Stokkhólmsheilkennið og stjórnarskráin

Júlíus Valsson:
Sjálfstæðisflokknum hefur verið rænt og þingmönnum flokksins er haldið í gíslingu!

Gíslarnir í eyðimörkinni fyrir trúarskiptin

Horfði í gær á þátt í sænska sjónvarpinu um hann Jóhann Gustafson frá Smálöndum í Suður Svíþjóð. Duglegur ungur drengur sem fór á mótorhjóli um Afríku ásamt vinum sínum. Í Malí datt þeim í huga að skoða borgina Timbuktu, aðallega til að merkja við hana á ferðakortinu. Þar var honum og félögum hans rænt af al-Qaeda skæruliðum og haldið í gíslingu í rúm fimm ár (þ.e. í rúmt eitt kjörtímabil). Til þess að friðmælast við ræningjana þá tók hann múslimatrú og þá voru honum skyndilega allir vegir færir. Í stað þessa að kúldrast einn í búri í brennheitri Sahara eyðimörkinni á daginn og henni ískaldri á kvöldin drakk hann nú te með mannræningjunum, fékk sama mat og þeir, spjallaði kumpánlega við þá við varðeldinn og gat hreyft sig um að vild. Sem múslimi átti hann það ekki á hættu að vera tekinn af lífi. Honum þótti orðið vænt um ræningjana. Johann þakkar sínum sæla fyrir að hafa lesið um sænska bankaræningjann Jan-Erik Olsson sem „fann upp“ Stokkhólmsheilkennið árið 1973. Allir gíslar hans elskuðu og dáðu „Janne Olson“.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru nú í sömu aðstæðum Johann hinn sænski í eyðimörkinni og gíslarnir í sænska bankanum við Norrmalmstorg. Þeim hefur verið rænt. Til þess að fá að drekka te með forystunni, spjalla óheft um menn og málefni og eiga það ekki á hættu að vera útskúfaðir þurfa þeir að samþykkja allar tilskipanir ESB, sama hvaða nafni þær nefnast, jafnvel þær sem stangast á við stjórnarskrána, og alla almenna skynsemi. Þeir fá jafnvel að skrifa greinar í Moggann um stefnu Sjálfstæðisflokksins og halda flokkráðsfundi svo lengi sem þeir minnast ekki einu orði á að þeim hafi verið rænt, hvað þá að ræða um 3. orkupakkann og alls ekki má nefna Bókun 35.  

Aukið heilbrigði eða ríkisstyrkir

Það er sannfæring okkar félaga að skynsamlegra sé að styrkja stöðu einkarekinna fjölmiðla með því að takmarka verulega samkeppnisrekstur ríkisins

Óli Björn Kárason skrifar í Mbl

Óli Björn Kárason

Þegar þessi orð eru sett niður á blað er rúm klukkustund í að atkvæðagreiðslur hefjist í þingsal um nokkur frumvörp ríkisstjórnarinnar. Gangi allt eins og lagt er upp með verða fimm frumvörp orðin að lögum um það leyti sem margir fá sér síðdegiskaffi. Fæst hafa áhrif á daglegt líf okkar, en geta skipt máli til lengri eða skemmri tíma. Ég óttast hins vegar að eitt frumvarpið ýti samfélaginu inn á hættulegar brautir. Lögum um aðgerðir gegn markaðssvikum er ætlað að stuðla að auknu heilbrigði fjármálamarkaða, efla fjárfestavernd og traust fjárfesta á fjármálamörkuðum. Framhaldi ferðagjafar er ætlað að vinna gegn neikvæðum áhrifum kórónuveirufaraldursins á starfsemi fyrirtækja í ferðaþjónustu. Markmið með breytingum á lögum um fiskeldi er að stuðla að betri nýtingu fjarða og hafsvæða til fiskeldis. Með breytingu á bráðabirgðaákvæði í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er framlengd heimild til að semja um rýmri vinnutíma en ákvæði laganna gera ráð fyrir vegna þeirra starfsmanna sem veita þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Fimmta frumvarpið sem verður að lögum er beinn stuðningur ríkisins við starfsemi einkarekinna fjölmiðla. Með samþykkt þess er stigið fyrsta skrefið í að gera sjálfstæða fjölmiðla fjárhagslega háða ríkisvaldinu. Í stað þess að ráðast að rót vandans – sem er forréttindi ríkisrekinnar fjölmiðlunar – er leið ríkisstyrkja valin.

Fátt hættulegra

Ég hef lengi varað við að innleitt verði flókið kerfi millifærslna og ríkisstyrkja. Í júní 2018 skrifaði ég meðal annars: „Fátt er hættulegra fyrir frjálsa fjölmiðlun en að vera háð opinberum styrkjum og nefndum á vegum hins opinbera sem skammta úr hnefa fjármuni til að standa undir einstökum þáttum í rekstrinum. Fjölmiðlun sem er háð hinu opinbera með beinum hætti verður aldrei frjáls nema í orði.“ Engum ætti því að koma á óvart að ég geti ekki stutt stjórnarfrumvarp um stuðning við fjölmiðla, jafnvel þótt meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar hafi gert skynsamlegar breytingar á frumvarpinu. Þar skiptir mestu að stuðningurinn verður tímabundinn. Með samþykkt frumvarpsins eru þingmenn ekki að plægja jarðveginn fyrir fjölbreytta flóru fjölmiðla sem tryggir að réttar upplýsingar séu dregnar fram, að ólík sjónarmið fái að heyrast og nauðsynlegt aðhald sé að helstu stofnunum samfélagsins

Lesa meira

Á hvaða leið eru flokkarnir?

Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl

Stjórnmálaflokkarnir sem urðu til snemma á síðustu öld endurspegluðu það samfélag sem þá var. Samfélagið hefur tekið breytingum og flokkarnir líka en það þýðir ekki að þeir endurspegli samfélagið jafn vel nú og þá. Þvert á móti. Þetta á ekki sízt við um hina hefðbundnu vinstriflokka, VG og Samfylkingu. Þess sjást engin merki að þeir reyni að undirstrika fyrri tengsl við verkalýðshreyfinguna. Samfylkingin sérstaklega virðist sjá um hagsmunagæzlu fyrir háskólaborgara og hefur í leit að frambjóðendum engan áhuga á verkalýðshreyfingunni. Það eru einna helzt Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn sem leggja áherzlu á málefni fyrrverandi skjólstæðinga Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Sjálfstæðisflokkurinn var reyndar orðinn annar öflugasti launþegaflokkur landsins fyrir 60 árum en hefur misst áhugann á þeim kjósendahópi án þess að nokkrar skýringar hafi fengizt á því. Á sama tíma hafa umsvif hagsmunavarða aukizt mjög og þau ná líka til stjórnmálaflokkanna. Þeir vinna nú markvisst innan sumra flokkanna fyrir umbjóðendur sína en sérstaklega þó innan Sjálfstæðisflokksins. Annars vegar gagnvart ráðamönnum flokksins og hins vegar að einhverju leyti innan flokksins í einstökum hópum þar. Kannski er þessi hagsmunavarzla skýringin á þeim breyttu áherzlum innan Sjálfstæðisflokksins sem nefndar voru hér að framan. Það er líklegt til árangurs þegar heilt hús við Borgartún puðar á hverjum degi. Einn eftirminnilegasti fundur sem greinarhöfundur sat á Viðreisnarárunum var þegar Bjarni heitinn Benediktsson, þá forsætisráðherra, skammaði kaupmenn fyrir kröfur þeirra þegar almenningur var að taka á sig byrðar. Síðan hefur slík ræða ekki verið flutt en það skortir ekki tilefni.

Lesið áfram….