Arnar Þór Jónsson skrifar í Fréttablaðið
Blaða- og tímaritsgreinar sem ritaðar eru í góðri trú hljóta að hafa það að markmiði að sýna umfjöllunarefnið í nýju ljósi og vera þannig gagnlegt efnislegt framlag til málefnalegrar umræðu. Það eru því ávallt vonbrigði að rekast á greinar sem afvegaleiða, drepa málum á dreif og / eða varpa hulu yfir raunveruleikann fremur en að upplýsa og fjalla um staðreyndir.
Í Morgunblaðinu 10. júlí sýndi ég með rökum hversu klisjukenndur og villandi málflutningur þeirra er sem vilja gera inngöngu Íslands í ESB að aðalstefnumáli sínu fyrir þingkosningarnar næstkomandi haust.
Lagði ég áherslu á að umfjöllun um slík alvörumál yrði að taka mið af raunsæi (d. realpolitik) en ekki hugarburði eða ímyndunum á borð við þær sem því miður einkenndu Fréttablaðsgrein Þorsteins Pálssonar 8. júlí síðastliðinn.
Í nýrri grein Þorsteins 15. júlí er sami tónn sleginn strax í upphafi þegar hann segir að oft sé „árangursríkara í pólitík að hræða fólk frá stefnu andstæðinganna en að fá það með rökum til að aðhyllast eigin málstað.“
Svo er að sjá sem hann beiti í þessum tilgangi afbökunum, ýkjum og rangfærslum. Ég hvet alla til að lesa áðurnefnda Morgunblaðsgrein mína og bera saman rökfærslur okkar Þorsteins til að meta hvor okkar byggir á traustari grunni.
Það er illa komið fyrir fyrrverandi formanni og varaformanni Sjálfstæðisflokksins þegar þau hafa gengið í lið með þeim sem vilja grafa undan sjálfstæði þjóðarinnar með staðlausum stöfum og hræðsluáróðri; með þeim sem vilja að Íslendingar gefi frá sér til útlanda aftur stjórn eigin mála sem þeir svo lengi börðust fyrir að fá inn í landið.
Framsetning Þorsteins ber ekki með sér að hann hafi fylgst með þróun alþjóðamála síðastliðna áratugi eða gert sér grein fyrir að gagnaðili okkar í EES-samningum, Evrópusambandið (ESB), hefur stökkbreyst á þeim tæpu 30 árum sem liðin eru frá samningsgerðinni. Þorsteinn lætur eins og tíminn hafi staðið í stað frá því að Ísland gerðist aðili að EFTA og síðar EES. Umfjöllun Þorsteins er fyrir vikið hvorki raunsæ né málefnaleg.
Að gefnu tilefni er því skylt að árétta nokkur atriði:Íslendingar gerðu viðskiptasamning við Efnahagsbandalag Evrópu 1993, EES-samninginn, en hafa aldrei samþykkt að ganga í pólitískt bandalag við ESB eða lúta forræði þess. Í áðurnefndri Morgunblaðsgrein minni vakti ég athygli á því hvernig ESB seilist til sífellt meiri áhrifa gagnvart aðildarríkjunum, bæði í utanríkis- og innanríkismálum.
Frammi fyrir þeirri stöðu er ekki heiðarlegt að segja að EES-samningurinn hafi „eflt“ fullveldi Íslands.Að líkja saman aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og ESB er með sama hætti óviðeigandi, því samstarf á vettvangi varnarbandalagsins hefur alla tíð miðað að því að forða erlendum afskiptum af innanríkismálum bandalagsríkjanna og tryggja rétt þeirra til að stýra innri málum sínum sjálf. NATO eru ekki samtök með yfirþjóðlegu valdi eins og ESB – og getur því ekki skuldbundið aðildarríki sín til neins sem þau ekki samþykkja sjálf hverju sinni.
Smáríki eru peð á hinu fjölþjóðlega taflborði ESB. Í stað þess að fullvalda ríki setji sín eigin lög að undangenginni gagnrýninni umræðu á löggjafarþingi viðkomandi þjóðar er í Brussel látlaust unnið að styrkingu yfirþjóðlegs valds. Í stað lýðræðislegs réttarríkis reiðir hið yfirþjóðlega vald sig á ólýðræðislega lögstjórn. Hinn rauði þráður er andstaða við raunverulegt staðbundið lýðræði, þar sem borgararnir eiga kost á að tempra meðferð ríkisvaldsins.
Þegar valdhafar missa trú á getu þjóða til að marka eigin braut fellur lýðræðis- og frjálslyndisgríman. Alræðisógnin verður þá raunveruleg. Leiðin til ánauðar hefur fyrir löngu verið kortlögð, meðal annars af hagspekingnum Hayek.
Helstu kennileiti á þeirri braut er ríkisvæðing hagkerfisins, stigvaxandi stéttabarátta, aukin ríkisíhlutun á öllum sviðum, æ umfangsmeira skrifræði, skerðing fullveldis og sérstakur varnarmúr um stjórnmálamenn, háskólamenn og embættismenn sem vilja greiða götu ráðandi afla. Allt gerist þetta í skjóli eða með stuðningi eftirlátssamra fjölmiðla sem kjósa í vaxandi mæli að gefa fólki fyrirmæli um leyfilegar skoðanir og hegðun fremur en að segja fréttir og upplýsa.
Í slíku umhverfi freistast furðu margir til þess að kalla hið illa gott og hið góða illt, svo sem með því að kalla stjórnlyndi „frjálslyndi“ og kenna harðræði við „lýðræði“. Við slíka menn er vandi að rökræða. Sem fyrr legg ég þó traust mitt á að almenningur láti ekki leiðast afvega þegar hagur og velferð þjóðarinnar er í húfi, kunni að þekkja rétt frá röngu og greina ljós frá myrkri.