. Algjörlega óháð afstöðu til varnarsamstarfsins endurspegli breyting af þessu tagi einfaldlega nýjan tíðaranda, nýjar kröfur til lýðræðisins. Stjórnarsamstarfið setji þó „bremsu“ á málið þar sem alþingismenn fái ekki að greiða atkvæði um málið. Slíka „bremsu“ sé einnig að finna í stjórnarskrármálinu. Þar sé skortur á vilja Alþingis til afsals á fullveldinu til „fjölþjóðasamstarfs“ þ.e. yfirþjóðlegs valds, sem er ESB. Þ.P. telur að tíðarandinn sé m.ö.o. sá að Ísland gangi í ESB.

Hér er f.v. formaður XD að segja berum orðum að þeir gjörningar sem framdir hafa verið á undanförnum árum varðandi innleiðingu gerða ESB í íslensk lög með tilstuðlan EES-samningsins samrýmast á engan hátt ákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar. Því sé kallað eftir breytingum á stjórnarskránni. Sami söngur hefur verið uppi hjá talsmönnum systurflokks Viðreisnar, Samfylkingarinnar. Þar er stöðugt verið að kalla eftir breytingum á stjórnarskránni í nákvæmlega sama tilgangi sem er að koma í veg fyrir frekari stjórnarskrárbrot!
Það að hin svokallaða „nýja stjórnarskrá“ hafi verið gjörsamlega ónothæft plagg fyrir Alþingi að vinna eftir er auðvitað aukaatriði sem ekki má nefna. 

Það er auðvitað mjög alvarlegt mál reynist þessi málflutningur fyrrverandi formanna Sjálfstæðisflokksins réttur og að Alþingi Íslendinga skuli ítrekað hafa brotið ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar, jafnvel á þeirra eigin vakt.