Aukið heilbrigði eða ríkisstyrkir

Það er sannfæring okkar félaga að skynsamlegra sé að styrkja stöðu einkarekinna fjölmiðla með því að takmarka verulega samkeppnisrekstur ríkisins

Óli Björn Kárason skrifar í Mbl

Óli Björn Kárason

Þegar þessi orð eru sett niður á blað er rúm klukkustund í að atkvæðagreiðslur hefjist í þingsal um nokkur frumvörp ríkisstjórnarinnar. Gangi allt eins og lagt er upp með verða fimm frumvörp orðin að lögum um það leyti sem margir fá sér síðdegiskaffi. Fæst hafa áhrif á daglegt líf okkar, en geta skipt máli til lengri eða skemmri tíma. Ég óttast hins vegar að eitt frumvarpið ýti samfélaginu inn á hættulegar brautir. Lögum um aðgerðir gegn markaðssvikum er ætlað að stuðla að auknu heilbrigði fjármálamarkaða, efla fjárfestavernd og traust fjárfesta á fjármálamörkuðum. Framhaldi ferðagjafar er ætlað að vinna gegn neikvæðum áhrifum kórónuveirufaraldursins á starfsemi fyrirtækja í ferðaþjónustu. Markmið með breytingum á lögum um fiskeldi er að stuðla að betri nýtingu fjarða og hafsvæða til fiskeldis. Með breytingu á bráðabirgðaákvæði í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er framlengd heimild til að semja um rýmri vinnutíma en ákvæði laganna gera ráð fyrir vegna þeirra starfsmanna sem veita þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Fimmta frumvarpið sem verður að lögum er beinn stuðningur ríkisins við starfsemi einkarekinna fjölmiðla. Með samþykkt þess er stigið fyrsta skrefið í að gera sjálfstæða fjölmiðla fjárhagslega háða ríkisvaldinu. Í stað þess að ráðast að rót vandans – sem er forréttindi ríkisrekinnar fjölmiðlunar – er leið ríkisstyrkja valin.

Fátt hættulegra

Ég hef lengi varað við að innleitt verði flókið kerfi millifærslna og ríkisstyrkja. Í júní 2018 skrifaði ég meðal annars: „Fátt er hættulegra fyrir frjálsa fjölmiðlun en að vera háð opinberum styrkjum og nefndum á vegum hins opinbera sem skammta úr hnefa fjármuni til að standa undir einstökum þáttum í rekstrinum. Fjölmiðlun sem er háð hinu opinbera með beinum hætti verður aldrei frjáls nema í orði.“ Engum ætti því að koma á óvart að ég geti ekki stutt stjórnarfrumvarp um stuðning við fjölmiðla, jafnvel þótt meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar hafi gert skynsamlegar breytingar á frumvarpinu. Þar skiptir mestu að stuðningurinn verður tímabundinn. Með samþykkt frumvarpsins eru þingmenn ekki að plægja jarðveginn fyrir fjölbreytta flóru fjölmiðla sem tryggir að réttar upplýsingar séu dregnar fram, að ólík sjónarmið fái að heyrast og nauðsynlegt aðhald sé að helstu stofnunum samfélagsins

Út af samkeppnismarkaði

Í liðinni viku mælti ég fyrir frumvarpi, sem ég lagði fram ásamt Brynjari Níelssyni, um breytingar á lögum um Ríkisútvarpið. Markmið frumvarpsins er að jafna samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla gagnvart ríkisreknu fjölmiðlafyrirtæki í tveimur skrefum. Í fyrra skrefinu verði Ríkisútvarpinu óheimilt að stunda beina sölu á auglýsingum, hlutfall auglýsinga fari ekki yfir fimm mínútur á hvern klukkutíma í útsendingartíma og að óheimilt verði að slíta í sundur dagskrárliði með auglýsingum. Þá sé Ríkisútvarpinu bannað að afla kostunar á dagskrárliði. Takmarkanir þessar verði á tímabilinu 1. janúar 2022 til og með 31. desember 2023. Frá ársbyrjun 2024 verði samkeppnisrekstri Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði hætt. Í greinargerð er því haldið fram að frjáls fjölmiðlun á Íslandi standi höllum fæti. Á sama tíma og samkeppnisstaðan er skekkt með lögverndaðri yfirburðastöðu Ríkisútvarpsins standi einkareknir innlendir fjölmiðlar frammi fyrir harðri sókn alþjóðlegra stórfyrirtækja inn á auglýsingamarkaðinn. Að nokkru er þetta hluti af stærri vanda en stofnanir og fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga eru víða í samkeppni við einkaaðila. „Vísbendingar eru um að opinberir aðilar, ekki síst opinber hlutafélög, hafi hert samkeppnisrekstur sinn á síðustu árum,“ segir í greinargerðinni og um leið bent á að þegar hið opinbera keppir við einkarekstur sé mikilvægt að tryggja jafnræði með eins góðum hætti og kostur er. Reglur verði að vera skýrar og afmarkaðar um umfang opinbers samkeppnisrekstrar. Þá segir einnig: „Umsvif opinberra aðila á samkeppnismarkaði geta leitt til skaðlegrar fákeppni, rutt sjálfstæðum rekstri út af markaði og jafnvel leitt til einokunar. Undir slíkum aðstæðum er nýjum aðilum gert erfiðara fyrir að hasla sér völl á markaði. Leiða má rök að því að samkeppnisrekstur hins opinbera geti unnið gegn markmiði samkeppnislaga sem er að efla virka samkeppni í viðskiptum. Opinberir aðilar njóta oft forskots á grundvelli laga í samkeppni við einkaaðila. Dæmi um þetta er fjölmiðlarekstur ríkisins undir hatti Ríkisútvarpsins ohf. Augljóst er að samkeppnisrekstur ríkisins hefur verulega neikvæð áhrif á rekstur og fjárhag sjálfstæðra fjölmiðla sem flestir standa höllum fæti. Takmörkun á umsvifum og síðar bann við samkeppnisrekstri á sviði auglýsinga og kostunar ætti því að öðru óbreyttu að bæta hag sjálfstæðra fjölmiðla.“

Fremur verkjalyf

Því miður eru litlar líkur á því að frumvarpið fái efnislega umfjöllun í nefnd, en auðvitað er haldið í vonina. Það er sannfæring okkar félaga, eins og raunar margra annarra þingmanna, að skynsamlegra sé að styrkja stöðu einkarekinna fjölmiðla með því að takmarka verulega samkeppnisrekstur ríkisins fremur en að koma upp flóknu kerfi millifærslna og ríkisstyrkja. Slíkt stuðli að auknu heilbrigði á fjölmiðlamarkaði, með lítillega auknu jafnræði milli ríkisfjölmiðlunar og sjálfstæðra fjölmiðla. Auk takmörkunar á samkeppnisrekstri ríkisins hef ég áður lagt til að rekstur sjálfstæðra fjölmiðla verði styrktur með skattalegum aðgerðum, þar sem jafnræðis er gætt. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að góður meirihluti þingmanna styðji aukna ríkisvæðingu fjölmiðlunar og stigi í fótspor læknisins sem kemur sér undan því að skera sjúklinginn upp til að koma honum til heilsu en velur fremur að gefa honum verkjalyf til að halda honum á lífi þótt lífsgæðin séu ekki mikil eða framtíðin björt.

Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins.