Kjósendur hljóta að hafna gervistjórnmálum, sýndarlýðræði og gervifrjálslyndi.
Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl
Fróðlegt væri að vita hvort Þorsteinn Pálsson hafi verið ósammála grein sem Chris Patten, síðasti breski landstjórinn í Hong Kong, birti í Morgunblaðinu 6. júlí sl. um „einstefnu“ Kínverja í utanríkismálum. Helst hallast ég að því að Þorsteinn hafi ekki lesið grein Pattens, því annars hefði hann vart sent frá sér Fréttablaðsgrein 8. júlí sl., þar sem hann hann notar orð eins og „fjölþjóðasamvinnu“ og „evrópusamstarf“ í misheppnaðri viðleitni til að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn og mig. Í greininni segir Þorsteinn m.a.: „Sjálfstæðismenn í suðvesturkjördæmi ákváðu nýlega að setja í baráttusæti á lista sínum í þessu sterkasta vígi flokksins einn helsta andófsmann EES-samningsins, sem auk þess var aðalhugmyndafræðingurinn í andstöðunni við þriðja orkupakkann. Áður skipaði þetta sæti talsmaður frjálslyndra viðhorfa í flokknum.“ Tilvitnaðar línur – og grein Þorsteins í heild sinni – gefa tilefni til eftirfarandi athugasemda og leiðréttinga. Sú „ákvörðun“ sjálfstæðismanna sem Þorsteinn vísar þarna til er lýðræðisleg niðurstaða prófkjörs þar sem alls 4.772 manns greiddu atkvæði, fleiri í þessu kjördæmi einu en í prófkjörum allra annarra íslenskra stjórnmálaflokka samtals á landsvísu. Flokkur Þorsteins valdi ólýðræðislega á framboðslista sína. Þorsteinn afflytur sjónarmið mín þegar hann kallar mig „andófsmann EESsamningsins“. Þvert á móti hef ég fram til þessa lagt aðaláherslu á að Íslendingar nýti ákvæði samningsins til sjálfsagðrar hagsmunagæslu gagnvart ESB og öðrum EES-þjóðum. Þorsteinn ýjar að því að ef Sjálfstæðisflokkurinn vinni umrætt sæti megi „reikna með fleiri uppákomum við innleiðingu reglna á grundvelli EES-samningsins“. Ef skilja má þetta svo að Þorsteinn telji rétt að líkja lágmarkskröfum um þinglega meðferð, hagsmunagæslu og lýðræðislega rót laga við einhvers konar „uppákomur“ þá ber það vott um stjórnlyndi og valdboðsstefnu annars vegar og þrælslund hins vegar, en ekki það „frjálslyndi og lýðræði“ sem flokkur Þorsteins vill þó kenna sig við í orði kveðnu.
Viðhorf liðinnar tíðar
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan ég starfaði sem nýútskrifaður lögfræðingur í dómsmálaráðuneyti Þorsteins Pálssonar. Hann er hættur á þingi en ég er mögulega á leið þangað inn nú í haust. Þetta ætti að vera Þorsteini til áminningar um að staða Íslands gagnvart ESB er ekki hin sama nú og hún var fyrir næstum 30 árum þegar Ísland gerðist aðili að EES. Í grein sinni vísar Þorsteinn ítrekað til „Evrópusamstarfsins“, án þess að séð verði að hann greini þá undiröldu ólýðræðislegrar valdasamþjöppunar sem síðustu ár hefur orðið öllum sýnileg sem það vilja sjá. Þessi skortur á greiningu, sem greinilega háir þó fleirum en Þorsteini, er illskiljanlegur í ljósi þeirra upphafsorða Rómarsáttmálans (1957) að stefnt sé að „æ nánari samruna“ (e. ever closer union). Hinn „æ nánari samruni“ aðildarríkja ESB stefnir nú hraðbyri í átt frá því sem Chris Patten segir í áðurnefndri grein að sé undirstaða tvíhliða samskipta fullvalda ríkja, þ.e. að ákvarðanir séu alla jafna teknar „ýmist í sameiningu eða einhliða, í því augnamiði að varðveita og efla eigin hagsmuni […]“. Eftir útgöngu Breta hefur þessi straumur orðið merkjanlega þyngri, sbr. frétt Reuters 8. júní sl. um þau ummæli utanríkisráðherra Þýskalands að afnema ætti neitunarvald aðildarríkja ESB í utanríkismálum. Smáríkjum á þannig ekki lengur að leyfast að standa í vegi fyrir meirihlutavaldi innan ESB. Á sama tíma berast fregnir af sambærilegri einstefnuþróun í innanríkismálum aðildarríkjanna, því framkvæmdarstjórn ESB hefur tilkynnt að hún hyggist stefna sjö ríkjum fyrir dómstól ESB vegna brota á Evrópureglum, m.a. Þýskalandi fyrir að heimila þýska stjórnarskrárdómstólnum að segja að skattfé Þjóðverja skuli varið í samræmi við þýsku stjórnarskrána en ekki samkvæmt Evrópurétti. Þeir sem harðast vilja halda sig við ESB-draumsýnina munu svara þessu með því að segja að allar þessar málshöfðanir og valdbeiting þjóni göfugum tilgangi. Fram hjá því verður þó ekki horft að slíkir einstefnutilburðir Brusselveldisins misvirða ítrekað lýðræðislegan vilja aðildarþjóðanna. Í framkvæmd víkur lýðræðið þar fyrir skrifræðinu og lýðveldin fyrir skrifstofuveldinu. Íslendingar þurfa ekki að rýna í neina kristalskúlu til að sjá hver staða smáríkja í slíku fyrirkomulagi kemur til með að vera. Stærstu ríkin, sem leggja fram mest fjármagn, verða ráðandi í öllum meginatriðum.
Stöndum gegn ófrjálslyndu og ólýðræðislegu íhaldi
Skrif Þorsteins bera vott um skeytingarleysi gagnvart fullveldi Íslands, því hagsmunir Íslands samræmast illa þeim veruleika að vera jaðarsett og áhrifalaust smáríki gagnvart æðsta valdi innan ESB. Hugsjónir um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og alþjóðlega samvinnu eru ekki í takt við þá vaxandi einstefnu sem nú blasir við á vettvangi ESB. Fullveldi felur í sér að íslensk lög séu sett af lýðræðislega kjörnu Alþingi og að æðsta túlkunarvald um þau lög sé hjá íslenskum dómstólum. Vilji menn ofurselja íslenska kjósendur öðru fyrirkomulagi er sjálfsagt að viðkomandi láti á það reyna í lýðræðislegum kosningum. Það jákvæða við grein Þorsteins er að þar kristallast sú staðreynd að nú í haust gefst kjósendum í reynd færi á að tjá afstöðu sína til þessara álitaefna þar sem menn hafa þá skýran valkost milli þeirra sjónarmiða sem ég hef fært fram, annars vegar, og svo þeirrar tegundar valdasamruna, valdboðs, stjórnlyndis, einstefnu og undirlægjuháttar sem Þorsteinn Pálsson og fleiri boða undir merkjum annarra flokka. Í því samhengi mun mér gefast tækifæri til að draga fram veikleika og misskilning, ef ekki afbökun, í málflutningi Þorsteins og annarra sem horfið hafa frá sjálfstæðisstefnunni og telja nú „augljóst“ að fríverslun útheimti fullveldisframsal til yfirþjóðlegs embættismannavalds og stofnanaveldis í fjarlægum borgum. Þennan draug hafa Bretar kveðið niður eftir útgöngu sína úr ESB með tvíhliða samningum við önnur ríki. Lausnin felst einfaldlega í gagnkvæmri viðurkenningu framleiðslustaðla, auk synjunar- og neitunarvalds þar sem það á við. Hvað sem firrum Þorsteins Pálssonar kann að líða er Íslandi þessi leið fær sem fullvalda ríki, án þess að ofurselja sig erlendu lagasetningar- og túlkunarvaldi. Þetta er hrein skynsemi og stendur nær klassísku frjálslyndi í framkvæmd en ákall Þorsteins Pálssonar um blint íhald, undirlægjuhátt, miðstýringu og órjúfanlega tryggð við ESB, allt á kostnað sjálfsákvörðunarréttar og lýðræðis. Ég treysti kjósendum til að hafna gervistjórnmálum, sýndarlýðræði og gervifrjálslyndi af þeim toga sem Þorsteinn Pálsson boðar nú.
Höfundur skipar 5. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.