Úlfakreppa stjórnmálanna.

Arnar Þór Jónsson skrifar á Blog.is:

Nýjar reglur frá ESB munu valda því að íþyngjandi losunarskattar verða lagðir á flug til og frá íslandi. Málið er ljóslega viðkvæmt á ýmsa kanta, en varpar um leið ljósi á það sem er að gerast á bak við leiktjöld / ytri ásýnd stjórnmálanna.

Hefðbundin stjórnmál eru að leysast upp í einhvers konar sjónhverfingu. Á bak við tjöldin stýrir tækniveldið för (vísindi, tækni og iðnaður). Tækniveldið er alþjóðlegt og starfar utan við stjórnmál þjóðríkjanna. Afleiðingarnar má sjá í því hvernig lýðræðið víkur fyrir einhvers konar tækniræði og hvernig hagsmunir þjóðríkisins víkja fyrir yfirþjóðlegum sjónarmiðum. Kjörnir stjórnmálamenn telja sig ekki eiga annan kost en að staðfesta það sem þegar hefur verið ákveðið annars staðar. Þetta þýðir að lagasetning er í síauknum mæli hugsunarlaus innleiðing erlendra reglna. Þetta birtist líka í því hvernig innlendir embættismenn fylgja í blindni línum sem lagðar hafa verið erlendis.

Til að dylja þessa umbreytingu fyrir almenningi er lögð mikil áhersla á að halda uppi ásýnd sjálfstæðis og lýðræðis. Gagnvart kjósendum er mikilvægt að þessi ásýnd haldi velli, því afhjúpun gæti valdið almennum óróa. Stöðugt erfiðara verður þó að fela þá breytingu sem er að eiga sér stað: Stjórnmálin eru að umbreytast í gervistjórnmál. Á sama tíma er raunhagkerfið sett í þumalskrúfur gervihagkerfis sem á hugmyndafræðilegum grundvelli vill m.a. stýra orkunotkun og eldsneytisvali, sbr. m.a. áðurnefnda losunarskatta.

Framangreind umbreyting er hvergi rædd. Stjórnvöld vinna að „lausn“ á bak við tjöldin með „lobbíisma“. Þar með eru íslensk yfirvöld í reynd farin að starfa samkvæmt erlendum leikreglum, en ekki á þeim skýra grundvelli sem stjórnarskráin markar lýðveldinu okkar. Að þetta sé hvergi gagnrýnt er til marks um það hversu máttlaus pólitisk rökræða er orðin.

Kjósendur sitja í raun uppi með valdhafa í erlendum borgum sem svara ekki til neinnar ábyrgðar vegna afleiðinga þeirra ákvarðana sem teknar eru. Í slíku umhverfi er ekki við öðru að búast en einmitt því sem blasir við í tilviki losunarskattanna, þ.e. að ákvarðanir t.d. miðist við hag / ásýnd valdsins (ESB) fremur en hugsanlegt tjón Íslendinga. Þegar hagsmunir valdhafa fara ekki lengur saman við hagsmuni þegnanna hlýtur að koma að því að áhorfendur bauli á leikarana (stjórnmálamenn) og vilji yfirgefa leikhúsið.

Ef stjórnmálamenn á Íslandi vilja afstýra því að algjör trúnaðarbrestur verði milli þeirra og kjósenda þarf að viðurkenna þá stöðu sem uppi er og taka hana til heiðarlegrar umræðu.  

Bloggsíða Arnars Þórs Jónssonar á Blog.is

Hugur þinn og hjarta er þín eign, ekki ríkisins

Arnar Þór Jónsson:

Reynsla síðustu ára bendir til að vestrænar þjóðir kunni ekki að verjast valdhöfum sem undir yfirskyni umhyggju vilja skerða frelsi okkar. Þjóðfélögum okkar er í auknum mæli stjórnað af fólki sem gefur sig út fyrir að vera frjálslynt, fólki sem í orði kveðnu styður málfrelsið. Þegar þetta sama fólk kallar eftir ritskoðun til að vernda okkur er verið að bjóða falskt öryggi.

Tjáningarfrelsið er lífæð alls lýðfrelsis. Sú þjóð sem afhendir valdhöfum úrskurðarvald um hvað má segja og hvað ekki, afhendir ríkinu um leið alla umræðustjórn. Í slíku þjóðfélagi viðgengst engin lifandi umræða og fólk fer ósjálfrátt að ritskoða sjálft sig. Ef að er gáð má víða finna vísbendingar um það hvernig verið er að þrengja umræðuna, loka fyrir sjónarmið, banna gagnrýni, fela óþægilegar upplýsingar.

Frjálslynt stjórnarfar bannar fólki ekki að hafa óvinsælar skoðanir, heldur býr svo um hnútana að menn beri ábyrgð á orðum sínum og gjörðum. Frjálslynt fólk hefur trú á samborgurum sínum, er reiðubúið að hlusta á röksemdir og svara með rökum. Stjórnlynt fólk aðhyllist ritskoðun, styður slaufunarmenningu og umræðustjórn, en leggst gegn frjálsum fjölmiðlum.

Við búum nú í samfélagi þar sem ríkið vill í auknum mæli taka ábyrgðina af herðum okkar, en gerir á móti tilkall til þess að taka af okkur frelsið um leið. Slík skipti leiða okkur í átt til alræðis, þar sem allir eru steyptir í sama mót og aðeins ein ,,ríkisskoðun” leyfð.

Við erum hugsandi verur sem tjáum okkur með orðum og athöfnum. Verkefni hvers dags er að tjá sig fallega og af virðingu fyrir öðrum. Stundum tekst okkur það vel og stundum ekki eins vel. Með því að samþykkja einsleitni og ritskoðun myndum við skapa flatneskjulegt, taugaveiklað, óheiðarlegt og huglaust samfélag þar sem enginn þyrði að tjá eigin hug og hjarta. Með því værum við að svíkja okkar innsta kjarna, samvisku okkar og mannlega reisn. Við eigum ekki að setja ljós okkar undir mæliker.

Bloggsíða Arnars þórs á Mbl.is

Áleitnar spurningar um orkupakka

Ólafur Ísleifsson skrifar í Mbl:

Fjórði orkupakkinn sem inniheldur endurskoðun á helstu þáttum í orkulöggjöf ESB var samþykktur af Evrópuþinginu og ráði Evrópusambandsins í lok maí 2019. Reglugerðir og tilskipanir fjórða orkupakkans voru birtar í Stjórnartíðindum ESB sumarið 2019. Pakkinn tók við af þriðja orkupakka ESB en er víðtækari og nær til ákvarðana um endurnýjanlega orku, orkunýtni og slíkra þátta. Reyndar sýnist feimnismál að tala um fjórða orkupakkann og er hann af hálfu stjórnvalda kallaður hreinorkupakkinn, kannski í fegrunarskyni. Þriðji orkupakkinn var samþykktur á Alþingi 2. september 2019. Hann var umdeildur og lagðist ekki vel í þjóðina. Framganga stjórnvalda á þeim tíma vekur spurningar um upplýsingar af þeirra hálfu til Alþingis um lagabreytingar innan ESB á sviði orkumála.

Greining sérfræðinga á þriðja orkupakkanum

Ítarleg lögfræðileg greining af hálfu lagasérfræðinganna Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar sem fylgdi þingályktunartillögu ríkisstjórnarinnar hafði vissa sérstöðu m.a. vegna samskipta þeirra og utanríkisráðuneytis meðan á samningu álitsins stóð. Þeir lýstu tveimur leiðum en lakari kosturinn að þeirra dómi var valinn af hálfu stjórnvalda. Megintillaga Friðriks Árna og Stefáns Más var að Ísland færi fram á undanþágu frá tveimur tilgreindum reglugerðum í orkupakkanum í heild, m.a. á þeirri forsendu að á Íslandi fari ekki fram raforkuviðskipti milli landa. Reglugerðirnar ættu því ekki við um aðstæður hér á landi. Hin tillagan var að setja lagalegan fyrirvara við samþykkt pakkans. Á fundi utanríkismálanefndar í ágúst 2019 sagði annar höfunda þetta næstbesta kostinn, sem skilja verður sem lakari kostinn af tveimur. Viðurkenndir lögfræðingar sögðu hinn lagalega fyrirvara haldlausan að þjóðarétti og aðeins til heimabrúks.

Áframhald af greininni

Sverð á sal Alþingis

Loftur skrifar:

Viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar, Lilja Dögg Alfreðsdóttir ritar ágæta grein um sjálfstæði Íslands í orkumálum í Mbl. þ. 29. október 2022. Þar segir hún m.a.: „Sú staðreynd að raforkukerfi landsins er ekki tengt raforkukerfi Evrópu kemur sér sérstaklega vel í því árferði sem nú ríkir og bregður ljósi á mikilvægi þess að standa vörð um sjálfstæði í orkumálum. Það sjáum við til dæmis með því að líta á þróun raforkuverðs á hinum Norðurlöndunum sem hefur hækkað mikið…“

„Ísland hefur alla möguleika á að ná fullu sjálfstæði í orkumálum með aukinni framleiðslu á endurnýjanlegri orku til þess að standa undir rafvæðingu í samgöngum í lofti, láði og legi. Þrátt fyrir allt það frábæra samstarf í alþjóðamálum, sem við tölum þátt í, er það gæfuspor fyrir þjóðina að vera ekki í Evrópusambandinu.“

Svo mörg voru þau orð. Ráðherrann dregur einnig upp myndlíkingu þar sem sverð Damóklesar hangir yfir ESB m.a. vegna skorts á gasi frá Rússlandi. Svokölluð „gaslýsing“ (e.gaslighting) er reyndar algeng í viðtölum ráðherra við almúgann. Þeir svara stundum spurningum með lærðum frösum: „Þú verður að kynna þér málið!“ eða: „Þú hefur ekki lesið alla skýrsluna!“ o.s.frv. Spurning vaknar hvort ráðherrann hafi lesið alla söguna um hirðmanninn Damókles sem lofsöng hamingju Díonýsíosar konungs vegna auðs hans og valda. Konungur gerði hirðmanninn að eins konar umskiptingi þar sem þeir skiptu um hlutverk en á móti hengdi konungurinn sverð hans fyrir ofan hásætið og festi með einu hrosshári.

Slíkir umskiptingar eru algengir á Alþingi Íslendinga þar sem ráðamenn lofa og prísa EES-samninginn og sjálfstæði og fullveldi Íslands í skálaræðum á kvöldin en á daginn vinna þeir sleitulaust að því framselja yfirráðin yfir auðlindum landsins til ESB með grófri misnotkun á EES-samningnum og brjóta með því stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Mun ráðherrann t.d. samþykkja innleiðingu fjórða orkupakka ESB í íslensk lög eins og þann þriðja?

EES-samningurinn er orðinn að sverði Demóklesar sem nú hangir yfir ræðustóli Alþingis á þunnu hrosshári, líklega úr hálfdauðri blóðmeri.

Ísland og Sjálfstæðisflokkurinn

Gísli Ragnarsson skrifar í Mbl

Sjálfstæði smáþjóðar er ekki sjálfsagt. Það þarf stöðugt að vera
á verði og gæta þess að ekkert sé gert sem stuðlar að valdaafsali.

Gísli Ragnarsson

Ljóðið hennar Huldu (Unnar Benediktsdóttur Bjarklind), Hver á sér fegra föðurland, er okkur Íslendingum kært. Hver á sér fegra föðurland, með fjöll og dal og bláan sand, með norðurljósa bjarmaband og björk og lind í hlíð? Með friðsæl býli, ljós og ljóð, svo langt frá heimsins vígaslóð. Geym, drottinn, okkar dýra land er duna jarðarstríð. Hver á sér meðal þjóða þjóð, er þekkir hvorki sverð né blóð en lifir sæl við ást og óð og auð, sem friðsæld gaf? Við heita brunna, hreinan blæ og hátign jökla, bláan sæ, hún uni grandvör, farsæl, fróð og frjáls – við ysta haf. Ó, Ísland, fagra ættarbyggð, um eilífð sé þín gæfa tryggð, öll grimmd frá þinni ströndu styggð og stöðugt allt þitt ráð. Hver dagur líti dáð á ný, hver draumur rætist verkum í, svo verði Íslands ástkær byggð ei öðrum þjóðum háð. Svo aldrei framar Íslands byggð sé öðrum þjóðum háð. Okkur sem erum fædd um miðja síðustu öld var kennt að elska Ísland og vinna því allt til heilla. Sjálfstæðishugsjónin í ljóði Huldu: „Svo aldrei framar Íslands byggð sé öðrum þjóðum háð“ var og er grundvallarhugsjón okkar. Í kosningum 1956 fylgdi ég ömmu og afa á kjörstað í Miðbæjarskólanum. Ég var stoppaður af við innganginn af lögreglumanni sem brosandi bað mig um að setja fálkann, merki Sjálfstæðisflokksins, aftan við kragann svo hann sæist ekki meðan ég væri inni á kjörstaðnum. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 42,4% atkvæða í þessum kosningum og var Ragnhildur Helgadóttir yngsti þingmaðurinn sem náði kjöri, 26 ára. Það var eitthvað svo sjálfsagt í mínum augum að styðja Sjálfstæðisflokkinn. Hans helsta stefnumál var að Íslands byggð yrði aldrei öðrum þjóðum háð. Í dag er Sjálfstæðisflokkurinn að fá rúm 20% í kosningum. Í borgarstjórnarakosningunum 1990 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 60,4% atkvæða. Hvað veldur? Ég er viss um að sjálfstæðishugsjónin er flestum Íslendingum hugleikin. Að Íslands ástkær byggð verði ei öðrum þjóðum háð. Háværar raddir eru því miður uppi sem dásama erlend áhrif á Íslandi. Fólk sem vill að Ísland verði öðrum þjóðum háð. Þetta er ekkert nýtt. Það hafa alltaf verið til menn á Íslandi sem sjá tækifæri í að færa vald úr landi. Fyrst til Noregs, Danmerkur og nú til Brussel. Því miður er áróðri þeirra ekki svarað af nægilegri sannfæringu. Því miður hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki andmælt slíkum áróðri á nægilega sannfærandi hátt.

Áframhald af greininni

ESB – umsókn? Enn og aftur?

Leiðari Mbl. föstudaginn 23. september 2022:

Systurflokkarnir vilja kíkja aftur í pakkann sem allir
vita hvað er í…eða hvers vegna gengu Svíar og Finnar í NATO?

Svíar sóttu um aðild að NATO


Þingmenn systurflokkanna hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar „um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við Evrópusambandið“ og fengu hana rædda í þaula á þriðjudag. Forsendur flutningsmannanna fyrir því að taka aftur upp viðræður við Evrópusambandið um aðild eru þær sömu og þær voru þegar málið sigldi eftirminnilega í strand fyrir um áratug, fyrir utan að nú telja þeir að stríðið í Úkraínu gefi þeim færi á að vinna fleiri á sitt band. Það er eitthvað alveg sérstaklega lítið geðfellt við það að reyna að nota yfirgang Pútíns og ógæfu Úkraínumanna til að endurvekja þetta vonlausa mál, en það er engu að síður gert og þarf ef til vill ekki að koma á óvart enda hefur flest verið reynt fyrir þennan vonda málstað. Þannig er beinlínis fullyrt í greinargerð með tillögunni að óhætt sé að segja að „vatnaskil hafi orðið í umræðunni um stöðu Íslands í Evrópu með innrás Rússa í Úkraínu“. Vísað er til þess að Danir hafi samþykkt að falla frá fyrirvörum um að taka fullan þátt í varnarmálasamstarfi ESB og að Finnar og Svíar hafi sótt um aðild að Atlantshafsbandalaginu vegna innrásarinnar. Þetta er fjarstæðukenndur málflutningur og öfugsnúinn, því að sú staðreynd að Finnar og Svíar sækja um aðild að NATO vegna aukinnar

Lestu áfram

Að selja landið og innviðina er smekkleysa

Hvað kostar Ísland? Loftur skrifar:

Umrædd grein Ögmundar í Mbl

Það kann mörgum sjálfstæðismanninum að þykja það skjóta skökku við, að vitna í Ögmund Jónasson f.v. ráðherra sem er gallharður sósíalisti. Ögmundur hefur barist með oddi og egg gegn framsali á fullveldi Íslands til yfirþjóðlegs valds sem samrýmist vel stefnu xD og ályktana landsfunda flokksins en það er ekki hægt að segja með góðri samvisku um þá sjálfstæðismenn sem nú sitja á Alþingi, utan einn þingmann, Ásmund Friðriksson, sem hafnaði innleiðingu 3. orkupakka ESB í íslensk lög. Leitandi er að glæðum fullveldishugsjónarinnar í ræðum eða riti sjálfstæðismanna nema þá helst í skrifum Arnars Þórs Jónssonar, leiðara Mbl. og Staksteinum sama blaðs.

Ögmundur ritar fróðlega grein í Mbl í dag sem hann nefnir:

Ég hef einfaldan smekk, ég vel aðeins það besta!” en þar segir hann m.a.:

“Ef fer sem horfir að innviðirnir verði settir á markað, allt er það að gerast jafnt og þétt, á okkur þá að þykja gott og eftirsóknarvert að bjóða erlendum fjárfestum að eignast grunnnet fjarskipta, samgöngukerfið, heilbrigðiskerfið, vatnsveitur, sorphirðuna, rafveitur, Landsvirkjun? Og nú stendur til að selja íslensk fjöll til útlanda. Og við sem héldum að þetta væri bara málsháttur, að trúin flytti fjöll. En þetta er þá trúin og um hana er bærileg sátt á Alþingi. Aðeins einn þingmaður greiddi atkvæði gegn endurskoðaðri samvinnuhugsjón Framsóknarflokksins að heimila fjárfestum að næla sér í arð upp úr vösum okkar sem ferðumst um vegakerfi landsins. Að þessu sögðu er eins gott fyrir almenning að byrja að reisa sig og spyrja hvort við virkilega viljum færa fjárfestum eignarhald á öllu því sem við höfum sameiginlega byggt upp og vitað er að verður alltaf að vera til staðar að þjónusta samfélagið. Varla er það eftirsóknarvert markmið að búa svo um hnúta að handhafar fjármagns geti gert sér slíka þjónustu að féþúfu að ógleymdum völdunum sem slíku fylgir eins og við vorum minnt á eftir að Marriott-keðjunni hafði verið svo innilega fagnað í Reykjavík. Almenningur, við öll, þurfum að segja hátt og skýrt að við viljum halda völdunum sem næst okkur, innanlands og á okkar eigin hendi, það s é heillavænlegast og það s é það besta. Er þetta ekki eins einfalt og verða má? Og má ekki taka undir með því sem sagt var í frægri sjónvarpsauglýsingu: „Ég hef einfaldan smekk, ég vel aðeins það besta“?
Og nú stendur til að selja íslensk fjöll til útlanda. Og við sem héldum að þetta væri bara málsháttur, að trúin flytti fjöll.

Almennt gera Íslendingar sér ekki grein fyrir því, hvað framsal fullveldisins til ESB hefur í för með sér. Ætla menn t.d. í alvöru að skipta upp Landsvirkjun, sameign þjóðarinnar og selja hana hæstbjóðandi og setja raforkuna okkar á uppboðsmarkað ESB í takt við orkupakkana?
Þurfum við sjálfstæðismenn að láta harðlínusósíalista vekja okkur upp til umhugsunar um fullveldið og gildi þess fyrir Ísland og íslensku þjóðina?
Er ekki nóg komið af framsali fullveldisins?

Varasöm þróun ESB

Forsætisráðherra aðildarríkis ESB rekur vandann réttilega

Úr Staksteinum Mbl. 23. ágúst 2022:

Greinin í Mbl

Mateusz Morawiecki forsætisráðherra Póllands fjallaði um málefni Evrópu og Evrópusambandsins í athyglisverðri grein í Morgunblaðinu í gær. Útgangspunkturinn er Úkraína og margvíslegur lærdómur sem Morawiecki telur að draga megi af innrás Rússa. Hann telur stríðið hafa „afhjúpað sannleikann um Rússland“ Pútíns og heimsvaldastefnu þess. Rússland hafi treyst stöðu sína á síðustu tveimur áratugum en Vesturlönd hafi sýnt sofandahátt. Þá segir Morawiecki að ríki Evrópu hafi ekki hlustað á varnaðarorð Póllands, sem hafi bent á fyrir mörgum árum að Rússar myndu ekki láta staðar numið í Georgíu með innrásinni þangað.

Umhugsunarvert er að forsætisráðherra Póllands telur þetta „einungis birtingarmynd stærra vandamáls sem ESB stendur frammi fyrir í dag. Jafnrétti einstakra ríkja í ESB telst vera einungis formlegs eðlis en stjórnmálavenja sýnir fram á að rödd Þýskalands og Frakklands hefur mest áhrif.“ Þetta ástand sem Morawiecki lýsti er hluti af þeim vanda sem kalla má lýðræðishalla Evrópusambandsins og felst meðal annars í því að stóru ríkin, einkum Þýskaland en einnig Frakkland, hafa langmest um ákvarðanir sambandsins að segja. Minni ríkin hafa lítið sem ekkert vægi, þau bíða ákvarðana stóru ríkjanna tveggja sem teknar eru í tveggja manna tali og hittast svo á stærri fundum og stimpla ákvarðanirnar.

Í þessu ljósi er sú umræða sem stundum hefur átt sér stað hér á landi um mikil áhrif smáríkja í besta falli grátbrosleg. Jafnvel ríki á stærð við Pólland hafa sáralítið vægi innan sambandsins, eins og forsætisráðherrann bendir á. Þetta ástand batnar ekki við það að sífellt lengra hefur verið gengið innan Evrópusambandsins í átt að aukinni miðstýringu, það er að segja að valdið er flutt í æ ríkari mæli frá aðildarríkjunum og til Brussel, sem felur einnig í sér aukin völd stóru ríkjanna.

Eitt af því sem forsætisráðherra Póllands hefur áhyggjur af er að nú heyrist „æ oftar að meirihlutinn, fremur en einróma samþykki, eigi að ákvarða framtíð allra ríkja Evrópusambandsins. Að víkja frá meginreglu um einróma samþykki á fleiri sviðum starfsemi ESB færir okkur nær því fyrirkomulagi þar sem þeir sterkari og stærri ráða yfir þeim veikari og minni.“ Og forsætisráðherrann bendir einnig á að það, „að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil, tryggir ekki varanlega og samræmda þróun. Evran kemur jafnvel af stað innbyrðis samkeppni sem sést til að mynda í umframútflutningi sumra ríkja. Það kemur í veg fyrir endurmatshækkun á eigin gjaldmiðli og viðheldur stöðnun í atvinnulífi hjá öðrum ríkjum. Í slíku kerfi teljast jöfn tækifæri einungis orðin tóm.“ Þá segir Morawiecki að skipan Evrópusambandsins verji „okkur ekki nægilega vel að svo stöddu gegn heimsvaldastefnu annarra ríkja. Þvert á móti eru stofnanir og stjórnarvenjur ESB opnar fyrir því að hin rússneska heimsvaldastefna finni sér leið inn enda eru þær sjálfar ekki lausar við freistingu til að ráða yfir þeim veikari.“

Forsætisráðherra Póllands er ekki andstæðingur Evrópusambandsins en hann hefur áhyggjur af því hvernig það er að þróast og bendir á ýmis dæmi um hvernig það hafi brugðist og hversu varasamt það sé að eitt ríki sé um of ráðandi um framvinduna. Hann leggur til að í stað þess að halda áfram á braut æ meiri samruna þá verði stigið skref til baka og horfið aftur til grundvallarins í stað þess „að halda áfram að styrkja yfirbyggingu stofnana“. Vaxandi regluverk sem teygir anga sína til æ fleiri þátta þjóðlífsins, aukin stofnanaumgjörð og yfirþjóðlegt vald samhliða þeim miklu áhrifum sem stóru ríkin hafa innan Evrópusambandsins eru orðin akkilesarhæll þess svo ekki þarf að koma á óvart að forsætisráðherra aðildarríkis stígi fram með svo afgerandi gagnrýni á þróunina.

Nei við ESB!

Íslendingar eru svo lánsamir að ekki hefur tekist, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og ekki allar heiðarlegar, að koma landinu alla leið inn í Evrópusambandið. Þess í stað býr Ísland við EES-samninginn sem hefur tryggt viðskiptahagsmuni landsins gagnvart ríkjum ESB. Í gegnum hann hafa Íslendingar þó kynnst nokkru af þeim vanda sem Morawiecki lýsir, því að aukin ásælni þeirra sem mestu ráða í Evrópusambandinu hefur einnig komið fram í því regluverki sem reynt er að þröngva upp á aðildarríki EESsamningsins sem þó eru ekki í ESB. Gegn þessari þróun þarf að standa og þeir sem gæta hagsmuna Íslands gagnvart Evrópusambandinu og samningnum við það mega ekki gleyma þeirri þróun sem á sér stað innan sambandsins og meðal annars er lýst í grein Mateusz Morawieckis forsætisráðherra. Og þeir mega vitaskuld alls ekki gleyma því hverra hagsmuna þeim ber að gæta.

Sögulegar áskoranir og fölsk stefnumál – Evrópa á krossgötum

Eftir Mateusz Morawiecki

Mbl 22. ágúst 2022

Mateusz Morawiecki forsætisráðherra Póllands

Rússland vill breyta Evrópu í þá mynd sem það hefur þekkt vel undanfarnar aldir, þ.e.a.s. í samstillt stórveldi með sameiginlega skilgreint áhrifasvið.

Stríðið í Úkraínu hefur afhjúpað sannleikann um Rússland. Þeir sem neituðu að taka eftir því að ríki Pútíns hefði tilhneigingu til heimsvaldastefnu verða núorðið að horfast í augu við þá staðreynd að djöflar 19. og 20. aldar hafa nú lifnað við: þjóðernishyggja, nýlendustefna og æ sýnilegri alræðishyggja. Stríðið í Úkraínu hefur þó einnig flett ofan af sannleikanum um Evrópu. Margir Evrópuleiðtogar hafa látið Vladimír Pútín draga sig á tálar og verða nú fyrir áfalli. Endurkoma hinnar rússnesku alræðishyggju ætti ekki að koma okkur á óvart. Rússland hefur jafnt og þétt verið að endurbyggja stöðu sína undanfarin tuttugu ár. Á því tímabili kusu Vesturlönd að taka sér landstjórnmálalegan lúr í stað þess að vera árvökul og skynsöm. Þau kusu að líta framhjá sívaxandi vandamáli í stað þess að standa gegn því fyrr. Evrópa kom sér ekki í þessa stöðu vegna þess að hún var ekki nægilega samþætt heldur vegna þess að hún kaus að hlusta ekki á rödd sannleikans. Sú rödd hefur verið að koma frá Póllandi í mörg ár.

Pólland áskilur sér ekki rétt á sannleikanum en af samskiptum við Rússland hefur Pólland þó talsvert meiri reynslu en aðrir. Lech Kaczynski, fyrrverandi forseti Póllands, hafði rétt fyrir sér, líkt og Kassandra sem sá fyrir fall Trójuborgar. Kaczynski sagði fyrir mörgum árum að Rússland myndi ekki láta staðar numið í Georgíu heldur myndi teygja sig áfram til að sölsa meira land undir sig. Ekki var heldur hlustað á hann. Sú staðreynd að rödd Póllands hafi verið hunsuð er einungis birtingarmynd stærra vandamáls sem ESB stendur frammi fyrir í dag.

Áframhald af greininni

Er lýðræðið dautt?

Arnar Þór Jónsson skrifar minningargrein í Mbl:

Til minningar um lýðræðið

“Frammi fyrir þessu rann smám saman upp fyrir kjósendum að stjórnmálin höfðu umbreyst í leiklestur og stjórnmálamennirnir í brúður.”

Arnar Þór Jónsson

Þótt ekkert fæðingarvottorð sé til er almennt talið að lýðræðið hafi fæðst í Grikklandi á 5. öld f. Kr. og að vöggu þess sé helst að finna í borgríkinu Aþenu. Á æskuskeiði átti lýðræðið góða spretti í Róm, áður en valdagírugir menn komu á einræði með múgæsingarstarfi, ógn og ofbeldi. Eftir það sat lýðræðið lengi í öskustó annars stjórnarfars. Minningin um sólbjarta daga málfrelsis og sjálfstæðis dofnaði en hvarf þó ekki með öllu. Jafnvel þótt þessi minning hafi orðið óljós á myrkustu köflum þessara fyrstu alda var það þó kannski einmitt óljós endurómurinn sem hélt lífi í glóðunum þegar útlitið var sem dekkst. Þrátt fyrir vanþroska og mótlæti braust andi lýðræðisins stundum eftirminnilega í gegn. Til þeirrar sögu má nefna stofnun Alþingis árið 930, Magna Carta (1215) o.fl. Á þessum grunni holdgerðist lýðræðisandinn í Englandi á 17. öld eins og sjá má m.a. í Bill of Rights (1689) sem markaði þáttaskil. Lýðræðið fann rætur sínar og styrktist með hverri raun.

Segja má að átök næstu 100 ára hafi falið í sér dýrmæta þjálfun hvað varðar bæði úthald og styrk. Á þessum mótunarárum naut lýðræðið leiðsagnar úrvals kennara. Við leiðarlok ber að minnast sérstaklega á John Locke (1632-1704) og bók hans, Ritgerð um ríkisvald, sem reyndist lýðræðinu traust handbók í átökum og eftirmálum bandaríska frelsisstríðsins (1765-1791) og frönsku byltingarinnar (1789).

Ekki verður skilið við þetta tímabil án þess að minnast á Sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna (1776), þar sem þrír grundvallarþræðir lýðræðisins, uppruni, markmið og tilgangur, eru glæsilega fléttaðir saman:

1) Guð skapaði alla menn jafna og gaf þeim rétt til lífs, frelsis og til að leita hamingjunnar.
2) Megintilgangur með öllu stjórnarfari er að verja þessi réttindi.
3) Ef ríkið reynir að synja mönnum um þennan rétt er fólki heimilt að gera uppreisn og koma á fót nýrri stjórn.

Saman mynda þessir þrír þræðir erfðamengi lýðræðisins, anda þess og sál, sem síðar má vonandi vekja til nýs lífs. Á blómaskeiði sínu átti lýðræðið glæstar stundir og fóstraði margt það besta sem mönnum hefur tekist að leiða fram, með því að virkja sköpunarkraft, samtakamátt o.fl. Stofnun íslenska lýðveldisins 1944 var mjög í þessum anda, hugdjörf ákvörðun fámennrar en stórhuga þjóðar. Því verður þó ekki á móti mælt, að lýðræðið glímdi alla tíð við meðfædda galla og var t.d. óþægilega ginnkeypt fyrir hvers kyns skrumi. Í alþjóðlegu samhengi leiddu veikleikar lýðræðisins til þess að það féll ítrekað fyrir varasömum mönnum, sem kunnu að spila á strengi sem leiddu fólk í gildru harðstjórnar, þar sem járnkrumla hertist um æðakerfi þjóðlífsins þar til ekkert varð eftir annað en stirðnuð skel og líflaus leikmynd þar sem andlausir leikarar þuldu upp sömu setningarnar í mismunandi útgáfum. Stjórnmálin urðu dauf og líflaus, ekkert kom lengur á óvart. Hver einasta lína var skrifuð af ósýnilegum baktjaldamönnum og óttinn knúði alla til að vanda framburð og látbragð í hvívetna, því sérhvert frávik frá textanum gat varðað atvinnumissi og brottrekstri af sviðinu. Í þessu umhverfi entust þeir lengst í stjórnmálum sem nutu sviðsljóssins mest og höfðu kannski minnst fram að færa frá eigin brjósti, en sýndu hæfni í að endurtaka hugsanir annarra af einlægum sannfæringarkrafti.

Þegar þátttaka í stjórnmálum var ekki lengur þjónustuhlutverk, heldur starfsferill, náðu þeir lengst sem spurðu engra spurninga, voru reiðubúnir að kynda undir óvild manna í garð samborgara sinna, veigruðu sér ekki við að hóta þeim sem sýndist skorta undirgefni og hikuðu ekki við að framfylgja fyrirskipunum með valdbeitingu. Frammi fyrir þessu rann smám saman upp fyrir kjósendum að stjórnmálin höfðu umbreyst í leiklestur og stjórnmálamennirnir í brúður. Niðurlægingin var svo mikil og svikin svo sárgrætileg að enginn vildi viðurkenna að þetta væru dauðamörk. Enginn nema börn og stöku eldri borgarar höfðu einlægni til að spyrja:

„Til hvers að taka þátt í pólitík ef þú ætlar ekki að segja það sem þér sjálfum finnst?“

Ef marka má sögu lýðræðisins mun ekkert breytast fyrr en menn rísa upp gegn ofríkisöflunum og hafna andleysinu í þeim tilgangi að verja líf sitt og frelsi til gagnrýninnar hugsunar, málfrelsi sitt og frelsi til athafna, samvinnu, uppbyggingar og friðar. Aðeins þannig getur lýðræðið vaknað til nýs lífs.

Hafa Íslendingar þrek til þess eða kjósa menn enn að dvelja sofandi á draumþingum og hlusta hálfsofandi á léleg handrit leiklesin á öllum sviðum einkalífs og þjóðlífs?

Höfundur er sjálfstætt starfandi lögmaður og formaður Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál.
arnarthor@griffon.is