Hreinræktað vinstra afkvæmi er ekki í burðarliðnum
Úr leiðara Mbl 27. september 2021
En svo kom „hrunið“. Þá töldu langþjáðir vinstrimenn að þeir væru loks komnir í „land tækifæranna“. Tækifærin þau yrði að nýta út í æsar. Blásið var til árása á Alþingishúsið og Seðlabankann og fleiri hús illskunnar og eins á heimili útvalinna í þjóðfélaginu. Ríkisútvarpið tók fullan þátt í þessu nýja réttlæti, og hefur aldrei efast, svo að séð verði. Toppur tilverunnar náðist svo þegar hér var mynduð „fyrsta hreina vinstristjórnin“ sem hækkaði skatta oftar en 100 sinnum á sínum ferli.
Sjálfstæðisflokkurinn hafði aldrei verið fjær því að stjórna landinu en þá. En skemmst er frá því að segja, að engir tveir stjórnarflokkar fengu aðra eins útreið, eftir aðeins eitt kjörtímabil og þessir hreinræktuðu og var reyndar bætt um betur í kosningunum þar á eftir. Samfylkingin hefur ekki borið sitt barr síðan.
Í aðdraganda kosninga nú tilkynnti Samfylkingin að hún myndi ekki ljá máls á því að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokki. Það hafði ekki minni áhrif, en ef Guðmundur og Glúmur hefðu gefið sambærilega yfirlýsingu. Samfylkingin hefur aðeins einu sinni orðið stór, eins og vonir stóðu til. Það var vorið 2003 eftir að flokkurinn hafði gefið út baráttuyfirlýsingar með tilvonandi útrásarvíkingum og þaðan af meiri svindlurum um óskráð samstarf þessara velunnara smáfólksins í landinu og flokksins. En hvernig urðu úrslitin nú? Samfylkingin náði, eftir að hafa setið í stjórnarandstöðu um hríð og komist í fylgi niður undir 10% og nú síðast, eftir 4 ár til viðbótar í stjórnarandstöðu, að tapa rúmlega 2,2% til viðbótar. Þó voru hún og Viðreisn ein um að gefa ESB fögur fyrirheit um að draga þjóðina sem fyrst inn í það ólukkulega samband.
Systurflokkarnir tveir sem einokuðu þetta mikla baráttumál fyrir fullveldisskerðingu þjóðarinnar og náðu um 18% fylgi samanlagt! Vissulega sýndu mælingar nokkru fyrir kosningar að nálin væri tekin að halla sér nokkuð til vinstri. En þá greip Gunnar Smári inn í og lýsti áformum þeirra Leníns heitins um betri tíð, bæði í grafhýsi þess síðarnefnda og hér heima. Þau gengu að vísu ekki út á að farga milljarða tugum úr búi yfirboðara Gunnars Smára (og í framhaldi skattgreiðenda) eins og þegar hann var sem stórtækastur síðast. Enda breyttur maður nú á ferð, efldur af fé blásnauðra verkamanna, í gallabuxum og með götóttan trefil, kominn úr einkaþotunni yfir í ryðgaðan strætó sem SVR var hætt að nota. Hann gaf nægilega mikið upp um framtíðina, eins og til að mynda það að dæmdi Hæstiréttur framtíðarinnar gjörðir hans ólögmætar myndi hann ryðja réttinn, eins og núverandi formaður Eflingar reyndi bæði að gera við þingið og dómstólinn sem tók mál hennar fyrir. Það var í sama mund þegar þessi þrumuský Smárans drundu í eyrum almennings sem nálin, sem mældi viðhorf fólksins, tók að færast á vit heilbrigðrar skynsemi á ný.”