ESB gengur ekki upp

Frá ritsjórn Mbl þ. 17. júlí 2021

Miðstýring afnemur lýðræðið og sameiginlega myntin klýfur

Brexit

Því eru takmörk sett að líta megi svo á að Evrópusambandið sé stjórntækt og það er kominn tími til að skipta um kúrs og leggja áherslu á að draga úr miðstýringu og lárétt samstarf í stað þess að auka miðstýringuna og stigveldi þar sem valdboðið kemur að ofan. Þetta er niðurstaða þýska félagsfræðingsins Wolfgangs Streecks, sem í nýrri bók sinni, Milli alþjóðavæðingar og lýðræðis, segir að Evrópusambandið gangi ekki upp. Streeck, sem kemur af vinstri vængnum, er virtur í sínu fagi og stýrði um tíma samfélagsrannsóknum við Max Planck-stofnunina í Köln, er í viðtali í nýjasta tölublaði vikublaðsins Der Spiegel. Þar kallar hann ESB frjálslynt heimsveldi vegna þess að það þurfi að tryggja samstöðu innan þess án þess að beita hernaðarlegum meðulum. Það geri miklar kröfur til þeirra meðala, sem fyrir hendi séu, peninga og fallegra orða. Þá sé mikilvægasta stjórntækið í slíku heimsveldi að stýra valdastéttinni. Með því eigi hann við að tryggja að í aðildarríkjum ESB sé við völd pólitísk stétt, sem sé hlynnt miðstjórninni.

Streeck vísar því í viðtalinu á bug að ESB sé bandalag fullvalda ríkja. Þegar spyrillinn segist ekki þekkja neitt dæmi þess að í Brussel hafi verið reynt að sópa burt óvinveittri ríkisstjórn, spyr hann á móti hvort hann muni ekki hvernig komið var fram við Grikki í evrukreppunni eða hvernig Evrópusambandsríkin undir forystu Þjóðverja og Frakka komu Mario Monti til valda á Ítalíu. Þá sé augljóst að í Brussel sé verið að reyna að knýja fram stjórnarskipti í Póllandi og Ungverjalandi með því að hóta að stöðva eða takmarka fjárstuðning frá Evrópusambandinu.

Vandinn sé sá að ríkisstjórnir þessara landa hafi verið kjörnar með lýðræðislegum hætti. Evrópusambandið sé að reyna að stýra utan og ofan frá og segja stjórnvöldum fyrir verkum og það geti komið í hausinn á því. Kveðst Streeck telja að Viktor Orban, leiðtogi Ungverjalands, muni græða pólitískt á inngripum Evrópusambandsins næst þegar gengið verður til kosninga þar í landi.

Félagsfræðingurinn leyfir sér að auki að efast um hvort það sé verkefni Evrópusambandsins að segja til um ágreining innan landa á borð við Ungverjaland. „Almennt held ég að borgarar lands þurfi sjálfir að berjast fyrir lýðræðinu. Það á einnig við í Rúmeníu og Búlgaríu. Ekkert slíkt land er til frambúðar stjórntækt að utan eftir evrópskri einingaruppskrift,“ segir hann. Streeck hefur einnig hörð orð um evruna. Hún sé uppspretta velmegunar í Þýskalandi og lykilástæða efnahagsvanda ríkjanna við Miðjarðarhaf. Myntin kljúfi Evrópu í stað þess að sameina hana. Efnahagsstjórnmál í Evrópu hafi í það minnsta síðan í kreppunni 2008 snúist um leiðir til þess að lappa upp á myntbandalagið án þess að tekið hafi verið á grundvallarvandanum. Aðgerðir á borð við einskiptis innspýtingu sjóða til Ítalíu séu aðeins brot af því sem þurfi til eigi Grikkir, Ítalir og Spánverjar að geta byggt upp hjá sér að nýju mennta-, stjórn- og heilbrigðiskerfi, sem hafi skroppið saman undanfarinn áratug vegna aðhalds- og sparnaðarkrafna myntbandalagsins. Streeck veltir því upp hvort í Evrópu væri mögulegt að koma á ríkjaskipan, sem ekki byggði á miðstýringu og yfirþjóðlegu valdi heldur samstarfi.
Þegar hann er spurður hvort honum finnist Brexit vera vel heppnað dæmi um endurheimt fullveldis svarar hann að fyrir sér snúist málið um það hvort ríkisstjórnir geti staðið kjósendum sínum lýðræðisleg reikningsskil. Án fullveldis skipti það engu. Fyrir Brexit hafi verið dæmigert að skýla sér bak við að Brussel bannaði þetta og Evrópudómstóllinn hitt, nú hafi bresk stjórnvöld engar afsakanir. Gagnrýni Streecks er hvöss og markviss. Sjónarmiðum á borð við hans er ekki oft gert hátt undir höfði í fjölmiðlum í þeim ríkjum, sem ráða ferðinni í Evrópusambandinu. Frekar er reynt að afskrifa þau með því að spyrða þau við pópúlisma og öfgar. Stuðningsmenn inngöngu í Evrópusambandið draga upp ósvífna glansmynd, sem á ekki neina stoð í raunveruleikanum, og reyna að láta eins og andstaða við aðild jafngildi steinaldarmennsku.

Staðreyndin er sú að Evrópusambandið er komið fram úr sjálfu sér, íbúum aðildarríkjanna líður mörgum eins og svo mikið vald hafi verið flutt til Brussel að lýðræði hafi verið afnumið og evran er dragbítur á efnahag fjölda ríkja innan þess. Innganga í þennan klúbb á ekkert erindi á matseðilinn fyrir næstu kosningar.