Eins og aðrar þjóðir stöndum við Íslendingar nú á krossgötum. Leiðarval okkar mun
hafa mótandi áhrif á farsæld okkar til lengri tíma.
Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl
Kórónuveiran (C19) hefur leitt stjórnmálaumræðuna inn á óheillavænlega braut. Þeir sem eru hvað hræddastir við veiruna nota óttann til að réttlæta stóryrði og óþol í garð þeirra sem hafa aðrar skoðanir. Óyfirveguð og þröngsýn orðræða fælir almenning frá því að tjá sjálfstæða afstöðu. Í slíku umhverfi skapast forsendur fyrir ógnarstjórn. Veruleikinn er þá teiknaður upp sem svarthvítur og fólk dregið í dilka réttlátra og ranglátra, góðra og vondra, upplýstra og fáfróðra o.s.frv. Með þessu er vegið að ýmsu því sem telja má dýrmætast, s.s. gagnrýninni hugsun, frjálsri og lýðræðislegri umræðu og jafnræði allra manna fyrir lögunum. Ekki vil ég gera lítið úr því að menn séu kappsamir, en ákafinn má ekki umbreytast í óþol, einstrengingshátt, þröngsýni og hroka. Slíkt hugarfar gerir menn herskáa, fyllir þá vandlætingu og leiðir til ofstækis. Því miður hrannast óveðursskýin nú upp á vettvangi stjórnmála, lagasetningar og lagaframkvæmdar. Eins og hendi sé veifað eru vestræn lýðræðisríki að taka upp annars konar stjórnarfar, þar sem ókjörnum embættismönnum er falið það vald að skammta borgaralegt frelsi úr hnefa að fyrirmynd harðstjórnarríkja. Þetta er réttlætt með því að frelsinu beri að fórna í skiptum fyrir heilsu og öryggi. Frammi fyrir því ómælda efnahagslega, heilsufarslega, sálræna, pólitíska, lýðræðislega og lagalega tjóni sem þetta stjórnarfar hefur þegar valdið (og mun fyrirsjáanlega halda áfram að valda) virðist stöðugt skýrara að við erum á rangri braut, sem brýnt er að snúið verði af hið fyrsta, áður en öllu verður stefnt í voða.
Skrefið frá stjórnlyndri „framfarastefnu“ til ofríkis er stutt
Sú mynd sem hér er að birtast sýnir breikkandi gjá milli þeirra sem aðhyllast frelsi, sjálfsákvörðunarrétt og lýðræði annars vegar og hins vegar þeirra sem kjósa vald, hlýðni og stjórnlyndi.
Að baki búa menningarleg átök sem kraumað hafa undir yfirborðinu um margra ára skeið, en þó með þeirri innbyggðu þversögn að fyrrnefndu sjónarmiðin hafa verið skrumskæld og skrímslavædd af ráðandi öflum innan háskólanna, fjölmiðlanna, menningarlífs o.fl. Afleiðingarnar eru öllum sýnilegar og birtast m.a. í því hvernig menn eru nú, hver á fætur öðrum, lagðir á höggstokk samfélagsmiðla – og fjölmiðla – með tilheyrandi fordæmingu, útskúfun, atvinnumissi og refsikröfum. Í slíku andrúmslofti mega staðreyndir sín oft minna en upphrópanir. Rökhugsun má sín lítils þegar áróðri er beitt til að spila með tilfinningar fólks, t.d. með því að ala á ótta. Þegar fræðimenn, embættismenn, fjölmiðlasamsteypur, eigendur samfélagsmiðla og annað áhrifafólk tekur sér vald til að ákveða hvaða sjónarmið almenningur má fá að heyra þá blasir við að hinn vestræni heimur stendur við menningarleg og lagaleg vatnaskil. Á aðra hönd getum við valið að verja grundvöll vestrænnar lýðræðishefðar, þar sem frelsi, ábyrgð og sjálfsákvörðunarréttur einstaklingsins er í forgrunni. Á hina höndina liggur leiðin til aukinnar miðstýringar, eftirlits, ritskoðunar, tortryggni, valdbeitingar og frelsisskerðingar. Hvorum megin við þessa línu vilt þú standa, kæri lesandi? Hefurðu trú á fólki? Treystirðu öðrum til að mynda sér sjálfstæðar skoðanir og taka ábyrgð á eigin farsæld? Geturðu umborið það að menn hafi aðra lífssýn en þú? Telurðu frjáls skoðanaskipti af hinu góða? Viltu að við leyfum fólki að tjá hugsanir sínar og leita sannleikans? Eða viltu ganga fram með lokuðum huga og knýja aðra til að fylgja þér af því „þér einir“ vitið hvað öðrum er fyrir bestu?
Hvar býr valdið?
Því miður sýnist mér að við séum að verða síðastnefndu hugarfari að bráð. Þjóðfélaginu er í vaxandi mæli stýrt út því sjónarmiði sem höfðar til fjöldans þá stundina, án yfirsýnar og án tillits til heildarsamhengis. Þetta er aðferð sem grundvallast á tilfinningasemi og stundarhag fremur en rökhugsun og langtímaáætlunum. Í þessu andrúmslofti kjósum við fólk til valda sem gengst upp í hégóma og framselur vald sitt í stórum stíl, m.a. til að forðast gagnrýni. Afleiðingin er sú að stjórnarfarið ranghverfist frá lýðræði til skrílræðis og sérfræðingaræðis, þar sem valdhafar svara ekki til ábyrgðar. Borgararnir sitja eftir með embættisvald sem flækist í mótsögnum, viðurkennir engin mistök, en krefst hlýðni við kennivaldið. Þegar stjórn landsins er farin að bruna eftir þessum teinum þarf einhver að stíga á bremsurnar til að afstýra óförum. Sagan geymir mörg dæmi um samfélög sem á augabragði kasta öllum góðum gildum og taka upp aðskilnaðar- og mismununarstefnu, sbr. t.d. skammarlegan málflutning ritstjóra Fréttablaðsins í leiðara 13. nóvember sl.
Leiðin til „útópíu“ liggur nú sem fyrr til „distópíu“
Þrátt fyrir að tölfræðileg gögn bendi til að að ungu og heilsuhraustu fólki stafi nánast engin hætta af C19 og að veiran leggist þyngst á vel þekkta áhættuhópa, auk þess sem gögn frá Bretlandi benda til að dánartölur vegna C19 hafi verið ofmetnar, þá eru engin teikn á lofti sem benda til að ríkisstjórnir ætli að slaka á valdbeitingarklónni sem búið er að læsa í almenning með PCRprófum, smitrakningu, grímuskyldu, ferðatakmörkunum og bólusetningarherferðum. Aðgerðir stjórnvalda hafa yfirstigið mörk meðalhófs. Þegar fréttir berast af því að ríkisstjórn Austurríkis leiti nú leiða fram hjá jafnræðisreglu stjórnarskrár í því skyni að geta mismunað óbólusettu fólki blasir við að undirstöður réttarríkisins eru í stórhættu á öllum Vesturlöndum og veita þarf sterkt borgaralegt viðnám ef ekki á illa að fara. Í því viðnámi hljóta þeir að fara fremstir sem aðhyllast raunverulegt, klassískt frjálslyndi, enda skilja þeir og skynja hinn falska tón gervifrjálslyndis sem í nafni „framfara“ vill með ráðríki svipta almenning völdum og koma á fót fyrirmyndarríki (útópíu). Þótt stjórnlyndi „framfarasinninn“ sé vafalaust oft í góðri trú hefur hann óraunsæjar hugmyndir um draumalandið sem hann vill skapa. Þar á fáfróður almúginn ekki að fá að þvælast fyrir hinni „nýju og góðu veröld“, sem nú skal reisa undir merkjum „vísinda“ og „skynsemi“. Vert er að minnast þess, að margir verstu harðstjórar mannkynssögunnar hafa notið víðtæks stuðnings almennings og framið illvirki sín undir yfirskini vísinda og skynsemi. Leiðin til vítis er vörðuð góðum ásetningi – og oft fetuð í litlum skrefum. Þegar samfélagið í dag er borið saman við það sem var við lýði fyrir aðeins tveimur árum blasir við að búið er að taka mörg skref á þeirri hrakför. Samt boða menn nú, í nafni „framfara“, að nauðsynlegt sé að taka fleiri og stærri skref í þá sömu átt. Senn kemur að því að of seint verði að snúa við.
Samantekt
Eins og aðrar þjóðir stöndum við Íslendingar nú á krossgötum. Leiðarval okkar mun hafa mótandi áhrif á farsæld okkar til lengri tíma. Nú sem aldrei fyrr þarf að standa vörð um rétt okkar til gagnrýninnar hugsunar og frjálsrar tjáningar. Með því móti er unnt að standa gegn því að vísindin umbreytist í kreddur og forða vel meinandi fólki frá því að fyllast því stærilæti og hroka sem um var rætt hér í upphafi. Mannlegri skynsemi eru takmörk sett. Mannkynssagan, hefðir og meginreglur laga færa með sér dýrmætan arf og dýrkeyptar lexíur, sem okkur ber að virða til að feta megi rétta braut, komandi kynslóðum til farsældar.
Höfundur er sjálfstætt starfandi lögmaður og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.