Sérstakt félag sjálfstæðismanna um fullveldismál – Til hvers?

Þegar stjórnmálaflokkur fer ekki eftir grundvallarstefnu sinni þá starfar hann í umboðsleysi. Fólkið sem kaus flokkinn er flokkurinn og það má krefjast þess að þeir sem hyggjast stjórna í umboðsleysi verði settir af.

Forsaga

Félag Sjálfstæðismanna um fullveldismál (FSF) var stofnað undir forystu Styrmis Gunnarssonar þann 1. desember 2019. Kveikjan að stofnun félagsins var sú að stuttu áður höfðuallir þingmenn Sjálfstæðisflokksins (að einum undanskildum) samþykkt innleiðingu þriðja orkupakka ESB í íslensk lög. Hvers vegna samþykkti þingflokkur Sjálfstæðismanna á Alþingi framsal á yfirstjórn orkuauðlinda Íslands til ESB? Skýringuna er a.m.k. ekki að finna í ályktunum landsfundar flokksins því á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 16. – 18. mars 2018 segir eftirfarandi í ályktun atvinnuveganefndar í kaflanum um iðnaðar- og orkumál:

“Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.”

Samkvæmt lögum flokksins er landsfundur „æðsta vald í málefnum flokksins. Hann markar heildarstefnu flokksins í landsmálum og setur reglur um skipulag hans.”

Því er enn ósvarað, hvers vegna þingmenn Sjálfstæðisflokksins samþykktu innleiðingu þriðja orkupakka ESB í íslensk lög. Það er flestum Sjálfstæðismönnum með öllu óskiljanlegt enda hefur ríkt sátt um skipan íslenskra orkumála, svo sem að orkuverin séu í eigu Íslendinga eða að arðurinn fari til almennings og fyrirtækja í gegnum lágt orkuverð.

Hvaða hagsmunir lágu þar að baki? Er ekki lengur hægt að treysta forystu flokksins til að framfylgja stefnu hans? Hvað kom eiginlega fyrir Sjálfstæðisflokkinn?

Samband forystunnar við flokksmenn hefur rofnað

Ríkisvæðing stjórnmálaflokkanna er líklega einn versti gjörningur á síðari tímum gegn lýðræðinu. Flokkarnir hafa ekki lengur sömu þörf fyrir flokksmenn sína og sambandið við hinn almenna flokksmann hefur rofnað. Þetta er einkum áberandi í Sjálfstæðisflokknum sem áður gat státað af langöflugasta flokksstarfinu einkum vegna  fjölmennra hverfafélaga í Reykjavík og félögum Sjálfstæðismanna um allt land. Engin alvöru pólitísk umræða fer lengur fram í flokknum og félagsstarfsemi er með minnsta móti. Sem dæmi voru allar stjórnmálaumræður hnepptar í Gleipnisfjötra á síðasta landsfundi. Vandamál Sjálfstæðisflokksins er ekki síst sá, að forustumennirnir eru ekki í nægjanlega góðum tengslum við flokksmenn. Hér á árum áður þá fóru þingmenn um landið þegar Alþingi var ekki að störfum og töluðu við flokksmenn og héldu héraðsmót. Nú fara þér í golf og laxveiðar og eru lítt til viðræðu fyrr en þing kemur saman á nýjan leik. Fylgi flokksins hefur því dalað svo um munar í skoðanakönnunum. Hvað veldur?

Hvers vegna að kjósa Sjálfstæðisflokkinn?  

Hvernig ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að heilla til sín kjósendur í næstu Alþingiskosningum? Hvaða baráttumál flokksins verða sett á oddinn? Af hverju getur Sjálfstæðisflokkurinn státað af langri setu í þriggja flokka ríkisstjórn? Hvernig hefur flokkurinn staðið sig í fullveldismálum og samskiptum við ESB? Hefur hann sett hagsmuni þjóðarinnar framar öðrum hagsmunum? Hefur hann sinnt hagsmunum hins almenna kjósanda?

Syndalistinn

Syndalisti forystu Sjálfstæðisflokksins er orðinn æði langur og lengist stöðugt:

  1. Á síðasta landsfundi var gerð alvarleg aðför að lýðræðinu í flokknum framsögumaður málefnanefndar mælti gegn tillögum meirihluta nefndarinnar, sem voru síðan felldar vegna þess að Sjálfstæðisfólk mátti ekki taka skynsamlega afstöðu í málefnum hælisleitenda. Flokksmenn hafa algjörlega misst tiltrúna á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, hafi hún einhver verið fyrir. 
  2. Flokkurinn hefur hefur staðið fyrir því að ákvarðanir um  landamæragæslu er komnar í hendur erlendra aðila vegna aðildar Íslands að Schengen. 
  3. Sú ákvörðun að leggja skyndilega fram frumvarp til að innleiða bókun 35 við EES-samninginn og ætla að samþykkja hana án umræðu er gróf aðför að fullveldi Íslands á flestum sviðum. Hvaða Sjálfstæðismanni dettur í hug að framselja löggjafarvald Alþingis til ESB? 
  4. Fullveldisframsalið varðandi orkumál var augljóst þegar þriðji orkupakki ESB var samþykktur af Sjálfstæðisflokknum. 
  5. Persónuverndarlög ESB, sem voru innleidd af Alþingi, eru þegar farin að setja hömlur á tjáningarfrelsi Íslendinga t.d. þegar erlendar vefsíður eru farnar að loka á Ísland í síauknu mæli. ESB er farið að beita sektum á íslensk fyrirtæki vegna laganna sem eiga í raun mun betur við milljónaþjóðir en fámennt samfélag.
  6. Óheftar innleiðingar á regluverki ESB eru að setja verulega íþyngjandi kröfur á lítil íslensk fyrirtæki og hefur einnig valdið því að eftirlitsstofnanir ríkisins hafa bólgnað út með sífellt auknum kostnaði.
  7. Aðför að málfrelsinu er gerð með haturslögum ESB, sem m.a. mun hafa enn frekari lokanir á vefsíðum í för með sér og setja verulegar skorður á tjáningarfrelsið í andstöðu við stjórnarskrá Íslands.
  8. Flokkurinn hefur einnig brugðist algerlega í hagsmunagæslu vegna mengunarkvóta ESB sem mun leggjast þungt á samfélagið innan nokkurra ára og hefur ESB ekki tekið í mál að endurskoða hann þótt hann sé bersýnilega mjög ósanngjarn gagnvart Íslandi. Á Íslandi er nánast öll raforkuframleiðsla græn og kynding húsa með hitaveitu. Engin viðurkenning hefur verið veitt fyrir þessa staðreynd og talað er eins og að framtak okkar til umhverfismála sé slæmt.
  9. Ríkisútgjöld hafa stóraukist og skattar og álögur hafa hækkað. Tryggingagjaldið er enn mikill dragbítur á fyrirtæki og stofnun nýrra fyrirtækja. Ríkisstarfsmönnum fjölgar stöðugt. Vinnandi mönnum er hegnt fyrir dugnað með því að skerða örorku- og ellilífeyri sem er í algjörri andstöðu við sjálfstæðisstefnuna. Í staðinn styðja þingmenn við glórulaus gæluverkefni vinstri manna svo sem Borgarlínu og óheftan innflutning hælisleitenda
  10. Ekkert samráð er haft um afdrifaríkar ákvarðanir í ýmsum málum t.d. viðskiptabann á Rússa, vopnasendingar á klasasprengjum til Úkraínu, brottrekstur sendiherra Rússa, lokun sendiráðs Íslands í Moskvu o.fl. Hvort skipta eigi um þjóð í landinu og gera ensku að opinberu máli hér á landi.
  11. Voru sjálfstæðismenn einhvern tímann spurðir að því hvort þeir vildu að það yrði stefna Sjálfstæðisflokksins að ráðast að skoðana- og tjáningarfrelsinu? 

Lokaorð

Þegar stjórnmálaflokkur fer ekki eftir grundvallarstefnu sinni þá starfar hann í umboðsleysi. Fólkið sem kaus flokkinn er flokkurinn og það má krefjast þess að þeir sem hyggjast stjórna í umboðsleysi verði settir af. Eins og mál standa nú er einungis tímaspursmál hvenær hinn almenni kjósandi Sjálfstæðisflokksins yfirgefur sinn gamla flokk því núverandi forysta hans virðir hvorki grunngildi eða stefnuskrá hans og þverbrýtur endurtekið stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Varla hefur flokkurinn efni á enn einum klofningnum en kjörfylgi hans hefur aldrei verið lægra.

Félag sjálfstæðismanna um fullveldismál var stofnað af sjálfstæðismönnum sem allir höfðu
lengi starfað með flokknum og gegnt trúnaðarstöðum fyrir hann. Markmið félagsins er að
endurreisa flokkinn, ásýnd hans og hlutverk í íslenskum stjórnmálum og ná aftur fyrri reisn og bæta orðspor hans. Allir þeir sem aðhyllast stefnu og grunngildi flokksins eru hvattir til að ganga í Félag Sjálfstæðismanna um fullveldismál.

Stjórn félags sjálfstæðismanna um fullveldismál

Hægt er að skrá sig í félagið á fullveldisfelag@gmail.com

Aðalfundur FSF 2023

Félag Sjálfstæðismanna Um Fullveldismál

F.S.U.F.

Aðalfundur 2023 var haldinn í Valhöll þ. 11. Júlí 2023 kl. 17:00

Auglýst dagskrá:

 1.            Ársreikningur lagður fram til samþykktar

 2.            Skýrsla stjórnar

 3.            Kosning formanns

 4.            Kosning stjórnar

 5.            Kosning varastjórnar

 6.            Kosning framkvæmdastjórnar

 7.            Ákvörðun upphæðar félagsgjalda 2023

 8.            Ákvörðun um opna félagsfundi í lok ágúst 2023.

 9.            Önnur mál.

  1. Ársreikningur  

Birgir Steingrímsson gjaldkeri FSF lagði fram ársreikning félagsins og var hann samþykktur einróma

2. Skýrsla stjórnar

Arnar Þór Jónsson formaður FSF flutti skýrslu stjórnar. þar kom m.a. fram að starfsemi félagsins hafi verið mjög virk á starfsárinu og hafi verið og verið áfram afar mikilvægt innlegg í stöðugri baráttu fyrir fullveldi Íslands. Haldnir voru fjölmennir opnir fundir m.a. um útlendingamál með Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra og merk ráðstefna í Reykholti með norska lagaprófessornum Hans Petter Graver um lýðræði, sjálfstjórnina og fleiri áhugaverðum fyrirlesurum.

FSF var stofnað 2019 í kjölfar samþykktar Alþingis á innleiðingu 3. orkupakkaESB í íslensk lög sem var gróf aðför að fullveldi Íslands í eigin orkumálum. Sá gjörningur var sjálfstæðismönnum mikill sorgaratburður ekki síst þar sem þar voru í fararbroddi ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Nú glímir þjóðin við enn stærri vanda vegna framgöngu ráðherra flokksins þ.e. yfirvofandi innleiðing Bókunar 35 við EES samninginn sem kveður á forgang laga og reglugerða ESB fram yfir íslensk lög! Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður á sínum tíma til þess að hér gæti búið frjáls þjóð í frjálsi landi. Hvert er frelsið ef við ráðum ekki sjálf þeim lögum sem hér eiga að gilda? ESB stefnir hraðbyri að stofnun sambandsríkis („Ever Closer Union“ skv. Rómarsáttmálanum) þar sem lýðræðislegt vald fólksins, löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdavald er fært á hendur fjarlægs, yfirþjóðlegs, ólýðræðislegs, skrifræðisveldis. Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur að standa fyrir lýðræðislegu aðhaldi og valddreifingu. Ef forysta flokksins heldur áfram þeirri stefnu að jaðarsetja þetta félag og koma í veg fyrir að það öðlist fulla aðild að Landsfundum flokksins þá hlýtur að koma að þeim tímapunkti að sú stefna flokksins bíti hann sjálfan í hnakkann.

Að því kann að koma að fólk sem aðhyllist kjarnagildi Sjálfstæðisflokksins, klassískt frjálslyndi og hófsamt íhald og að við stjórnum sjálf okkar eigin för, að það átti sig á því að við getum ekki verið áfram í flokki sem aðhyllist einhvers konar sósíal-kratisma undir forystu sem beinir Íslandi sífellt meir undir áhrifavald ESB án þess að slíkt hafi verið borið undir þjóðina. Með þessu er verið að vanvirða grundvallarstefnu flokksins og þann málflutning sem á sér stað á vettvangi FSF. Við viljum að sjálfsögðu koma í veg fyrir klofning úr Sjálfstæðisflokknum með öllum tiltækum ráðum. En til þess þarf forysta þessa ágæta flokks að viðurkenna rætur sínar og hætta að óttast háværan minnihluta í flokknum en virða þess í stað hinn þögla meirihluta sem hrópar á lýðræði og fullveldi Íslandi til handa. Helsta ósk og hvatning formanns FSF er að við stöndum saman um fullveldið og að við reynum okkar allra besta til stýra flokknum okkar inn á þær brautir sem honum er ætlaðar og til að standa undir þeirri ábyrgð sem honum er ætlað að verja.     

3. Kosning formanns

Arnar Þór Jónsson var sjálfkjörinn formaður FSF. Önnur formannsframboð bárust ekki fyrir aðalfundinn.

4. Kosning stjórnar

Aðalstjórn

Arnar Þór Jónsson

Birgir Örn Steingrímsson
Elinóra Inga Sigurðardóttir
Jón Kári Jónsson
Júlíus Valsson

Varamenn:

Erlendur Borgþórsson
Ingibjörg Sverrisdóttir
Jón Magnússon
Pjétur Stefánsson
Þórður Birgisson

Framkvæmdastjórn:

Ásmundur Friðriksson
Erling Óskar Kristjánsson
Geir Waage
Gísli Ragnarsson
Guðfinnur Halldórsson
Guðmundur Pálsson
Jóhann Birgisson
Ólafur Hannesson
Svala Magnea Ásdísardóttir
Viðar Guðjohnsen jr

Varamenn í framkvæmdastjórn:

Albert Guðmundsson
Halldór Gunnarsson
Halldóra Hjaltadóttir
Júlíus Hafstein
Ólafur Egilsson
Ólafur Ísleifsson
Ragnar Árnason
Ragnar Önundarson

7. Félagsgjald 2023

Félagsgjald fyrir árið 2023 verði kr. 7.000.-

8. Lagabreytingar

Engar tillögur um lagabreytingarhafa borist

9. Fundarröð vegna Bókunar 35 

Samþykkt var tillaga formanns félagsins um að fara fundarherferð á nokkra staði og halda opna félagsfundi um Bókun 35 við EES í ágúst úti á landi t.d. á Akureyri, Egilsstöðum, Selfossi,   Keflavík og á Akranesi. Vekja þarf þjóðina til vakningar um þann vágest sem þar er fyrir dyrum að frumkvæði utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins. Til stendur að færa löggjafarvald Alþingis nær alfarið undir áhrifavald ESB.

10. Önnur mál

Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum héldu erindi þeir Birgir Þórarinsson alþingismaður og Ragnar Önundarson f.v. bankastjóri.  Að því loknu hófust fyrirspurnir úr sal og fjörugar umræður. Þessum fyrirlestrum verður gerð nánari skil síðar.

Fundi var slitið kl 20:00.

Við pennann:

Júlíus Valsson aðalritari

Ályktun FSF vegna stjórnarmyndunarviðræðna

Frá Félagi Sjálfstæðismanna um Fullveldismál

Ný ríkisstjórn Íslands þarf að takast á við fjölþættan vanda ekki síst vegna þeirra víðtæku áhrifa og þess gríðarlega kostnaðar, sem Covid-19 faraldurinn hefur haft fyrir þjóðarbúið. 

Sjálfstæðisflokkurinn verður að gæta þess í stjórnarmyndunarviðræðum og í starfi að hafa ætíð í heiðri ályktanir landsfunda Sjálfstæðisflokksins einkum hvað varðar frelsi einstaklingsins og fullveldi íslensku þjóðarinnar. Í því sambandi er nauðsynlegt að taka EES samninginn til endurskoðunar á þessu kjörtímabili.

Til þess að Ísland verði raunverulegt land tækifæranna er grundvallaratriði, að borgararnir fái sem mest frelsi til arðsköpunar, skattar verði í lágmarki og auðlindir landsins verði nýttar til arðsköpunar í sátt við eðlileg verndarsjónarmið, þannig að ekki verði gengið á landsins gæði til tjóns fyrir komandi kynslóðir. 

Í stjórnarmyndunarviðræðum  nú er því nauðsynlegt að vikið verði af þeim vegi friðunar nánast allra staða sem bjóða upp á hefðbundna orkunýtingu og hefur leitt til þess að sumir landshlutar búa við ótryggt og óviðunandi ástand í orkumálum. 

Horfast verður í augu við það að aðgerðaráætlun ríkisins í loftslagsmálum stenst ekki og mun stofna til gagnslausra fjárfestinga, sem leggja óbærilegar byrðar á neytendur og atvinnulíf á komandi árum, þannig að ólíklegt er, að Ísland verði ”land tækifæranna” verði henni fylgt eftir. Ísland þarf að öðlast viðurkenningu á framlagi sínu til loftslagsmála, sem felst í málmbræðslu með hreinni orku. Eigi að kaupa losunarkvóta til áframhaldandi iðnaðar á þessu sviði eru orkulindir á Íslandi nánast verðlausar.

Taka verður skipulag heilbrigðismála til gagngerrar endurskoðunar og gera þær breytingar sem eru nauðsynlegar til að nýta þjónustu verktaka og annan einkarekstur til að gera gott kerfi fjölbreyttara, öruggara og betra fyrir þá sem þurfa á þjónustu þess að halda. Hefjast skal strax handa við að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús á nýjum stað. Stórbæta þarf aðgengi landsbyggðarinnar að heilbrigðisþjónustunni. 

Nauðsynlegt er að við nýtum okkur sjávarútvegsauðlindina í meira mæli en gert hefur verið á undanförnum árum. Eftir rúmlega 40 ára ákveðnar friðunaraðgerðir sem hafa ekki skilað þeim árangri, sem til var ætlast er full ástæða til að skoða frekari markaðsvæðingu í sjávarútvegi,  rýmkun aflaheimilda sérstaklega á grunnslóð og aukinn sveigjanleika í úthlutun aflaheimilda.

Sjálfstæðisflokkurinn verður að móta ákveðna stefnu í næstu ríkisstjórn um nauðsynlegar breytingar til að auðvelda ungu fólki að eignast eigin íbúð án þess að það þurfi að sæta félagslegu skömmtunar- og eða leigukerfi. Sú stefna Sjálfstæðisflokksins, sem var einn hornsteinn félagsmálastefnu flokksins um áratuga skeið, að auðvelda ungu fólki að verða eignafólk er mikilvæg og hana verður að endurvekja m.a. með því að frumkvæði og kraftur unga fólksins verði leystur úr læðingi og sé virkjaður með einstaklingsbundnum lóðaúthlutunum í stað þess að lóðaúthlutanir verði aðallega eða nánast eingöngu til stórra byggingaraðila.

Gæta verður þess, að innflutningur fólks verði ekki óhóflegur, til að komast hjá samfélagslegum óstöðugleika og þeirri hættu að þjóðfélagsgerð okkar raskist í grundvallaratriðum eins og raunin er í ýmsum nágrannalöndum okkar. Gera verður kröfu til þeirra, sem flytja búsetu sína til landsins, að þeir læri íslensku og fái fræðslu um sögu landsins og grundvallaratriði íslenskrar þjóðmenningar.

 Bregðast verður við óhóflegum áhuga erlendra auðmanna til að kaupa jarðnæði og auðlindir á Íslandi með því að skerpa á allri sýn, löggjöf og reglum, sem varða eignarhald á landi og auðlindum. Stjórnvöld þurfa að og að endurskoða lög um auðlindir í jörðu

Á sama tíma og gert verið átak til að tryggja ungu fólki farsæld og góða möguleika í lífinu þá verði brugðist við réttmætum og sanngjörnum kröfum eldri borgara til að  ná því grundvallarmarkmiði lýðræðisþjóðfélags, að sátt verði með kynslóðunum og velferð bæði æsku og elli tryggð með viðunandi hætti. Þá verði þess gætt, að framtak og vinnusemi fólks nýtist samfélaginu, en með því væri stigið skref til þess,  að Ísland verði land tækifæranna. 

Gera þarf stórátak í samgöngumálum, ekki síst á Stór-Reykjavíkursvæðinu og tryggja að íbúarnir hafi frjálst val um þá samgöngumáta sem hentar þeim best.

Tryggt verði að skipulagsákvarðanir og framkvæmdir einstakra sveitarfélaga tefji ekki samgöngur um þjóðvegakerfi landsins óhóflega með tilheyrandi kostnaði fyrir neytendur.

Nýsköpun, framsækni og dugnaður er forsenda velmegunar í samkeppnisþjóðfélagi eins og okkar og Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur íslenskra stjórnmála, sem ber skyldu til þess að einstaklingurinn fái jafnan að sýna það sem í honum býr og njóta eigin arðsköpunar.

Samþykkt á stjórnarfundi Félags sjálfstæðismenna um fullveldismál haldinn í Valhöll þ. 9. október 2021