Ingibjörg H. Sverrisdóttir skrifar í Mbl
Hér á landi búa margar kynslóðir með ýmsar þarfir sem hlúa þarf að með mismunandi hætti. Miklu skiptir við alþingiskosningar í haust, að vel takist til við val á þingmönnum og mikilvægustu hagsmunir og sjónarmið fólksins í landinu eigi sér málsvara á Alþingi. Á það hefur skort að eldra fólk ætti málsvara á Alþingi og sennilega er það þess vegna sem hagsmuna þess hefur ekki verið gætt eins vel og nauðsyn hefur borið til á þeim vettvangi. Eitt er þó víst að aldraðir eiga svo sannarlega inni þann rétt að vel sé hugsað fyrir þeirra þörfum svo þeir geti átt bærilegt ævikvöld. Flest stjórnmálasamtök taka þó undir slagorðið „að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld“, en á það hefur verulega skort og að orð og efndir hafi farið saman.
Svívirðileg meðferð á öldruðum
Því miður er það svo að þegar aldraðir missa heilsuna, sem óhjákvæmilegt er fyrr eða síðar, þá skortir verulega á að þjónusta við þá sé í samræmi við þeirra þarfir. Langar biðraðir eru eftir einföldum læknisaðgerðum eins og liðskiptum sem valda viðkomandi hreyfihömlun og miklum þjáningum oft misserum saman. Í sumum tilfellum hefur þeim verið þvælt til útlanda í aðgerð sem unnt er að sinna á einkareknu sjúkrahúsi hér á landi með miklu minni kostnaði og fyrirhöfn, en einhver pólitísk hugmyndafræði er látin bitna á sjúklingunum. Svipaða sögu má segja um margar aðrar einfaldar en mjög lífsbætandi aðgerðir fyrir aldraða eins og t.d. skiptingu á augasteini sem þeir eru ekki taldir verðskulda fyrr en þeir eru orðnir hálfblindir. Þessi meðferð skrifast fyrst og fremst á reikning heilbrigðisráðherrans sem fær stuðning annarra ráðherra í ríkisstjórninni sem nú víkja, en hafa stutt til valda. Stuðningur við veikburða aldraða og hjúkrunarheimili er alveg sér kapítuli.
Flestar fjölskyldur þekkja þær hörmungar sem ganga þarf í gegnum þegar aldraður ættingi verður svo veikburða að hann getur ekki séð um sig sjálfur. Þá þarf að ganga milli Heródesar og Pílatusar og toga í alla mögulega strengi til að reyna að fá fyrir hann rými á sæmilegu hjúkrunarheimili því að þau eru allt of fá og hið opinbera getur ekki séð af fé til að byggja þau. Hið opinbera, ráðherrarnir, tímir ekki að greiða sinn hluta af kostnaðinum af því að reka þau þótt það sé fyrirskipað með lögum. Þau berjast því mörg hver í bökkum með tilheyrandi þjónustuminnkun, áhyggjum og stressi fyrir vistmennina og aðstandendur þeirra. Það sæmir ekki þjóð sem hrósar sér af ríkidæmi og velferð og sóar milljörðum í eitt og annað sem skilar engu til samfélagsins að búa ekki öldruðum öruggt skjól á síðustu árum ævinnar. Þetta er fólkið sem hefur alið upp kynslóðirnar sem tóku við af því og hefur lagt grunninn að þeim lífsgæðum sem við þekkjum í dag. Okkur ber skylda að sjá til þess að aldraðir fái þá umönnun sem þeir þurfa á að halda.
Millistig milli heimaþjónustu og hjúkrunarheimila
Stefna stjórnvalda undanfarin ár hefur verið sú að fólk búi heima hjá sér sem lengst, en það er ljóst að búseta á eigin heimili hentar ekki öllum þó þeir þurfi ekki dvöl á hjúkrunarheimili. Búsetuúrræði fyrir eldra fólk eru of fábreytt. Það vantar millistig milli búsetu á eigin heimili og hjúkrunarheimili. Brýnt er að finna fjölbreytt úrræði til að mæta þessari þörf því hjúkrunarheimilin hafa breyst í lífslokaheimili, einstaklingarnir sem þangað fara eru oft orðnir mjög veikir. Eldra fólk sem hefur misst færni til að sjá um sig heima þarf að komast í búsetu þar sem það upplifir sig öruggt og fær þá þjónustu sem það þarf og félagsskap sem er ekki síður mikilvægt. Eldra fólk í samfélaginu er kynslóð sem þarf athygli og rými í umræðunni og þetta fólk vill hafa val og áhrif á eigið líf. Það er og verður mitt baráttumál.
Höfundur er eldri borgari og formaður FEB